Valdefling kvenna í Pakistan – Húsi Vigdísar

Imran Khan heldur erindið „Samfélagsmiðlar og valdefling kvenna í Pakistan“, þriðjudaginn 5. september, kl. 15.30-17.30 í Veröld – Húsi Vigdísar.

Í erindinu spyr Khan hvort samfélagsmiðlar séu valdeflandi fyrir konur og hvernig fjallað sé um kvenleikann á samfélagsmiðlum í Pakistan. Hann veitir innsýn í daglega notkun kvenna á samfélagsmiðlum, kynjamun á notkun þeirra og tilraunir karla, annarra kvenna og ríkisins til að stýra henni. Þá ræðir hann þær breytingar sem fylgt hafa aukinni notkun samfélagsmiðla og afleiðingar þeirra verða ræddar út frá sjónarhorni aðgerðarsinna. Khan sýnir þrjár stuttar heimildamyndir á meðan á erindinu stendur.

Imran Khan er með meistarapróf í kynjafræðum frá Quaid-i-Azam-háskóla, BA-próf í stjórnmála- og viðskiptafræði frá Punjab-háskóla og hefur lokið mannréttindaþjálfun hjá Mehergarh stofnuninni í Pakistan.
Á sínum akademíska ferli hefur hann fjallað um viðfangsefni sem tengjast hryðjuverkum, trúarbrögðum og fólksflutningum með hliðsjón af stöðu kvenna í Pakistan. Hann er yfirmaður samtakanna Seeds of Peace í Pakistan og hefur virkjað ungt fólk, sérstaklega stúlkur, til þátttöku í friðarbúðum þar sem lögð er áhersla á traust, leiðtogahæfni, samþættingu og samtvinnun, m.a. trúarbragða.

Áður en Imran hóf störf hjá Seeds of Peace árið 2014 starfaði hann sem framkvæmdastjóri fyrir Pakistan Poverty Alleviation Fund og með ungmennaráði Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna.

Erindið er flutt á ensku, aðgangur er öllum opinn og ókeypis.

Finndu viðburðinn á Facebook!

Ritstjórn ágúst 29, 2017 11:10