Veit hvers virði það er að hlakka til

Halldóra Guðmundsdóttir hefur starfað með eldri borgurum um áratuga skeið og er nú sjálf orðin sjötug og hætt að vinna. Hún var keppnismanneskja frá ellefu ára aldri og spilaði með landsliðinu í handbolta og svo nokkur ár með liðinu LUGI (Lunds Universitets Gymastik och Idrottsförening) í Lundi í Svíþjóð.

Halldóra hefur verið starfandi í félagsliði sínu ,,Fram” alla tíð og nú  þegar komið er að starfslokum, er félagsskapurinn úr íþróttunum ómetanlegur. ,,Allur vinskapurinn kemur frá Fram og þar eru mínir bestu vinir,” segir Halldóra.

Halldóra er sjúkraliði að mennt og var verkefnisstjóri í félags- og þjónustumiðstöðinni á Vesturgötu 7 í þrjátíu ár. Starfseminni á Vesturgötunni var breytt fyrir fáeinum árum og úr varð dagvistun fyrir eldri borgara. ,,Þá flutti dagvistunin sem var áður í Þorraseli við Þorragötu, í of litlu húsnæði, yfir á Vesturgötuna og heitir nú Þorrasel,” segir Halldóra. ,,Nú er starfsemin því gjörbreytt frá því sem áður var því nú er fólkið sótt heim snemma á morgnana og keyrt heim síðdegis. Ég fullyrði að starfsemin eins og hún var hafi verið ómetanleg fyrir mjög marga og almenn óánægja með breytinguna.”

Alltaf sungið og dansað á föstudögum

Halldóra segir að ákveðið hafi verið að sameina þessar tvær stöðvar en skömmu áður en það var gert var starfseminni á Vesturgötu breytt frá því sem áður var. Nú sé vinnustaðurinn orðinn allt annar. ,,Við sem unnum þarna erum sammála um að hafa aldrei unnið á skemmtilegri vinnustað því bæði starfsfólkið og ánægðir eldri borgarar hafi unnið vel saman að því að gera staðinn sem skemmtilegastan á hverjum degi. ,,Öllum leið mjög vel og alltaf var líf og fjör. Það var til dæmis alltaf dansað á föstudögum og mikið sungið saman. Þá puntuðu sig allir og við starfsfólkið líka svo stemmningin var alltaf skemmtileg og svolítið hátíðleg og allir höfðu jafn gaman af. Svo var líka rómað hvað var gott með kaffinu á föstudögum,” segir Halldóra og brosir. ,,Það gefur auga leið að í viðburðalitlu lífi margra skiptir máli að geta hlakkað til skemmtilegra föstudaga. Þegar ljóst var að leggja átti starfsemina niður í þessari mynd sem við vorum búin að búa til efndu gestir okkar til mótmæla til að reyna að hafa áhrif á ákvarðanatökuna. Þetta var svona eins og ein stór fjölskylda. Við ferðuðumst líka töluvert með fólkið sem var mjög vinsælt. Við höfðum þau alltaf með í ráðum og hvort þau hefðu hugmyndir sjálf að einhverju skemmtilegu. Þau komu mjög oft með mjög góðar hugmyndir sem við gátum nýtt.”

Óskynsamleg ákvörðun

Halldóra segir að það hafi verið sorglegt að sjá fólkið standa marga mótmælafundi til að reyna að fá ákvörðuninni breytt. ,,Þau gerðu allt sem þau gátu til að halda þessari starfsemi óbreyttri áfram en allt kom fyrir ekki. Í þessu var pólitísk ákvarðanataka en það var skondið að sjá stjórnmálamennina koma fyrir kosningarnar í fjörið sem var alltaf á föstudögum og láta taka af sér mynd með eldri borgurunum.“

