Þú braust upp mig hægaloft… fyrirlestur í Þjóðminjasafni á fimmtudag

auglysing-ingibjorgIngibjörg Eyþórsdóttir heldur fjórða fyrirlestur haustmisseris í fyrirlestraröð RIKK fimmtudaginn 27. október, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, kl. 12-13. Fyrirlestur hennar nefnist „Þú braust upp mig hægaloft, þar ég inni lá.“

Ingibjörg er doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknarverkefni hennar beinist að sagnadönsum á Íslandi á þeim tíma sem þeir voru hluti af munnlegri dægurmenningu þjóðarinnar,  með sérstakri áherslu á kvæði þar sem ofbeldi, sérstakega gagnvart konum, er umfjöllunarefnið.

Sagnadansar (folkeviser, ballader) er kvæðagrein sem barst til Íslands frá Noregi og Danmörku á síðmiðöldum og var hluti dægurmenningarinnar allt fram á 18. öld. Sagnadansar eru fremur stutt kvæði sem segja afmarkaða sögu og hafa verið kveðin fyrir dansi. Rúmlega þrír fjóru hlutar kvæða af þessu tagi sem varðveitt eru á Íslandi segja frá samskiptum kynjanna, ástum og átökum og í furðu mörgum þeirra er ofbeldi af einhverju tagi ríkjandi. Konur eru þvingaðar á einhvern hátt og í sumum kvæðanna er lýst hreinum nauðgunum. Margt bendir til þess að kvæði af þessu tagi hafi fyrst og fremst verið kvennagrein, samúð kvæðanna er með konunum og oft hefna konur kvæðanna á grimmilegan hátt, en ekki að sama skapi raunsæislegan. Þetta vekur upp spurningar um tilgang kvæðanna. Jafnvel má ætla þau hafi verið tæki til að koma mikilvægum upplýsingum milli kynslóða kvenna, og ekki síður til valdeflingar þeirra. Einnig má líta á kvæðin sem eins konar kaþarsis eða hreinsun, enda má gera ráð fyrir að margar konur hafi búið yfir reynslu áþekkri þeirri sem kemur fram í kvæðunum.

Yfirskrif fyrirlestrarins er tekin úr íslenskum sagnadansi.

Fundarstjóri: Dagný Kristjánsdóttir, prófessor.

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku, er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Viðburðurinn er á Facebook!

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2016 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

 

Með kveðju,

 

RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum | RIKK – Institute for Gender, Equality and Difference

Háskóli Íslands | University of Iceland

Gimli | Gimli building

Sæmundargötu 2, 3. hæð | Sæmundargata 2, 3rd floor

101 Reykjavík | 101 Reykjavik, Iceland

Sími 525-4595 | Tel: 525-4595

www.rikk.hi.is | www.facebook.com/rikk.haskoliislands

Ritstjórn október 25, 2016 11:34