Sól skín á Selfossi  

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Við erum búin að vera í Reykjavík að undanförnu með barnabarn sem er að bíða eftir því að komast til Evrópu. Við ákváðum að nýta okkur tilboð um að ferðast innanlands og skelltum okkur til Selfoss. Maður þarf nefnilega ekki að keyra landið hálft til þess að gera sér dagamun. Við pöntuðum okkur gistingu, þriggja rétta kvöldverð og morgunverð á frábæru verði og lögðum í hann með hreinar nærbuxur og tannbursta í farteskinu. Sólin skein á Selfossi, við fórum bæjarrúnt og kíkkuðum í búðir, keyptum nýjan og gamlan Megas og fleira smáræði. Á hótelinu voru 60 Íslendingar í gistingu og von á 90 manns kvöldið eftir. Það voru allir svo glaðir og vingjarnlegir og hótelstjórinn tók á móti gestum með breiðu brosi. Það er langt síðan ég hef sofið jafn vel og þessa nótt á Selfossi. Mig  dreymdi undarlega drauma um að ég væri þjónustustúlka í höll Danadrottingingar, var að strauja rúmföt og þurrka ryk í hátíðarsalnum hjá henni. Ég var frekar góð í þessum verkum, minnir mig. Alla vega vaknaði ég glöð.

Eftir góðan morgunverð þræddum við þorpin Eyrarbakka, Stokkseyri og Grindavík þar sem fengum okkur humarsúpu, tvær fyrir eina og stúlkan fékk smá fræðslu um bæinn þar sem lífið var saltfiskur.

Venjulega þykir mér leiðin milli Keflavíkur og Reykjavíkur heldur ljót en Reykjanesið leynir hins vegar á sér þegar betur er að gáð. Eftir að við kvöddum Grindavík fórum við í átt að Reykjanesvita. Stoppuðum við Brimketil og spjölluðum við þrjár stelpur á íslensku sem sátu á steinum og borðuðu nesti. Þaðan lá leiðin að Gunnuhver þar sem þjóðsagan um Gunnu var rifjuð upp og síðan gegnum við upp að vitanum. Útsýnið var ægifagurt og Eldey blasti við og auðvitað fylgdi sagan um Ellý Vilhjálms. Þá var myndastopp við Brúna milli heimsálfa og í Keflavík biðu þessir fínu hamborgarar. Við fórum síðan niður í Voga á Vatnsleysuströnd og þræddum koppagötur eins lengi og við gátum eða næstum alla leið að Álverinu.

Við komum heim glöð og sæl. Við höfðum aðeins skoðað brot af því sem er að sjá á Reykjanesi og erum alveg til í annan túr á sömu slóðir. Við mælum með því að þið drífið ykkur af stað. Við þurfum á tilbreytingunni að halda eftir löng ferðalög heimafyrir og  ferðaþjónustufyrirtækin þurfa okkar stuðning strax.

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir maí 25, 2020 09:25