Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, bjó lengst af á Selfossi við Ölfusá, en þegar hann hætti í stjórnmálum fluttist hann til Reykjavíkur. Nú berast þær fréttir að hann sé að flytjast aftur austur fyrir fjall, en þau Margrét Hauksdóttir hafa nýverið fest kaup á íbúð í nýja miðbænum á Selfossi.
Á leið sinni austur fer Guðni stundum um Þrengslin, yfir Óseyrarbrúna, því að Eyrarbakki er eftirlætisstaður hans. Þetta kemur í ljós þegar blaðamaður Lifðu núna slær á þráðinn þar sem Guðni er staddur í Færeyjum. „Jú, sjáðu til, Eyrarbakki er hinn gamli höfuðstaður Sunnlendinga. Hann hefur alltaf verið eftirlætisstaður, enda á ég rót mína að rekja þangað. Faðir minn var fæddur í Simbakoti árið 1907. Ég tengist þessu fallega sjávarþorpi því tilfinningaböndum.“
Guðni segir að faðir sinn hafi alist upp við sára fátækt á Eyrarbakka hjá fósturforeldrum. „Hann og fósturbróður hans, Hjálmtýr, þurftu oft að takast á við ríku strákana í þorpinu, en pabbi fluttist að Brúnastöðum 10 ára gamall. Hann fór oft með okkur krakkana á Eyrarbakka og rifjaði upp margar áhugaverðar sögur úr uppvexti sínum, þó að þær væru bæði súrar og sætar af því að hann var stundum svangur. Þeir bræður þurftu stundum að borða úldna lönguhausa og drekka lýsi úr tunnunum til að seðja sárasta hungrið.“
Þetta virðist ekki hafa dregið úr dálæti Guðna á Eyrarbakka. „Maður finnur svona titring úr gömlum streng þegar maður gengur um staðinn. Þarna voru afi og amma, Þorvaldur og Guðný, og ég ber nafn ömmu minnar. En pabbi var svo heppinn að þótt hann væri fátækur, þá var hann allæs fimm ára og var látinn lesa fyrir gesti og gangandi í Vesturbúðinni og fékk snúða og spesíur fyrir.“
Guðni segir að sagan og menningin liggi við hvert fótmál á Eyrarbakka. „Þetta er einstaklega fallegt þorp með ríka sögu. Þarna er Húsið með alla sína sögu og gömlu, lágreistu húsin þar í kring. Saga staðarins nær aftur til landnámsaldar en höfnin á Eyrarbakka, Einarshöfn, var aðalhöfnin á Suðurlandi frá því um 1100. Þetta var rótgróinn verslunar- og útgerðarstaður með gjöfulustu fiskimið landsins undan ströndinni. Blómatíminn hófst um miðja 19. öld með útgerð áraskipa.“
Guðni segir að Eyrarbakki hafi í raun verið stórveldi. „Hann var meðal stærstu þéttbýlisstaða á landinu á síðari hluta 19. aldar. Tækniframfarir í útgerð og samgöngum, sem stuðluðu að vexti og viðgangi Eyrarbakka fram undir 1920, urðu síðar svo stórtækar að aðstæður og skilyrði voru ekki lengur fyrir hendi þarna á Bakkanum. Þess vegna færðist inn- og útflutningsverslun til Reykjavíkur. Í kjölfarið fækkaði íbúum í þorpinu, en mannlíf og menning stóðu áfram með nokkrum blóma.“
Guðni segir að gera þurfi meira úr Eyrarbakka, hann sé svo heillandi staður að það ætti að lögvernda gamla þorpið og halda við gömlu húsunum. „Það þarf að hefja aftur til vegs og virðingar menningarverðmætin sem þarna eru í hverju spori fyrir ferðamenn. Gamla götumyndin, sem tekist hefur að varðveita á Bakkanum, er einstæð meðal þéttbýlisstaða á Íslandi. Vesturbúðina ættu menn að byggja upp eins og hún var, en það væri kall á móti nýja miðbænum á Selfossi. Eyrarbakki færi þá í umgjörð sem honum hæfði.“
„Á Eyrarbakka eiga allir að koma, það er heilagur staður,“ segir Guðni að skilnaði.