Að nýta börnin í kennslu fyrir fullorðna


,,Margar félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara hafa verið opnaðar í Reykjavíkurborg á undanförnum árum og nú eru þær opnar fyrir alla aldurshópa, ekki bara eldri borgara,” segir Halldóra. ,,Þar er hlaðborð af mjög mörgu sem fólk getur gert og upplifað en það verða allir að bera sig eftir því sjálfir. Eitt af því sem við gerðum á Vesturgötunni var að vera með tölvukennslu og vorum þar í samvinnu við Vesturbæjarskóla. Þá fengum við krakkana þar til að koma og kenna fullorðna fólkinu. Þannig mynduðust skemmtileg tengsl á milli kynslóða. Þá var eitt barn með hverjum fullorðnum og tölvukennari kom með. Í ljós kom að fullorðna fólkinu þótti gott að tala við börnin sem voru ekki að dæma þau fyrir að kunna ekki á tæknina. Við þurfum auðvitað að þora að prófa og það er svo gott að þora með börnum. Þetta heppnaðist gífurlega vel. Unglingarnir úr Vesturbæjarskóla gerðu reyndar fleira en að kenna fólkinu á tölvur. Stundum tóku þau þátt í dansinum á föstdögum og svo skáru þau út laufabrauð fyrir jólin með fólkinu. Börn úr Hjallastefnunni komu og tefldu við þá eldri og mátti ekki á milli sjá hvor hópurinn var klárari.

Ýmis námskeið voru í boði, til dæmis tréútskurður, skrautskrift, leikfimi, leiklist, postulínsmálun, leirmótun og dans en líka enska og spænska. Í dansinum var það steppdansinn og línudansinn, sem vakti hvað mesta athygli.

Settar voru upp tískusýningar, þar sem fólkið tók sjálft þátt í að sýna fatnað.

Flóamarkaðirnir, sem við héldum á Vesturgötu, voru geyslega vel sóttir og allur ágóði af þeim fór í að kaupa ýmsa hluti fyrir miðstöðina.

Jólafagnaðurinn í desember var alltaf mjög vinsæll og þá var húsið mikið skreytt og svo má ekki gleyma þorrablótunum og grillveislunum,“ segir Halldóra og er greinilega ánægð með gamla vinnustaðinn þegar hún horfir til baka.

Harðangur og klaustur

Skömmu áður en Halldóra hætti að vinna var hún að kynna nýjan starfsmann á félagsmiðstöðinni. ,,Þetta var ung og áhugasöm stúlka og ég sýndi henni stofuna þar sem sátu nokkrar konur að læra að

Halldóra Guðmundsdóttir.

sauma harðangur og klaustur. Hún hváði og sagði: ,,Harðangur, er það einhver sjúkdómur? því orðið minnti hana á munnangur.” Það hefur ítrekað sýnt sig hvað það er mikils virði fyrir kynslóðirnar að vinna saman og læra hver af annarri,” segir Halldóra og hlær að þessari skemmtilegu sögu.

Þörf á sveigjanleika

,,Eitt af því sem er erfitt fyrir eldra fólk að það er ekki sveigjanleiki á mætingum í dagvistunina,” segir Halldóra. ,,Fólki býðst að fá akstur klukkan átta á morgnana og svo er aksturinn heim ekki fyrr en klukkan fjögur. Þetta er langur dagur fyrir marga og mætti endurskoða.”

Leiðist aldrei

,,Nú er ég að upplifa það sem margir hafa gert á undan mér að undrast það hvernig ég komst yfir allt áður en ég hætti að vinna. Þetta eru hlutir sem ég þarf og vil gera á hverjum degi. Nú eiga margir á mínum aldri foreldra á lífi sem þarf að sinna fyrir utan ýmsar aðrar skyldur. Auðvitað hleypur maður hægar með aldrinum en það verður hver og einn að finna sinn takt. Ég var með hund sem dró mig út í

Hluti af Fram-gönguhópnum saman í Heiðmörk.

göngutúra en hann er farinn blessaður. Nú passa ég hund tvisvar í viku og ég og bróðir minn förum saman með hann í göngutúra þá daga. Það skiptir svo miklu máli að hafa alltaf eitthvað til að hlakka til á hverjum degi. Svo er ég í skemmtilegum félagsskap með gömlu íþróttafélögunum mínum og það er alltaf jafn gaman,“ segir Halldóra sem nú er sjálf orðin eldri borgari.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar. Þetta viðtal birtist áður á Lifðu núna í upphafi árs.

Ritstjórn júlí 21, 2023 07:00