Tengdar greinar

Dágóðir danskir krimmar

Eitt af því sem er ómissandi á sumrin eru góðar spennubækur. Ekkert jafnast á við það á rigningardögum að liggja inni með spennandi sakamálasögu og hlusta öðru hvoru á regnið dynja á þakinu. Sólskinsdagana finnst flestum þeir verða að nýta í útivist, enda yfirleitt færri en hinir. En hvort sem spáð er sólskini eða regni er alltaf góður tími til að sanka að sér spennandi krimmum.

Spennandi, vel uppbyggð og skemmtilegar persónur

Eyjan Borgundarhólmur er sögusvið nýjustu bókar Katrine Engberg um Jeppe Kørner og Anette Werner rannsóknarlögreglumenn í Kaupmannahafnarlögreglunni. Jeppe er þar í fríi frá störfum sínum og hefur ráðið sig í vinnu við skógarhögg. Á sama tíma kemur vinkona hans, Esther de Laurenti til eyjunnar til að skrifa ævisögu merks mannfræðings er þar bjó. Þegar sundurhlutað lík finnst í tveimur ferðatöskum í Kaupmannahöfn breytist allt og rannsóknin leiðir Anette út í eyna og öll leika þau sitt hlutverk í að leysa þetta vandasama mál.

Jeppe er í sárum eftir að sambandi hans við Söru Saidani lauk og það síðasta sem hann ætlar sér að dragast inn í lögreglurannsókn en þegar allt kemur til alls er það kannski einmitt það sem hann vantaði. Anette Werner á hinn bóginn er svolítið kvíðin fyrir því að stjórna rannsókn ein en kemst fljótlega að því að hún ræður vel við verkefnið. Esther er að jafna sig eftir dauða vinars síns, Gregers, og heldur að dvöl í nýju umhverfi og vinna við að skrifa ævisögu Margarethe Dybris sé einmitt það sem hún þarf til að hjálpa henni á verstu sorgardögunum.

Þetta er skemmtilegar persónur, vel uppbyggðar og það er ekki annað hægt en að láta sér líka vel við þau. Í þessari bók fáum við einnig að kynnast Margrethe Dybris, mannfræðingnum sem Esther ætlar að skrifa um og þótt hún sé látin lifnar hún við í gegnum einkabréf sín sem Esther les. Það gerir ættleidd dóttir hennar Ida einnig en það er hún sem bað Esther að koma. Nikolaj, bróðir Idu, var einnig ættleiddur en hann er horfinn og enginn hefur heyrt frá honum um nokkurra mánaða skeið. Er hann kannski líkið sem fannst í tveimur ferðatöskum í Kaupmannahöfn?

Katrine Engberg hefur gefið út að þetta verði síðasta bókin um þau Jeppe og Anette og það er ekki laust við að lesandinn finni fyrir ákveðnum vonbrigðum með að ekki sé von á fleirum. Hún kann afskaplega vel að byggja upp spennu og söguþráðurinn er trúverðugur og vel unnin. Katrine er dansari, danshöfundur og hefur unnið margvísleg störf í leikhúsi og sjónvarpi. Hún gaf út sína fyrstu bók, Krókódíllinn, árið 2016 og sú sló strax í gegn. Stíll hennar minnir á Ruth Randall og Dorothy L. Sayers að því leyti að mannleg samskipti og sambönd eru ávallt í forgrunni og sterkar tilfinningar ævinlega undirrótin að morðunum í bókum hennar. Vonandi heldur hún samt áfram að skrifa glæpasögur þótt hugsanlega verði aðrir snjallir spæjarar þar í forgrunni.

Heillandi umhverfi og fín persónusköpun

Skipið frá Ísfirði eftir Ninu von Staffeldt er heillandi saga fyrir margra hluta sakir. Höfundi tekst að byggja upp sannfærandi og spennandi fléttu en auk þess lýsa náttúru Grænlands og lífi nútímafólks þar á lifandi og skemmtilegan hátt. Bókin er mjög vel skrifuð og það er augljóst að höfundur hefur lagt á sig mikla vinnu við heimildaöflun og hlutverk Grænlands í seinni heimstyrjöldinni verður hér skýrara og lesandinn fær innsýn inn í líf fólks í afskekktum byggðum þess.

Á fyrstu síðu er lesandanum hent inn í sumarbústað þar sem logar í ruslatunna og hann fær að fylgjast með hvernig eldurinn breiðist út. Undir lokin kemst hann að því að meðvitundarlaus maður liggur í sófa í eldhafinu miðju. Hann reynis vera guðfaðir Siku Haslund, Thyge Høyer-Larsen prófessor við Grænlandsháskóla. Í fyrstu telja allir að um hörmulegt slys hafi verið að ræða en fljótlega verður ljós að þetta er morð.

Þegar Sika sækir ferðamálaráðstefnu í Ilulissat skömmu síðar fréttir hún að guðfaðir hennar hafði verið að spyrjast fyrir um afa Avi, vinkonu hennar, og dagbækur hans frá stríðsárunum. Forvitnin rekur Siku áfram og hún fer að skoða gögn sem Thyge hafði aflað og skoða nýjust rannsóknir hans. Á sama tíma er Þormóður Gíslason blaðamaður að flytja fréttir af þessum atburðum og hann uppgötvar einnig ýmislegt sem bendir til að þessir atburðir séu tengdir og að baki séu andstyggileg öfl.

Skipið frá Ísfirði er þriðja bókin um Siku Haslund. Hinar tvær hafa einnig komið út á íslensku og heita, Svarti engillinn og Frosin sönnunargögn en sú bók var valin  besta frumraun höfundar af dönsku glæpaakademíunni árið 2016. Nina von Staffeldt lærði þýska heimspeki og uppeldisfræði í Kaupmannahafnarháskóla og vann lengi fyrir danska ríkið. Í því starfi fór hún oft til Grænlands og veitti þeim ráðgjöf í menntunar- og skólamálum. Bækur hennar lýsa vel ást hennar á því landi og náttúru þess. Hún hefur einstakt lag á að skapa andrúmsloft í bókum sínum og Sika Haslund og Þormóðpur Gíslason eru einstaklega geðþekkar persónur sem auðvelt er að halda með. Hún kann líka vel að byggja upp spennu og eiginlega má segja að ef bók eftir hana er opnuð ætti fólk að búa sig undir langa törn því fáir tíma að leggja hana frá sér fyrr en að síðasta blaðsíðan hefur verið lesin.

 

Ritstjórn maí 13, 2025 07:00