Nauðsynlegt að hætta að tengja starfslok við tiltekinn afmælisdag

Sú fjölgun fólks á eftirlaunaaldri sem fyrirsjáanleg er bæði hér á landi og í flestum Evrópulöndum á næstu áratugum, veldur því að mikið hefur verið rætt um hækkun eftirlaunaaldurs í álfunni. Yfirlýsingar Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra Svía á síðasta ári, um að hækka eftirlaunaaldurinn þar í landi um 10 ár, eða í 75 ár olli heilmiklu fjarðrafoki. Sú umræða hefur einnig skotið upp kollinum hér að hækka eftirlaunaaldurinn og Pétur Blöndal alþingismaður flutti til dæmis þingsályktunartillögu á Alþingi á síðasta ári, þar sem lagt var til að menn fengju sjálfir að velja hvenær þeir hættu í starfi og færu á eftirlaun. Bent var á í tillögunni að þegar Bismarck kanslari Þýskalands tók þá ákvörðun seint á 19. öld að greiða 70 ára gömlum hermönnum lífeyri, hafi meðalaldur fólks verið mun lægri en hann er nú, eða 49 ár. Sveigjanleg starfslok eru núna mál málanna og hafa verið lengi. Friðrik Sophusson þáverandi fjármálaráðherra benti til dæmis á það í grein árið 1998, sem var skrifuð í tilefni nýrrar lagasetningar um lífeyrismál, að það þyrfti að ýta undir aukinn sparnað einstaklinga til að mæta þeirri útgjaldaaukningu sem fyrirsjáanleg er vegna hlutfallslegrar fjölgunar aldraðra á næstu árum. Friðrik sagði fjallaði einnig um sveigjanleg starflok í greininni.

Nauðsynlegt er að auka valfrelsi fólks á vinumarkaði og hætta að tengja starfslok við tiltekinn afmælisdag viðkomandi. Auka þarf sveigjanleika og svigrúm á vinnumarkaði, þannig að hár starfsaldur, starfshlé vegna endurmenntunar, ráðning í hlutastarf og tímabundið hlé á atvinnuþátttöku vegna barna eða sjúkra, séu allt þættir sem geti talist eðlilegir í lífshlaupi sérhvers manns

Og Friðrik sagði ennfremur:

Því er þá haldið fram að með því að senda eldra fólk heim skapist störf fyrir ungt, atvinnulaust fólk. Margar Evrópuþjóðir hafa snúið frá þessari stefnu þar sem hún hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Reglan á að vera sú að allir einstaklingar sem hafa fullt starfsþrek eiga að geta tekið þátt á vinnumarkaði óháð aldri. Það er engum gerður greiði með því að reka fólk úr vinnu vegna aldursins eins. Við eigum að gefa eldra fólki kost á að starfa áfram og líta fremur á hvaða gagn einstaklingar geta gert í atvinnulífinu en að spyrja um aldur þeirra.

Árið 1990 var flutt þingsályktunartillaga á Alþingi um að skipa nefnd sem fengi það hlutverk að móta reglur um sveigjanlegri starfslok, í kjölfar skýrslu frá Landlæknisembættinu um bætta heilsu eldra fólks. Í greinargerð með tillögunni sagði meðal annars:

Athyglisvert er að neysla taugaróandi lyfja og svefnlyfja eykst mjög eftir að fólk kemur á eftirlaunaaldur og hættir störfum. Nærtækasta skýringin er að fólkið þjáist af vanlíðan og leiða og finnist að það hafi ekkert hlutverk og sé sett til hliðar í samfélaginu.

Þá var málið einnig tekið upp á Alþingi árið 2004. Félög eldri borgara hafa líka látið málið til sín taka og FEB skoraði á atvinnurekendur að gefa fólki á aldrinum 64-67 ára kost á sveigjanlegum eftirlaunaaldri, meðal annars með hlutastörfum. Þrátt fyrir þetta hefur málið ekki hlotið afgreiðslu hjá löggjafanum. Sveigjanleg starfslok tíðkast þó í einhverjum mæli í atvinnulífinu hér á landi.

Ritstjórn febrúar 20, 2014 14:24