Viltu öðlast réttindi sem Húnvetningur?

Háskóli þriðja æviskeiðsins efnir til námskeiðs í húnvetnskum fræðum sem hefst mivikudaginn 11.nóvember. Þetta er hvorki meira né minna en í fyrsta sinn sem boðið er uppá slíkt námskeið hér á landi, en U3A heldur það í samstarfi við Húnvetningafélagið í Reykjavík. Það er sérstaklega tekið fram að hér er um fyrrihlutanám að ræða. Jón Björnsson hefur umsjón með námskeiðinu og í kynningu á því segir hann meðal annars.

Enn er ekki fullfrágengið hverskonar réttindi  munu fylgja því að ljúka þessu námi, en það mun til dæmis vera einkar hentugt þeim sem eru giftar/kvæntir Húnvetningum, hafa von um það eða hafa slíkt í hyggju. Þá er ekki verra að hafa gráðu í húnvetnskum fræðum ef Blönduóslögreglan tekur mann á of miklum hraða í sýslunni.

Hjá U3A er í ráði að efna síðar til svipaðrar samvinnu við fleiri átthagafélög af einkar göfugum hvötum sem ekki verða orðlengdar hér.

Áformað er að þetta nám taki til 4-6 síðdegisfunda kl. 1700 til 1900, í nóvember og janúar næstkomandi. Kannski verður efnt til ferðar norður að náminu loknu.

Meiningin er að leggja alla áherslu á að námið sé fróðlegt og jafnskemmtilegra en háskólanám yfirleitt er.

 

Með U3A stendur Húnvetningafélagið í Reykjavík að þessu framtaki og námið fer fram í húsakynnum Húnvetningafélagsins í Húnabúð, Skeifunni 11, 2 hæð. Það hefst miðvikudaginn þann 11. nóvember næstkomandi kl. 17:00 (stundvíslega) með því að Jón Torfason, höfundur bókar Ferðafélags Íslands um Austur-Húnavatnssýslu, segir frá Austursýslunni. Miðvikudaginn 18. nóvember, jafn stundvíslega klukkan 17:00, kemur síðan Þór Magnússon, fyrrum þjóðminjavörður, sem hefur ritað samskonar bók um Vestursýsluna og segir frá henni. Og Jón heldur áfram.

Eftir þetta fara nemendur í langt jólafrí, en í  janúar verður tekið til aftur. Þá hafa fyrirlesarar, víðfrægir fyrir þekkingu, mælsku og skemmtilegheit fallist á að kenna um einstök málefni sem varða sýsluna og mannlíf þar. Allir fyrirlesarar þiggja minnst lektorsnafnbót fyrir viðvikið en þeir skemmtilegustu verða útnefndir dósentar.

Áríðandi er að nemendur greiði 500 króna skólagjald í hvert sinn sem þeir sækja fyrirlestur, en án þess er miklu minni von um að fá réttindi.

Á fjórða tug manna hefur þegar skráð sig í námið en þeir sem hug hafa á eru jafn velkomnir og skrá sig þá á staðnum.

Með von um góða þátttöku og skemmtilegar stundir,

 

Ritstjórn nóvember 5, 2015 13:53