Vissi ekki hver Helgi Pé var

„Við fengu okkur pizzu í gær í tilefni af því að það eru í dag liðin 40 ár frá því við kynntumst“, segir Helgi Pétursson þegar Lifðu núna hefur samband við hann fyrir skömmu til að falast eftir viðtali við hann og konuna hans, Birnu Pálsdóttur. „Við hittumst fyrst á Regent Palace hótelinu í London“, segir Helgi. „Ég var í heimsókn hjá Gunna Þórðar og Birna hafði verið á ferðalagi með vinkonum sínum“.

Fannst ég ekkert merkilegur

Ríó tríóið hefur verið hluti af lífi Helga í hálfa öld. Afmælistónleikar verða í Hörpu 23. október.

Ríó tríóið hefur verið hluti af lífi Helga í hálfa öld. Afmælistónleikar verða í Hörpu 23. október.

„Gréta Erlends og fleiri voru þarna með mér“, rifjar Birna upp „ og við fórum út að borða. Við þekktum einhverja í kringum Gunna Þórðar, meðal annars Guðlaug Melsteð sem þá var í hljómsveitinni Haukum. Við fórum að tala við hann og svo segir Gunni. „Helgi Pé er heima að passa“. Ég vissi ekkert hver Helgi Pé var, en áttaði mig svo á því þegar við komum uppá hótel að það var sá sem spilaði með Ríó Tríóinu“ Helga fannst hann þyrfti að athuga þetta betur „Ung kona frá Íslandi sem þekkti mig ekki og fannst ég ekkert merkilegur“.

Þótti hann mjög fyndinn

Þegar Helgi er spurður hvort hann hafi strax orðið hrifinn segir hann „ Mér fannst hún strax mjög heillandi og finnst það enn“. En Birna segir „Ég hló alla vega mjög mikið og fannst hann mjög fyndinn“ „Já, ég ákvað að ég þyrfti að setja hömlulaust grín í þetta ef ég ætlaði að komast eitthvað áfram“, segir Helgi. Fjörutíu árum, fjórum börnum og níu barnabörnum síðar sitja þau við borðstofuborðið heima hjá sér í Garðabænum með blaðamanni Lifðu núna.

Fjölskyldan árið 1988

Fjölskyldan árið 1988

Leikskólar voru ekki í boði

Birna segir að auðvitað hafi hjónabandið gengið upp og ofan. Þau eignuðust fjögur börn með látum. Elsta dóttirin Bryndís sem býr í Danmörku fæddist einu og hálfu ári eftir að þau hittust og þá giftu þau sig. Börnin komu ansi þétt og Birna var heimavinnandi í 10 ár eftir að þau fóru að koma í heiminn. „Maður fékk ekki leikskóla, það var ekki í boði“ segir hún. „Við bjuggum í Suðurhlíðum og þar voru allir í vandræðum með börnin. Það var alltaf mikið af börnum hjá okkur af því að ég var heima. Börnin í nágrenninu fengu að koma til mín eftir skóla og þangað hringdu foreldrarnir til að grennslast fyrir um þau“.

Mafían myndi ekki þora að rukka þessa vexti

Tvö barnanna náðu síðar að komast á leikskóla, en svo ákvað fjölskyldan að taka sig upp árið 1980 og flytja til Bandaríkjanna, til Washington þar sem Helgi fór í skóla og starfaði sem fréttaritari Ríkisútvarpsins. Fyrir var hann með kennarapróf, kenndi í tvö ár, en fór þá að starfa við fjölmiðla og gerði það, þar til hann hóf störf hjá Samvinnuferðum. Hann segir að stutta útgáfan af lífi þeirra Birnu sé „Fjögur börn, níu barnabörn, verðtryggð lán á vöxtum sem mafían myndi aldrei þora að rukka inn, misgengi, greiðsluerfiðleikalán og hrun“. Sem sagt venjulegir Íslendingar.

Börnin fjögur árið 1985

Börnin fjögur árið 1985

Barnabörnin í beinni

Helgi segir að þegar þau fóru til Bandaríkjanna fyrir rúmum 30 árum hafi það verið allt öðruvísi en núna. Samskipti hafi verið allt öðruvísi og hann hafi notað telex til að senda efni heim til Íslands. „Núna er maður með barnabörnin í beinni í símanum og það í lit“ segir hann. Hann rifjar upp þegar hann reyndi að ná kosningaútvarpi frá Íslandi á stuttbylgju, en þá voru borgarstjórnarkosningar. „Ég náði mér í tæki og koparvír“, segir hann. „Það vakti athygli nágrannanna þegar ég var farinn að klifra upp í tré með koparvírinn í því skyni að ná útvarpinu“.

Hvað var þessi útlendingur að gera?

