Vilja að stofnað verði embætti ráðherra öldrunarmála

Landssamband eldri borgara skorar á stjórnmálaflokkana sem nú ræða myndun nýrrar ríkisstjórnar, að stofna embætti ráðherra öldrunarmála. Þetta kemur fram í áskorun sem samþykkt var á stjórnarfundi sambandsins í gær. Í áskoruninni kemur meðal annars fram:

Fólki á aldrinum 67 ára og eldra mun fjölga um rúmlega 20.000 manns fram til ársins 2030, eða um 53% frá því sem nú er. Þetta er svipuð þróun og orðið hefur í öðrum Evrópulöndum, þar sem stjórnvöld hafa, til dæmis í Póllandi, gert áætlanir um hvernig fjölguninni skuli mætt. Svíþjóð hefur farið þá leið að skipa sérstakan ráðherra öldrunarmála. Það er löngu tímabært að þessi mál verði tekin fastari tökum hér á landi en verið hefur. Það er góð leið til þess, að fela sérstökum ráðherra þennan málaflokk.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara sagði í samtali við Lifðu núna, að miðað við hversu margir eldri borgarar eru í landinu og þeim eigi eftir að fjölga verulega, sé nauðsynlegt að horft sé til allra þeirra þátta sem þarf að hlúa að, vegna málefna eldra fólks. „Það eru mörg mál sem hafa staðið útaf og eru óleyst og það er mikilvægt að þau séu öll undir einum hatti“, segir hún „þannig að það sé hægt að fara yfir það sem þarf að fara yfir og leysa það sem þarf að leysa. Það er okkur bara mjög mikilvægt hjá Landssambandinu“. Þegar Þórunn er spurð hvort hún telji líklegt að sérstakur ráðherra öldrunarmála verði í næstu ríkisstjórn segir hún. „Það er ómögulegt að segja, en miðað við það hversu margir stjórnmálaflokkar settu þessi málefni á oddinn í kosningabaráttunni og það að þessi málaflokkur var í þriðja sæti yfir þá málaflokka sem bar hæst í umræðunni fyrir kosningarnar, þá er full ástæða til þess“, segir Þórunn og bætir við að ekki þurfi endilega að fjölga ráðherrum. Velferðarráðuneytinu hafi til dæmis verið skipt í síðustu ríkisstjórn og „hvers vegna ekki að leggja áherslu á þennan málaflokk?“, bætir hún við í lokin.

 

Ritstjórn nóvember 17, 2017 12:07