Vildu lækna sár sem ekki gróa

Baldur Tumi Baldursson sérfræðingur í húðlækningum

Bakgrunnurinn að þessu var að við vildum lækna sár sem ekki gróa“ segir Baldur Tumi Baldursson húðlæknir hjá Kerecis um framleiðslu á kremum hjá fyrirtækinu. „Við vildum taka þetta lengra og reyna að fyrirbyggja sár. Sár á fótum geta til dæmis verið hættuleg. Þeir sem koma til læknis með heimakomu, sem er hættuleg sýking, hafa nánast alltaf  fengið hana gegnum sár á fótum“.

Það vakti ekki litla athygli þegar fyrirtækið Kerecis hóf að framleiða roð vestur á Ísafirði, sem græðir sár og styrkir líkamsvefi. Það er nú orðið verðmæt útflutningsvara og meira en 10 þúsund sjúklingar hafa verið meðhöndlaðir með sáraroði fyrirtækisins á undanförnum árum. Kerecis hefur hlotið fjölda viðurkenninga, til dæmis Vaxtasprotann á síðasta ári og nú nýlega verðlaun Samtaka iðnaðaris fyrir frumkvöðlastarf.

Kerecis framleiðir nú ferns konar krem til viðbótar við vefjaviðgerðarefnið /roðið, sem eiga það sameiginlegt að innihalda omega fitusýrur. Baldur Tumi segir að omegafitusýrur hafi lengi verið notaðar í krem, en það hafi verið vandamál að þær vilji gefa frá sér lykt. „Við höfum tekist á við það með þokkalegum árangri“ segir hann. Mýkjandi efni í mismunandi styrk eru síðan blönduð omegafitusýrunum og úr verða mismunandi krem. Yfirheiti þessara fjögurra kremtegunda er Maricell, en kremin eru  eftirfarandi.

Xma. Þetta er eins og heitið bendir til, þykkt krem til að bera á exem.  Í því er virka efnið omegafitusýrur. Það er ætlað fyrir mjög viðkvæma rauða og bólgna húð.

Psoria, er með svolitlu mýkjandi efni, til viðbótar við omegafitusýrurnar og er notað við psoriasis eða sóra eins og sjúkdómurinn er einnig kallaður. Það eru til margar aðferðir við meðferð psoriasis, en þetta krem Psoria, getur minnkað einkenni exemsins um 70-80%, en einkennin hafa mikil áhrif á útlit sjúklinga. Baldur segir að kremið mildi áhrifin mjög mikið og mörgum þykir þægilegt að nota krem sem eru ekki með sterum.

Footguard, er kremið sem Kerecis þróaði fyrst. Þeir félagar voru búnir að þróa vörur til að meðhöndla sár og vildu nota sérfræðiþekkingu sína til að bjóða sykursýkissjúklingum fyrirbyggjandi meðferð gegn fótasárum. Lunginn af öllum sykursýkissárum myndast á fótum. „Það koma sprungur sem verða að stóru sári“ segir Baldur en þeir hjá Kerecis gerðu krem úr sjávarfangi með ómegafitusýrum og bættu svo í það efnum til að tryggja þá eiginleika kremsins að koma í veg fyrir sprungur á fótum.

Smooth er krem til að slétta og mýkja húðina. Það er borið á húðnabba og er sterkasta kremið sem fyrirtækið framleiðin, þ.e. í því er hlutfall omegafitusýrunnar lægst, en meira af öðrum efnum notað með.

Kremin frá Kerecis eru að hluta úr omega fitusýrum

Baldur Tumi segir: „Sem húðlæknir stóðst ég ekki freistinguna að búa til alvöru krem fyrir ákveðna kvilla, en ekki almenn krem fyrir allt og ekki neitt. Þessvegna er þetta kannski svolítið flókið að hafa línu með fjórum kremum. Málið er að útgangspunkturinn er í omega fitusýrunum sem eru í öllum kremunum og síðan eru mýkjandi og hyrnisleysandi efnin í ávaxtasýrum og karbamíði í vaxandi styrk frá Psoria, í Footguard og svo loks í Smooth. Það má geta þess að ávaxtasýrur eru virka efnið í öllum svökölluðum öldrunarkremum.

Ég er sérstaklega stoltur af því að við undirstrikuðum stöðu okkar sem þekkingarfyrirtæki með því að skrá kremin ekki sem snyrtivöru heldur sem lækningavöru, með þeim ströngu kröfum sem slíkt inniber.“

 

Ritstjórn júlí 5, 2018 06:59