Viðbrögð valkyrju við karlasamfélaginu – ókeypis fyrirlestur í Þjóðminjasafni

viðburðurKristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, heldur tíunda fyrirlestur vormisseris, „Viðbrögð valkyrju við karlasamfélaginu“, fimmtudaginn 12. maí í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands kl. 12-13.

Kristín Vala nam jarðefnafræði og bergræði við Háskóla Íslands og fór síðan í framhaldsnám til Northwestern University í Evanston Illinois, þar sem hún lauk MS í jarðvísindum 1981 og PhD í jarðefnafræði 1984.  Hún starfaði um tíma í Chicago eftir útskrift en flutti svo til Bristol í Englandi þar sem hún starfaði við jarðvísindadeildina í 20 ár.  Árið 2008 snéri hún aftur til Íslands og starfaði fyrst sem forseti Verkfræði og náttúruvísindasviðs og sem prófessor í Jarðvísindadeild síðan 2012.

Eftir að hafa fengist við jarðefna- og umhverfisfræði í 25 ár gerði Kristín Vala sér grein fyrir því hve ósjálfbær lífsmáti jarðarbúa væri og hefur síðan unnið í rannasóknum og kennslu sem tengjast sjálfbærni.  Á vinnuferli hennar hefur hún yfirleitt verið eina konan í nefndum og fyrsta konan í framgangi.  Hún var t.d. fyrsta konan sem ráðin var til Jarðvísindadeildar Bristol-háskóla. Hún varð síðan fyrsti kvenprófessor deildarinnar og um leið raunvísindasviðs háskólans.  Hún hefur því lært á sinni löngu leið hvernig best er að bera sig að í samfélagi karla.

Í fyrirlestrinum mun Kristín Vala ræða um hvað hún lærði á leiðinni, hvaða aðferðir henta best til að lenda ekki undir og það að árangur er alls ekkert happdrætti – heldur frekar kúnstin að kunna að nota rétt viðbrögð á réttum tíma og vera með sóknaráætlun fyrir sjálfan sig.

Fyrirlesturinn er fluttur á ensku, er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Viðburðurinn er á Facebook!

Hádegisfyrirlestraröðin á vormisseri 2016 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og UNU-GEST, Alþjóðlega jafnréttisskóla Háskóla sameinuðu þjóðanna.

Ritstjórn maí 11, 2016 14:52