Af hendi guðs

Matthías Johannessen skrifar:

Af hverju er knattspyrna svona vinsæl íþrótt?

Argentínska skáldið og íslandsvinurinn J.L. Borges sagði, þegar hann var spurður þessarar spurningar: „Heimska er alltaf vinsæl.“

Já, af hverju?

Þegar ég ungur stundaði og hugsaði um íþróttir var það á öðrum forsendum en nú. Og þegar ég nú hugsa um allar þær sameignir eða átök sem eiga sér stað í fornum sögum detta mér í hug íþróttir, einkum knattspyrna.

Knattspyrna endurspeglar margt í lífinu sjálfu, þótt henni hafi verið líkt við gerviveröld. Hún býður upp á flestar uppákomur sem hægt er að reyna á langri ævi, jafnvel að góður knattspyrnumaður setji framsettar tennur efri góms í andstæðinginn í hita leiksins; ekki endilega af ásetningi, heldur vegna ósjálfráðra viðbragða sem vel mætti rekja til sálrænna orsaka; eða þegar þeir skalla hver annan.

Venjuleg hystería sem fylgir manninum, því líklega beit Suarez hinn úrúgvæski mótherja sinn ekki af ásettu ráði. Þess vegna var refsingin ofgerð eins og oft vill verða. Gróurnar vinna sitt verk í knattspyrnu eins og annars staðar. En ef þetta var bit bar að fara með það eins og sjúkdóm til læknis, en ekki fyrir einhvern dómstól. Ég man eftir litlum dreng í leikskóla sem beit krakkana og var ekki refsað, en fór til sérfræðings.

Amma Suarez sagði víst: „Þeir vildu losna við hann úr liðinu (til að geta sigrað það), þetta eru hundar.”

Þannig geta ömmurnar verið margra fiska virði.

Allt er þetta harla kunnuglegt úr lífinu sjálfu. Og þá ekki sízt að hagsmunir Suarez knúðu hann til að biðjast afsökunar!

Knattspyrna er liðsíþrótt eins og flokkadrættir eða hópathafnir í hversdagslegu lífi okkar. En stundum rífa þeir beztu sig upp úr hópnum, fara eigin leiðir og skora. Ég hef séð góða knattspyrnumenn frá Afríku gera það, en þó einkum yfirburðamenn eins og Ronaldo hinn portúgalska eða Argentínumanninn Messi, svo að getið sé tveggja hinna beztu, en slíkt einkaframtak var þó einkum einkennandi fyrir Maradonna sem virtist á sínum tíma vera með einhverjum hætti og að eigin áliti á guðs vegum, svo snjall sem hann var í íþrótt sinni. Notaði jafnvel „guðs hönd “ til að tryggja liði sínu sigur.

Á heimsmeistaramóti virtist Messi a.m.k. í tveimur leikjum vera orðinn leiður á þófinu, dró sig út úr kösinni og skoraði án þess neinn gæti komið vörnum við. Í lífinu sjálfu er þetta kallað einkaframtak og er grundvallaratriði í störfum borgaralegra flokka, en til þess þetta takist á leikvangi verður lið kappans helzt að vera mjög gott, ef hann á að geta notið sín. Þegar liðið stendur ekki undir væntingum getur ekkert bjargað því, ekki einu sinni sjálfur Ronaldo eins og sýndi sig í hrakförum portúgalska liðsins í heimsmeistarakeppninni.

En þegar þetta samspil heppnast er sigur vís.

Það getur allt gerzt á heimsmeistaramóti, ekki sízt óvænt úrslit eins og þegar Bretar og heimsmeistarar Spánverja komast ekki upp úr riðlunum sínum, það er eins og í lífinu sjálfu, þegar atvikin stjórna gangi mála. Og eins og í lífinu geta hinir síðustu orðið fyrstir og hinir beztu ná ekki þeim árangri sem efni standa til. Þannig fékk Borges aldrei nóbelsverðlaun þótt hann væri fremstur í stórum hópi jafningja. En verðlaunin urðu að vísu ekki söm eftir, þegar hann lézt í hárri elli, án nóbelsins.

