Kaffi Gola ber nafn með rentu. Golan á Hvalsnesi er ýmist þíð eða andhvöss. Þegar við heimsækjum staðinn er hún mild og hlý og býður gesti velkomna. Þetta einstaka kaffihús er rekið af fjölskyldu sem ólst upp á nesinu. Þar er boðið upp á heimabakað brauð, bestu kökur sem hugsast getur og frábært kaffi, allt borðið fram í postulíni frá tímum ömmu og afa okkar sem nú gegnum þeim hlutverkum. Húsgögnin minna einnig á heimili aldamótakynslóðinnar og útsýnið úr gluggunum gefa tilefni til að rifja upp gamlar sögur.
Magnea Tómasdóttir, söngkona og systur hennar, Margrét, Anna Guðrún og Þóra settu upp þetta kaffihús hér rétt við Hvalsneskirkju. Uppskriftirnar að veitingunum koma úr safni móður þeirra, Guðlaugar og hér er ekki kastað til höndum. Heimabakað brauð, sælgætisgott og alls konar tertur og kökur. Heita súkkulaðið þeirra systra er líka augljóslega búið til á réttan hátt og því ekkert síðra en hjá ömmu og jólunum í gamla daga. Húsið sem hýsir kaffiþyrsta gesti var byggt á grunni fjóss og hlöðu er hér stóðu og byggingin er nútímaleg og ákaflega falleg. Gluggarnir eru stórir og útsýni til allra átta er inn kemur.
Og hér er margt að sjá. Hvalsneskirkja, ein fallegasta kirkja landsins, var byggð af bændum í sveitinni sem drógu grjótið í bygginguna á sleðum úr hrauninu í kring. Þeir hjuggu það til og vönduðu verkið. Menn höfðu metnað til að sýna að Íslendingar gætu ekki síður byggt vandaðar steinbyggingar en dönsku steinsmiðirnir sem unnu við Alþingishúsið og Dómkirkjuna í Reykjavík. Þeim tókst það sannarlega. Kirkjan var vígð árið 1887.
Þarna á útnesinu þar þjónaði Hallgrímur Pétursson fyrst prestembætti. Brynjólfur biskup Sveinsson fékkst loks til að vígja hann og fyrirgefa honum fallið með Guðríði Símonardóttur. Í kirkjunni fannst það sem talið er legsteinn Steinunnar dóttur hans, sem sagt er að Hallgrímur hafi sjálfur hoggið og sett á leiði hennar. Reykjanesið allt er ríkt af alls kyns þjóðsögum og
sögnum og fyrirtak að rifja upp söguna af Marbendli og bónda þegar Vatnsleysuströndin er ekin, stoppa við Gunnuhver og sjá fyrir sér drauginn prjóna í dauðans ofboði allt þar til hann steyptist í hverinn og rifja upp söguna af Margréti Vigfúsdóttur á Kirkjubóli og Magnúsi kæmeistara Jóns Gerrekssonar. Það má einnig færa sig nær í tíma og velta fyrir sér hvernig timburskipið Jamestown barst hingað að ströndum landsins og lagði til kjörvið í ótal byggingar á Suðurnesjum. Hér rétt hjá er Merkines þar sem Elly Vilhjálms ólst upp og úti fyrir ströndinni skín Eldey, eyjan sem hún var skírð eftir. Það er engin hörgull á sögum, merkilegum minjum og áhugaverðum stöðum hér allt í kring og ekkert betra en ylja sér á kaffi og borða eitthvað gott með því áður en haldið er inn til Grindavíkur þar sem afleiðingar hamfaranna blasa við.
Þær systur hafa einnig blásið til tónleika í kaffihúsinu af og til og eykur það enn á aðdráttaraflið og þær eru með opið frá 9-17 alla daga.