Thomas Möller hagverkfræðingur og MBA skrifar
Áramót eru góður tími til íhugunar og endurmats.
Þetta vissu Rómverjar þegar þeir völdu að kalla fyrsta mánuð ársins Janúar, eftir Janusi, guði breytinganna. Janus er með tvö andlit, annað vísar til baka og hitt fram á við. Með þessari ákvörðum hvöttu Rómverjar fólkið sitt til að horfa til baka á liðið ár, vega og meta hvað hefði mátt gera betur og líta svo til hins nýja árs og breyta venjum til betra lífs.
Er þetta ekki einmitt sem flest okkar gerum um áramótin, að líta um öxl og hugleiða hvað gamla árið hefur fært okkur. Við hugsum um framtíðina og hvað hið nýja ár muni gefa okkur. Um áramót setjum við strik í sandinn, venjumst nýju ártali og horfum með jákvæðni og bjartsýni til nýs árs.
Ég held að við séum öll nokkurn veginn eins. Öll sækjumst við eftir vellíðan, sjálfræði, góðum tengslum, tilgangi og hamingju, hvert með sínum hætti. Við reynum flest að læra af liðinni tíð, þakka fyrir lífið og þakka þeim sem reynast okkur vel.
Flest viljum við verja meiri tíma á nýju ári með okkar nánustu enda er tíminn líklega verðmætasta gjöfin sem við getum gefið þeim.
Tímastjórnun er öflugt tæki
Tímanum er lýðræðislega útdeilt. Öll fáum við 365 daga á árinu 2023, og 24 klukkustundum á sólarhring er öllum jarðarbúum úthlutað, óháð fjárhag, staðsetningu á jörðinni og kyni.
En enginn fær sömu lífslengd. Meðalaldur jarðarbúa er um 77 ár eða um 4000 vikur sem eru 28 þúsund dagar. Meðalaldur okkar Íslendinga er lengri eða um 83 ár.
Er þetta ekki næg ástaða til að fara vel með tímann og dagana okkar enda segir Biblían að til að öðlast viturt hjarta eigum við að „læra að telja dagana okkar“!
Ég hef kennt þúsundum nemenda tímastjórnun á síðustu árum.
Nálgun tímastjórnunar um allan heim hefur verið sú að nýta tímann vel svo við komum sem mestu í verk, í vinnunni og í einkalífinu. Tímastjórnun hefur einnig fjallað um rétta forgangsröðun verkefna.
Dauðasyndin hefur verið að fresta verkefnum. Langir vinnudagar hafa verið einkenni starfsfólks á síðustu árum og endalausir verkefnalistar, þúsundir tölvupósta og yfirfullt „inbox“ hafa einkennt okkar vinnudag.
Slæmu fréttirnar eru þær að uppteknu fólki mun aldrei takast að tæma „inboxið“, klára verkefnalistana og svara öllum tölvupóstunum. Þeir koma á færibandi eins og þúsund þorskarnir í laginu hans Bubba.
Ný nálgun í tímastjórnun
Í metsölubókinni „4000 weeks- time management for mortals“ eftir Oliver Burkemann er fjallað um nýja hugsun í tímastjórnun. Hann minnir okkur illilega á hina fáránlega stuttu ævilengd okkar í titli bókarinnar.
Það þarf ekki að segja þér lesandi góður að þú átt ekki endalausan tíma. Við erum öll með hugann við verkefnalistana, áhugamálin, vinatengslin, jafnvægi milli vinnu og einkalífs, öll leikritin, bækurnar og sjónvarpsþættina sem við eigum eftir að sjá, löndin og golfvellina sem okkur langar að heimsækja.
Sum okkar hafa áttað okkur á því að það er líf eftir vinnu og að við höfum áttað okkur á því að mikilvægustu verkefnin eru nálægt okkur: makinn, börnin, barnabörnin og áhugamálin. Við erum líklega flest búin að gera okkur grein fyrir því að árin, sem við eigum eftir, eru þau mikilvægustu í lífinu og hugsanlega þau skemmtilegustu. Undirbúum okkur undir þau og gerum þennan tíma sem ánægjulegastan.
Í bókinni minnir Oliver okkur á að við getum aldrei gert allt sem okkur langar að gera, lífið endist ekki í það. Við erum í raun örlítið sandkorn í tímans rás. Sú hugsun ætti að nægja til að gera hvern einasta dag lífs okkar mikilvægan og gefandi.
Oliver hvetur okkur til að hætta að forgangsraða verkefnum. Í staðinn ættum við að skipuleggja frestun þeirra. Prófaðu að fresta þeim verkefnum, áhugamálum eða aðgerðum sem eru ekki mikilvæg í lífi þínu. Frestunaráráttan er eftir allt saman lykillinn að betri tímastjórnun.
Tímastjórnun í gamla daga
Í þessu sambandi er hollt að rifja upp líf forfeðra okkar til sjávar og sveita á Íslandi. Þau vöknuðu að morgni og fóru að sofa eftir vinnudag. Þau vissu aldrei hvað klukkan var, sólin sá um tímamælinguna.
Hjá þeim voru verkefnin endalaus, þeim lauk aldrei. Stanslaust var hægt að afla meiri matar, huga að búfé og bátum, girðingum og húsakosti. Engin þörf var á tímastjórnun í þá daga, enginn lokatími var á verkefnum því þau tóku þann tíma sem þurfti til.
Mikilvægustu málin okkar
Oliver komst að því í sinni bók að því betur sem honum tókst að skipuleggja tíma sinn, því stressaðri og óánægðari varð hann. Hann fór að fresta verkefnum með meðvituðum og markvissum hætti.
Hann hvetur okkur til að velja verkefni, áhugamál, vinatengsl, þátttöku í félagslífi og jafnvel áhyggjur og vandamál af gaumgæfni.
Líklega er hæfni okkar til að velja þau verkefni sem við getum sleppt eða frestað, sú mikilvægasta við stjórn tímans og þar með lífs okkar.
Oliver telur að við ættum að sætta okkur betur við ófullkomleika okkar og hætta að reyna að gera allt sem við gerum með óaðfinnanlegum hætti.
Niðurstaðan:
Hér koma nokkur heilræði frá mér sem gætu gert árið 2023 enn ánægjulegra. Spurðu þig þessara spurninga:
- Vertu með lífsgildin þín á hreinu og alltaf að leiðarljósi. Hættu öllu sem er ekki í takt við gildin þín. Það er mikilvægasta verkefni tímastjórnunar þinnar.
- Hvaða jákvæðu sambönd og tengsl viltu efla og styrkja á árinu, Þakkaðu öllu þessu fólki þínu reglulega fyrir það sem það gerir fyrir þig.
- Hvernig viltu efla heilsu þína á árinu. Finndu hreyfingu sem þú hefur gaman af að stunda helst daglega. Heilsurækt er líklega besta tímastjórnunaraðferðin enda getur hún lengt lífið!
- Vertu forvitin(n) á nýju ári, lærðu eitthvað nýtt. Rifjaðu upp hvaða áhugamál, hæfileika eða þekkingu þig hefur alltaf langað að afla þér.
- Gefðu af þér á nýju ári, taktu þátt í sjálfboðaliðastarfi. Gefðu þér sérstaklega mikinn tíma með maka þínum, börnum og barnabörnum og sýndu þeim þakklæti þitt.
Gangi þér vel á nýju ári.