En sjálfur er hann eins og klettur og gnæfir að mínu viti yfir hraun og öskuhrúgur sem eldgosið skildi eftir, þegar logarnir slokknuðu.

Í knattspyrnu ráða lög og reglur og þeim sem brjóta af sér er hegnt, getur jafnvel varðað brottrekstri úr leiknum. Þannig misstu Belgar leikmann í baráttu við Suður-Kóreu fyrir að sparka í legginn á mótherja með tökkunum á skónum. Það brot eða tækling, eða öllu heldur refsingin, var eins konar hæstaréttardómur og urðu Belgar að láta sér nægja tíu leikmenn það sem eftir var leiksins. Sá sem var rekinn út af var eins og hver annar refsifangi, þegar hann drattaðist af velli.

Slík brot geta verið eins og að skjóta sjálfan sig í fótinn, sagði einn þulanna sem leiknum lýstu og má vel vera, en þá er að fóta sig aftur og hrista af sér smánina. Vilji er allt sem þarf, sagði skáldið, og á það einnig við í fótbolta. Kapparnir á vellinum hafa auðvitað nóg af honum, en þó er betra að hafa tæknina í lagi og þá ekki sízt útsjónarsemina. Það höfðu þær hetjur fornra sagna sem komast nokkuð farsællega til skila í sögunum, en orðstír þeirra er þó með ýmsum hætti, eins og allir vita.

Samt unnu Belgar fyrrnefndan leik og getur slíkt auðvitað gerzt í þessu blessaða fyrirbrigði mannsins sem við köllum þjóð.

Og þannig unnu Hollendingar Mexíkó í leik sem fór fram í suðupotti undir miðbaug, en þeir höfðu heppnina með sér og hinir síðarnefndu fóru niður eins og keilur í lokin. Samt líklega betra liðið, en höfðu bölvun vítaspyrnunnar yfir sér.

En svo er mönnum ekki sízt refsað fyrir að vera þar sem þeim er ekki ætlað samkvæmt reglunum, en slík rangstaða er einatt refsiverð í hversdagslegu lífi okkar og getur haft hættulegar afleiðingar við markið eftir hornspyrnu.

Dómarar eru ekki óskeikulir, geta t.a.m. dæmt „hendi“ við olnboga og blásið af mark eins og í leik Brasilíu og Sílí. Þá breytist dómarinn úr alvitri goðsögn í höðblindan Satan!

Og þá er hann ekki lengur hlutlaus forsjón.

Og afburðamenn eins og Neymar hinn brasilíski þurfa ekki endilega að njóta sín til fulls eins og í þessum leik.

Og úrslitin eru oftlega ósanngjörn eins og í lífinu sjálfu.

Þá er það vítaspyrnukeppnin.

Allir halda niðri í sér andanum eins og oft er í tvísýnu og stjórnandi brasilíska liðsins, hinn litríki og ákafi Scolanin, þögull eins og gröfin og átti samúð mína alla. En þá eignuðust Brasilíumenn 2-3 akkillesa, en Síli sat uppi með jafnmarga hektora og hundskaðist heim.

Þannig andartök er okkur einnig boðið upp á í lífinu sjálfu.

Svo ég tali nú ekki um sjálfsmörkin.

Þau eru verst.

Eins og í lífinu sjálfu.

Trúarbrögð koma einnig við sögu í heimsmeistarakeppni og komu stuðningsmenn Alsírs gegn Rússum því vel til skila, því þeir voru nánast komnir í bænastellingar í stúkunni undir lokin og Allah bænheyrði þá með sigri.

Þannig eru viðbrögðin með ýmsum hætti, en guð leiksins er að vísu dómarinn eins og minnt er á í Sálmum á atómöld, 8. versi:

..því hann er sá eini

sem ekki getur tapað.

En æðsti prestur allrar knattspyrnu er Mammon sjálfur og honum fylgir venjulega ófyrirleitni og spilling.

 

 

 

 

Matthías Johannessen júlí 5, 2014 13:29