Þór Jakobsson segir frá Sæmundi fróða og öðrum Oddaverjum – U3A

Næsti viðburður á vettvangi U3A verður : Þriðjudaginn 27. febrúar kl 17:15 í Hæðargarði 31

Þór Jakobsson rekur sögu Odda á Rangárvöllum og segir frá Sæmundi fróða og öðrum Oddaverjum hjá U3A

í erindinu verður saga ábúenda í Odda á Rangárvöllum fyrstu aldir Íslandsbyggðar rakin í stórum dráttum, ætt Oddaverja sem þar ríkti í þrjár og hálfa öld (935-1290). Staldrað verður við fræðimanninn og þjóðsagnapersónuna Sæmund fróða Sigfússon (1056-1133).

Aðgangseyrir er 500 krónur. Allir velkomnir, en skráning nauðsynleg

 SKRÁ MIG HÉR. 

Oddi á Rangárvöllum

er sögufrægur staður.  Þar bjuggu Oddaverjar, ein merkasta ætt þjóðveldisaldar.  Þar á meðal voru Sæmundur fróði Sigfússon (1056 – 1133), lærðasti maður á landinu um sína daga, og sonarsonur hans, Jón Loftsson (1124 – 1197), goðorðsmaður og virtasti höfðingi á Íslandi.  Hjá Jóni ólst upp Snorri Sturluson (1178 – 1241), sagnaritari og lögsögumaður, sem telja má frægasta Íslending fyrr og síðar.  Allar aldir síðan var Oddi eftirsóttur staður og bjuggu þar ýmsir nafntogaðir prestar, en kunnastur þeirra er þjóðskáldið sr. Matthías Jochumsson (1835 – 1920).

Hver var hinn raunverulegi Sæmundur, Sæmundur hinn fróði (1056 – 1133), maðurinn „bak við“ þjóðsagnapersónuna Sæmund sem lék á göldrótta lærimeistara, synti á sel um endilöng úthöf og kljáðist við kölska?  Sæmundur Sigfússon í Odda var enginn galdramaður en hann var lærðasti maður landsins sinnar samtíðar, hafði lært í Frakklandi, sennilega allar hinar svonefndu „sjö frjálsu listir“, fræði- og listgreinarnar sem kenndar voru í helstu skólum meginlandsins á miðöldum.  Það var mikið lán fyrir Ísland að Sæmundur ílentist ekki í Frakklandi en það var leikbróðir hans og nágranni úr Fljótshlíð, Jón Ögmundarson (1052 – 1122), síðar biskup á Hólum, sem hafði upp á Sæmundi ytra og fékk hann til að snúa heim til Íslands, heim í Odda.

Þór Jakobsson veðurfræðingur er fyrrverandi formaður Oddafélagsins. Hann er fæddur í Kanada 5. október 1936 og fluttist með foreldrum (sr. Jakobi Jónssyni og Þóru Einarsdóttur) og fjórum systkinum til Íslands árið 1940.  Ólst upp í Reykjavík.  Fór eftir stúdentspróf 1956 til Noregs í náttúruvísindanám. Lauk þar prófum í jarðeðlisfræði og veðurfræði (cand.mag. og cand.real) 1966. Starfaði við Háskólann í Bergen en fluttist árið 1968 ásamt konu sinni, Jóhönnu Jóhannesdóttur tæknifræðingi og tveimur börnum okkar til Kanada. Framhaldsnám við McGill – háskóla í Montréal í Quebéc-fylki.  Lauk þaðan doktorsnámi 1973.  Vann þar einnig við ýmislegt annað.  Fór m.a. með stærsta ísbrjóti Kanada norður Baffinsflóa í janúar/febrúar 1972. Vann síðan við rannsóknadeild Veðurstofu Kanada í Toronto í Ontario-fylki á árunum 1973-1979.  Fluttist ásamt fjölskyldu sinni (aftur!) til Íslands 1979.  Deildarstjóri og verkefnastjóri hafísrannsókna og hafísþjónustu á Veðurstofu Íslands til ársins 2006 er hann lét af störfum.

 

Ritstjórn febrúar 22, 2018 13:15