Tengdar greinar

„High tea” máltíð með stíl

Allir þeir sem lesa Agöthu Christie og P. G. Wodehouse vita að te er ekki eitthvað brúnt í bolla. Það er máltíð sem ber að taka alvarlega. Nokkur íslensk veitingahús bjóða upp á þessa  máltíð og fræðslu í þeim siðvenjum sem henni fylgja.  Hilton hótel Nordica, Apótekið og Sautján sortir hafa sótt innblástur í smiðju breska aðalsins og sett saman „high tea” þar sem blandast breskur yfirstéttarstíll og íslenskt góðgæti.

High tea og afternoon tea eru ekki alveg það sama þótt margir telji að svo sé. High tea var notið í garðinum og fólk sat í garðstólum eða lagðist á teppi á flötinni eða borið fram innandyra og viðstaddir sátu í stólum og sófum í dagstofunni og lögðu frá sér tebollann á lítil hliðarborð. Afternoon tea er hins vegar snætt við eldhúsborðið á heimilum lægri stéttanna og er meira kvöldmatur en eftirmiðdagshressing.

Uppsetningin á veitingunum í high tea er alltaf á sama veg. Borið er fram á kökudiskum á þremur hæðum. Ýmist er byrjað efst eða neðst en alltaf er byrjað á hinu ósæta þaðan vinnur fólk sig á næsta disk og á þeim neðsta eða þeim efsta eru sætindin. Vísindin í þessu eru að þú horfir alltaf á þetta sæta allan tímann á meðan hitt er borðað og byggir upp tilhlökkun eftir að ljúka máltíðinni á því.

Hin klassíska gúrkusamloka

Aðdáendur P.G Wodehouse vita að agúrkusamlokur settar saman á þann máta sem Jeeves einn kann eru ómissandi með teinu. Gúrkusamlokan er ekta bresk og fylgir gjarnan í erfidrykkjum, lautarferðum og fínum samsætum. Brauðið á að vera hvítt og skorpulaust. Það er smurt með majónesi kryddað með nýmöluðum pipar og agúrkunni sem búið er að skera í örþunnar sneiðar raðað ofan á aðra sneiðina en hin lögð ofan á til að loka. Þær eru meðal þess ósæta en þar getur einnig verið að finna brauð með reyktum laxi, litlar kjötbökur, brauð með osti, skinku eða pylsu.

Ensku skonsurnar með „clotted cream” og sultu eru týpísk miðja og ótrúlega gómsætar. Þær eiga að molna í sundur og vera stökkar að utan en mjúkar innan. Í sakamálasögum Agöthu Christie settist Mrs. Marple ávallt inn á Ritz í Londonferðum sínum og naut þess að drekka sitt „high tea”. Hercule Poirot leit þar við líka og strauk brauðmola lipurlega úr yfirskegginu með munnþurrkunni.

Sætindin eru svo rúsínan í pylsuendanum og þau geta verið allt milli himins og jarðar, súkkulaðikökur, makrónur, litlar pavlóvur, rjómakökur og sætir munnbitar millistig milli konfekts og köku. Vinkvennahópar mættu alveg taka sig til og fara í „high tea” í sínu fínasta pússi, með hatta og hanska.

Ekki er heldur sama hvaða te er borið fram með góðgætinu. Í Bretlandi eru Earl Grey og Darjeling te þau allra vinsælustu. Þau þóttu mjög við hæfi í eftirmiðdaginn en voru hvorki drukkin á morgnana né kvöldin. Hér á landi kjósa hins vegar flestir kaffi umfram te og á öllum veitingahúsunum er tekið tillit til þess, en allir ættu einhvern tíma að prófa að njóta þessarar bresku máltíðar á fullkomlega hefðbundinn hátt.

Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 21, 2023 07:00