Allir nágrannarnir voru komnir út til að athuga hvað þessi útlendingur væri eiginleg að gera. „Þarna var dómari við herrétt flotans sem þótti harður í horn að taka. Hann sat með hvítvínsglas og skemmti sér konunglega yfir aðförum útlendingsins“, segir Helgi. Það voru miklir skruðningar í tækinu , en allt í einu datt inn inn lagið Útá gólfið sem Hemmi Gunn söng. Eftir það hljómaði öldugangur eins og stórsjór úr tækinu og Hemmi hvarf. „Mér tókst á endanum að ná því að Davíð Oddsson hefði unnið borgarstjórnarkosningarnar, en það var ekki endilega það sem ég vildi heyra“, segir Helgi og hlær.

Helmingur fjölskyldunnar erlendis

"krakkarnir" árið 2003

„krakkarnir“ árið 2003

Tvö barnanna þeirra Helga og Birnu búa erlendis með sjö af barnabörnunum. Pétur stoðtækjafræðingur býr í Stokkhólmi en Bryndís kennari í Danmörku. Hún er gift dönskum manni. Helgi segir að við þessu sé ekkert að gera og þau sjái að börnin hafi það miklu betra erlendis. „Þau kjósa með fótunum“ segir hann. Bryndís og maðurinn hennar Martin bjuggu hér í 10 ár. „Svo gáfust þau bara upp hér“, segir Helgi. „Hann þekkti launakjör og annað í Danmörku og hafði samanburðinn. Þar eru þau búin að kaupa hús sem kostaði 40 milljónir íslenskra króna. Þau greiddu 2.4 milljónir í útborgun, en tóku afganginn að láni á 1.2% vöxtum“.

Pólitík og tónlist

Yngri börnin tvö eru hér heima, Heiða Kristín sem hefur verið áberandi í Besta flokknum og er nú sest á þing fyrir Bjarta framtíð og Snorri sem hefur fetað í fótspor föður síns í tónlistinni. „Heiða var strax orðin formaður skólafélagsins. Það var vitað að hún myndi standa uppi í hárinu á fleirum en foreldrum sínum“ segir Helgi. „Hún hræðist ekki rökræður og að taka snúning á málunum“. Helgi segir að Snorri hafi gert góða hluti í tónlistinni, hann hafi mikinn áhuga og vandi sig. Hann segir að þau eigi bæði að hafa þann bakgrunn sem þarf til að spjara sig í lífinu.

Datt ekki í hug að hún fengi nýtt starf

Nýleg mynd af Birnu og Helga

Nýleg mynd af Birnu og Helga

Fyrir tveimur árum urðu tímamót í lífi þeirra Helga og Birnu. Birna sem hafði unnið í Kaupþingi í sextán ár og síðar á lögmannsstofu, hafði farið að vinna með Helga í Hellisheiðarvirkjun, við að sýna ferðamönnum staðinn og fræða þá um jarðvarmavirkjunina. Þau ákváðu að hætta þar árið 2013. Helgi var fljótlega kallaður til vinnu í Ríkisútvarpinu þar sem hann var þulur um tíma en Birnu datt ekki í hug að hún fengi annað starf.“Ég var til í að fara að vinna í leikskóla eða í verslun, bara hvað sem var“, segir hún.

Er eldri en forstjórinn

Þegar Birna sá auglýsingu í Morgunblaðinu þar sem auglýst var eftir starfsmanni/bókara? á Endurskoðunarskrifstofu ákvað hún að sækja um og fékk starfið. Það skemmdi ekki fyrir að skrifstofan er í næsta húsi við heimili þeirra Helga. „Ég veit að það voru margir umsækjendur og þetta starf hentar mér mjög vel“, segir hún og afsannar regluna um að konur sem eru sextugar geti ekki fengið nýtt starf. Hún er elsti starfsmaðurinn á skrifstofunni og forstjórinn 48 ára. Hún segist mjög ánægð með starfsfélgana, en yfirmaðurinn hafi trúað henni fyrir því að honum hefði aldrei dottið í hug að hann ætti eftir að ráða manneskju í starf sem væri eldri en hann sjálfur.

Fara rænandi og ruplandi um stórmarkaði

Helgi var hins vegar að byrja með nýja sjónvarpsþætti á Sjónvarpi Hringbraut.  Þættirnir heita Okkar fólk og við höfum sagt frá þeim í grein í  Lifðu núna. Sjá hér. Helga eru lífeyrismálin hugleikin og finnst eins og svo mörgum öðrum, sérkennilegt að það skipti nánast ekki máli hvort menn hafi greitt í lífeyrissjóð eða ekki. Tekjurnar verði á endanum þær sömu. Hann segist ekki sjá fram á að geta lifað á „strípuðum“ eftirlaununum, þar sem hann sé enn með afborganir af húsnæði eins og svo margir af hans kynslóð. „Ég held að það eigi eftir að sjóða uppúr hér eftir 3-4 ár þegar menn fara að gera sér grein fyrir ástandinu“ segir hann. Svo skellir hann uppúr „Hér verður hópur eftirlaunafólks sem fer um stórmarkaði rænandi og ruplandi. Hvað ætla menn að gera við gamlingja sem gera uppreisn?“.

Ritstjórn október 9, 2015 10:00