Jólin eru tíminn þegar okkur verkjar í tengslin. Það er vegna þess að þau eru tengslahátíð og allt frá vöggu til grafar er manneskjan tengslavera. Það skiptir engu máli hvað við höldum að við séum. Við getum átt fullt af peningum og háskólagráður í röðum eða notið viðurkenningar samferða manna okkar fyrir afrek á ýmsum sviðum, við getum talið okkur trúuð eða einmitt alveg trúlaus, en þegar kemur að mannlegum tengslum finnum við öll til á sama hátt. Fyrirbærið sem við köllum hamingja stendur í beinu samhengi við tengslin sem við eigum við fólk og þegar jólin ganga í garð hefst aðalfundur sálarinnar, uppgjör á stöðu mála.
Öll þráum við að lifa í nærandi tengslum en þekkjum líka hvað það er að eiga samskipti sem tæra meira en þau næra. Á jólum reynir á þetta hjá okkur flestum. Eins lifa mörg okkar í rofnum tengslum, þar sem dauði, ósætti, fíkn eða aðrir þættir hafa skilið ástvini að og við finnum til sorgar og saknaðar sem magnast á þessum árstíma.
Ítrekað hef ég heyrt lífsreynt eldra fólk segja þrjú orð þegar ástvinur er fallinn frá og sorgin hefur knúið dyra. Orðin þrjú sem grópast hafa inn í huga minn af vörum gamalla samferðamanna eru þessi: Þetta er lífið.
Ég skildi það ekki fyrst þegar ég var ungur prestur og byrjaði að heyra eldra fólk segja þetta við líkar aðstæður aftur og aftur en ég held að ég skilji það núna. Þetta merkir að það að þjást og sakna er hluti af lífinu. Hægt og rólega hefur mér skilist að það að vera heilbrigð manneskja er ekki að vera hress. Að vera heilbrigður er það að takast á við lífið í margbreytileika sínum, efast og þjást – og vita það.
Þú sem syrgir á jólum ert ekki til hliðar við lífið, jafnvel þótt þú finnir litla gleði. Dagarnir sem þú ert að lifa núna eru líka líf. Sá sem vildi lifa sorglausu lífi yrði að gjalda það því verði að elska ekki. Hver vill það? Saga jólanna, sagan af unga flóttafólkinu sem eignast barn á hrakhólum og upplifir bæði kerfislægt ranglæti og hjartakulda er sagan um lífið eins og það oft er og skilaboð um það að mannleg lífsbarátta er þess virði að há hana. Og ég hallast að þeirri skýringu að hún sé um leið ákall frá höfundi lífsins um það að við látum okkur ekki á sama standa hvert um annað heldur iðkum samlíðun og samábyrgð.