Fara á forsíðu

Um vefinn

Vefurinn Lifðu núna var opnaður 12.júní 2014.

Markmiðið með rekstri vefsíðunnar er að gera líf og störf  þeirra landsmanna sem eru komnir um og yfir miðjan aldur sýnilegri en þau eru, auka umræðu um þau málefni sem tengjast þessu æviskeiði og lífsgæði þeirra sem eru komnir á þennan aldur.

Fjölmennustu árgangar Íslandssögunnar eru  að eldast og á næstu áratugum mun fjölga verulega í þeim hópi sem verður 55 ára og eldri. Þessi hópur er núna, árið 2017, um 87.000 manns, en eftir tæp 15 ár, árið 2030, verða um 113.000 manns í honum. Það er fjölgun um 26.000 manns eða um 30% fjölgun frá því sem nú er.  Árið 2050 verður um fjórðungur landsmanna kominn á eftirlaun.

Á þessum aldri hefst nýtt æviskeið, sem stundum er kallað þriðja aldursskeiðið, með nýjum viðfangsefnum og áskorunum. Sumir minnka við sig vinnu, aðrir hætta að vinna og hefja jafnvel eigin rekstur. Fjölskyldulífið breytist, börnin fara að heiman, barnabörn fæðast, húsnæðið sem við vorum í er orðið of stórt og við þurfum að flytja. Þá glíma sumir við fjárhagsvanda þegar þeir hætta að vinna og fara á eftirlaun.   Það kemur fram í könnunum að elsta fólkið okkar upplifir stundum að það sé sett hjá og að viðhorf þeirra skipti ekki lengur máli.   Sumir eru hraustir, aðrir veikir og enn aðrir einmana. Vinir hverfa og menn missa maka sem þeir hafa fylgt í áratugi.

Lifðu núna, fjallar um þau málefni sem brenna á þessum hópi og réttindamál eldra fólks hafa ekki síst verið þar í fyrirrúmi.  Allir sem vilja vinna að sömu markmiðum, hafa hugmyndir um efni fyrir síðuna eða vilja leggja eitthvað af mörkum eru hvattir til að hafa samband við okkur.

Netfang: lifdununa@lifdununa.is

Sími: 854-6630

Stofnandi vefsíðunnar og framkvæmdastjóri er Erna Indriðadóttir, sem tileinkar hana móður sinni Kristínu Guðnadóttur. Árið 2017 seldi hún Jóhönnu Margréti Einarsdóttur 25% hlut í síðunni. Jóhanna tók í kjölfarið við starfi ritstjóra síðunnar og sama ár hóf Sólveig Baldursdóttir blaðamaður störf við síðuna.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands veitti verkefninu ómetanlegan stuðning á sínum tíma, með fræðslu og leiðbeiningum, sérstaklega þau Bjarnheiður Jóhannsdóttir og Kristján Óskarsson og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir það.