Sér fátt jákvætt en margt neikvætt við að eldast

Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir á Akureyri fæddist og ólst upp í Reykjavík eftirstríðsáranna. Í bókinni Raddir. Annir og efri ár, eftir Jón Hjartarson og Kristínu Aðalsteinsdóttur segir hann frá lífi sínu og starfi. Hann fór í læknisfræði að loknu stúdentsprófi og sótti framhaldsnám til Svíþjóðar. Kom heim og fór að vinna sem geðlæknir og þegar bráðageðdeild var opnuð á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri árið 1974 bauðst honum að stýra deildinni.  Brynjólfur er nú að nálgast áttrætt. Hann lýsir því í bókinni hvernig það er að eldast og fer sá kafli hér á eftir.

Til eru fallegar lýsingar á frumstæðum þjóðflokkum á afskekktum stöðum heimsins fyrr á tímum. Fjölskyldur mynduðu sjálfbærar heildir og ættfeður og -mæður voru eins konar æðsta ráð í öllum stórmálum hverju sinni. Treyst var á vitsmuni og reynslu elstu ættingjanna eins og í fílahjörð þar sem elsta kýrin þurfti að muna hvar vatnsból var að finna á úrslitastundu þegar neyðin var stærst. Lífsbaráttan var upp á líf og dauða eins og dýrafræðin hefur kennt okkur aftur og aftur. En hvað með okkur, mannkynið sjálft? Erum við sem dýrategund búin að læra nóg um aðalatriði lífsins á jörðinni? Erum við sem „herrar jarðarinnar“ á réttri leið eða á villigötum?

Á Íslandi í dag veit ég því miður um of marga eldri borgara sem finna fyrir tómleika, firringu og vonbrigðum yfir hraðfleygri þróun nútímasamfélagsins sem virðist ætla að gleyma alltof fljótt kynslóðunum, sem lögðu grunn að allri velferð, sem nútíminn (og vonandi framtíðin) njóta góðs af. Þetta veldur mörgum áhyggjum. Einnig mér.

Ég sé persónulega fátt jákvætt, en margt neikvætt, við að eldast. Verst er að sættast við líkamlega afturför og minnkandi andlega orku en þetta er óhjákvæmilegt, líffræðilegt lögmál og ekkert við því að gera nema taka því eins og hverju öðru hundsbiti. Flestir bregðast eðlilega við og finna sér nýja lífsfyllingu þegar aðstæður breytast. Ég tel mig vera í þeim flokki. Langmestu máli skiptir að halda heilsu og hafa hlutverk. Annað kemur þar á eftir. Hingað til hefur lánið leikið við mig þrátt fyrir kransæðasjúkdóm og krabbamein og ég get ekki kvartað, ennþá! Heilsan er eins góð og verða má.

Það er hins vegar ástæða til að skoða félagslegar kringumstæður okkar eldri borgara á Íslandi. Þær eru afar misjafnar, svo ekki sé meira sagt. Þar koma vinir, ættingjar og félagar inn í dæmið, jafnvel svo að það getur ráðið úrslitum um hvernig eldri borgurum líður. Það verða mikil umskipti hjá öllum þegar starfsferli lýkur og hjá alltof mörgum myndast tómarúm sem erfitt er að fylla. Það virðist þó vera að skapast umræða og kannski aukinn skilningur á afleiðingum þeirra tímamóta enda þótt falleg orð um sveigjanleg starfslok og áhyggjulaust ævikvöld aldraðra í hátíðaræðum valdhafanna hafi tilhneigingu til að valda vonbrigðum þegar að því kemur að láta verkin tala.

Ég er syngjandi sæll/eins og sjö vetra barn/spinn þú, ástin mín ein/lífs míns örlaga­garn/ (Stefán frá Hvítadal). Ég á æskuvini og aldavini sem hafa veitt mér gæðastundir áratugum saman. Ég átti ástvin og með henni ánægjustundir, sem aldrei gleymast, en geymast í falinni glóð minninganna. Ég á nýjan perluvin sem hefur auðgað líf mitt síðustu 15 árin. Allt þetta hjálpar mér að fylla upp í tómleika sem ella hefði kannski skyggt á lífsgleði mína eftir að föstu starfi lauk og ég „aftengdist“ venjubundnu daglegu lífi í vinnu og brauðstriti. Synir mínir fimm og barnabörnin eru þeir einkavinir sem hafa orðið mér að mestu liði án þess kannski að vita það. Nánustu skyldmenni, tengdafólk og ættingjar koma næst. Loks hollvinirnir, reiðhestarnir mínir.

Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og sem læknir get ég sennilega aldrei aftengt mig sjúkdómafræðinni alveg; ég sit í stjórn Krabbameinsfélags Akureyrar og Geðverndarfélags Akureyrar, ég hef hlutverk og geri svolítið gagn í Grófinni geðverndarmiðstöð og Öldrunarþjónustu Akureyrar. Ég sæki fundi og syng í kór frímúrara á Akureyri. Er nýlega hættur í öldungablaki en syndi og geng þess í stað. Ég nota tómstundir til að lesa og skrifa minningar sem gætu endað með því að verða bók á lesendamarkaði. Ég vildi samt miklu frekar vera ungur og fá að sjá hvað þessi mikla furðuskepna, 21. öldin, ætlar að bera í skauti sínu.

Á að halda áfram að fórna þjóðlegum verðmætum fyrir skyndigróða í andvaraleysi á öld hraðans? Íslenska talmálinu hrakar ört þessa dagana, þú veist, og maður spyr sig hvort fullorðnir Íslendingar, þúst, muni tala barnamál með tímanum þst eða jafnvel ensku. Verður íslenskan sjálfdauð á þessari öld?

 

Ritstjórn mars 18, 2021 07:50