Kjúklingaréttur þegar vinir hittast

Þetta er ótrúlega ljúffengur kjúklingur og lítið mál að matreiða hann. Tilvalinn þegar 6-8 vinir hittast í góðu tómi.

 

2 kjúklingar ca 1,5 kg hvor

6 hvítlauksrif

2 tsk   þurrt timjan

1 tsk  malað kúmen

1 tsk  malað engifer

1 tsk  salt

½ bolli rauðvínsedik

½ bolli af úrvals ólífuolíu

4 tsk græn piparkorn

1 bolli svartar ólífur

1 ½ bolli þurrkaðar apríkósur

1 bolli þurrkaðar litlar gráfíkjur

¼ bolli púðursykur

½  bolli Madeira vín

1 bolli  pecan hnetur í stórum bitum

2  sítrónur til bragðbætis.(rifinn börkur og smátt skorinn ávöxtur).

 

Daginn áður en rétturinn er eldaður er byrað á því að setja kjúklingabitana, hvítlauk, timjan, kúmen, engifer, salt, rauðvínsedik, olíu, piparkorn, ólífur, apríkósur og fíkjur í stóra skál. Skálinni er lokað og hún sett í ísskáp, þar sem innihaldið er marinerað yfir nóttina.  Takið skálina út úr ískápnum klukkustund áður en matreiðslan hefst. Hitið ofninn í 180 gráður. Leggið kjúklingabitana í botninn á stóru eldföstu móti. Hellið kryddblöndunni jafnt yfir hann. Stráið sykrinum yfir og skvettið Madeira víninu milli bitanna. Setjið álpappír yfir mótið og bakið í ofninum í 20 mínútur. Þá er álpappírinn tekinn af og rétturinn bakaður áfram í 40-50 mínútur. Ausið kryddleginum yfir kjúklinginn af og til á meðan hann er að bakast. Þegar hann er tilbúinn eru kjúklingabitarnir færðir yfir á fat eða skál ásamt ólífunum og þurrkuðu ávöxtunum. Hellið kryddlegi yfir bitana og stráið pecan hentunum yfir. Að lokum er sítrónunni dreift yfir. Afgangurinn af kryddleginum er settur í sósuskál og borinn fram með réttinum.

Meðlæti: Kartöflustappa og hrásalat, eða hvaðeina sem fólki finnst passa með. Verði ykkur að góðu.

 

Ritstjórn júní 7, 2019 11:37