Yfirlæknirinn er að tala í landsímann

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

 

„Það var bara stungið upp í mig sæng og sagt: „Þegið þér manneskja – sjáið þér ekki að yfirlæknirinn er að tala í landsímann?“ Þannig lýsti öldruð kona viðbrögðum ljósmóður á Landspítalanum á stríðsárunum þegar hún var að ala þar barn sitt með öllum þeim þjáningum sem fæðingu fylgja. Við sátum nokkur í heimsókn hjá umræddri konu og ræddum mænudeyfingu við fæðingar. Viðstaddir ráku upp stór augu og gátu svo ekki annað en hlegið að öllu saman.

En mér eru þessi ummæli eftirminnileg og detta þau oft í hug þegar rætt er um hag aldraðra á Íslandi. Mikið er búið að tala og skrifa um litlar ráðstöfunartekjur þeirra sem komnir eru á eftirlaun. Nú fyrir kosningar lofa ýmsir stjórnmálaflokkar bót og betrun í framkomu sinni við „gráa herinn“, en svo er eins og farið sé að „draga lappirnar“ þegar innt er eftir nánari útskýringum á hvernig hagsbætur hinna öldruðu verði. Sem sagt – maður óttast að enn eigi að „stinga sæng upp í“  aldraða svo þeir hætti þessu nöldri og óskum um bættan hag. Það virðist í raun vera furðu lítill vilji til þess að gera þær breytingar sem stuðla að betri afkomu þeirra sem komnir eru á eftirlaun. Það er eins og fólk skilji ekki að það mun eldast líka.

Ýmislegt hefur verið reifað í umræðunni um hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að fólk lendi í fátæktargildru við það að fara á eftirlaun en fátt af því virðist raunhæft eins og sakir standa. Margt af því fólki sem nú er um sjötugt er vel á sig komið og lítur út og og líður eins og sextugu fólki. Undanskildir eru þeir sem hafa orðið fyrir þungbærum slysum, áföllum eða veikindum. Það ætti að sjá til þess af stjórnvöldum að þeir sem hafa heilsu, löngun og getu til að vinna fái að gera það og fái sín laun eins og aðrir án þess að klipið sé af þeim „krónu fyrir krónu“ eins og það er gjarnan orðað.

Það er engin ástæða til að fólk sé látið hætta allri atvinnuþátttöku sjötugt eða yngra ef það á annað borð er starfhæft. Gott væri að innleiða þá reglu að fólk geti haft sveigjanlegan vinnutíma þegar það kemst á eftirlaunaaldur. Hinir sem ekki geta unnið og eru orðnir lélegir ættu að eiga rétt á að fá mun betri aðhlynningu í heimahúsum en nú tíðkast. Og þeir sem veikastir eru ættu að fá inni á hjúkrunarheimili án þess að bíða mánuðum og jafnvel árum saman milli vonar og ótta á göngum í sjúkrahúsum.

Ef vilji er fyrir hendi hjá þeim sem halda munu um stjórnvölinn eftir næstu kosningar til að bæta hag eldra fólks þá þarf að móta heilstæða stefnu í þeim málaflokki núna. Og ekki segja svo bara að þeir ætli að stuðla að hagsbótum hinna eldri – heldur gera þær. Verkin tala best. Alltof lengi hefur of mörgu eldra fólki á Íslandi liðið eins og konunni sem mátti þjást með sængina uppi í sér af því að „yfirlæknirinn er að tala í landsímann.“

 

 

Guðrún Guðlaugsdóttir október 11, 2016 11:06