Hættu nú að mynda amma!

Þau eru svo yndisleg og við svo stolt af þeim, börnin okkar og barnabörnin. Það er gaman að taka myndir af þeim og dreifa á samfélagsmiðlum til að fá allar hamingjuóskirnar og lækin frá vinum í netheimum. Nú og svo er svo ótrúlega vinsælt spyrja yngri börnin flókinna spurninga og fá fyndin, gáfuleg og skondin svör. Og þessu þarf að deila. Vilja ekki allir njóta, heyra og sjá hvað við eigum bráðsnjalla afkomendur? Jú, áreiðanlega en hugsanlega en netið er varasamur staður og þar eru margir kimar og auk þess er ekki alveg víst að börnunum finnist þessi mynd og þessi tiltekna saga jafnskemmtileg og okkur. Megum við þá segja frá og birta?

Börn njóta friðhelgi einkalífs rétt eins og fullorðnir. Að sumu leyti jafnvel meiri, til dæmis má nefna að fjölmiðlar og ókunnugir hafa ekki leyfi til að taka myndir af börnunum okkar og birta þær án leyfis. Atvinnuljósmyndarar vita þetta og myndu aldrei taka myndir af börnum á leikskólum, í skólum eða að leik úti á fótboltavelli án þess að hafa fengið leyfi áður. Áhugaljósmyndarar hafa hins vegar lent í því að vera beðnir um að taka niður myndir á Instagram, Flickr eða öðrum síðum eftir að hafa birt myndir af fallegum börnum að leik einhvers staðar utandyra.

Eitt slíkt mál kom upp í Hafnarfirði fyrir fáum árum. Áhugaljósmyndari gekk fram á hóp unglinga að leik við sjóinn. Það var yndislegt veður og krakkarnir gerðu sér að leik að hoppa fram af smábátabryggju í sjóinn. Þau voru léttklædd og falleg og hann smellti þónokkrum myndum af þeim sem rötuðu beint inn á Flickr og skömmu síðar hafði blaðamaður fjölmiðils samband og bað um leyfi til að birta nokkrar í miðli sínum. Ljósmyndarinn gaf leyfi og í kjölfarið höfðu reiðir foreldrar samband og kröfuðst þess að þessum myndum af börnum þeirra yrði eytt. Að sjálfsögðu var orðið við því.

Foreldrarnir og afar og ömmur oft verst

En hvað með afana og ömmurnar og foreldrana? Þetta eru forsjáraðilarnir og til þeirra ættu allir að leita til að afla leyfis. Staðreyndin er hins vegar sú að margir foreldrar og afar og ömmur birta alls konar myndir af börnum sínum og barnabörnum. Þau eru í sundi, í baði, á náttfötum, að borða, við íþróttaiðkun, í skólanum eða nánast hvað sem er. Stundum er auðvelt út frá myndunum að geta í eyðurnar og komast að hvar börnin ganga í skóla, hvar þau búa, hvar þau verja tómstundum sínum og hvað þau gera á daginn.

Fyrir nokkrum árum sagði Salvör Nordal umboðsmaður barna frá því að henni hefðu borist kvartanir frá börnum sem voru ósátt við myndir og frásagnir sem foreldrar þeirra birtu af þeim á samfélagsmiðlum. Salvör nefndi dæmi í viðtali við Morgunvaktina á Rás 1:

„Við fengum dæmi fyrir nokkrum misserum síðan þar sem var stúlka í grunnskóla sem velti því fyrir sér hvort móðir hennar hefði mátt birta einkunnir hennar á Facebook. Hún hafði staðið sig mjög vel í skóla, það var ekki vandamálið. Hún vildi bara ekki að þessar einkunnir væru birtar með þessum hætti og mamma hennar hafði ekki spurt. Það er verið að birta alls konar myndir sem koma til með að lifa á miðlunum um ókomin ár og þau eiga eftir að lifa með. Þau vilja ekkert endilega að þetta sé til þarna úti.“

Hún nefndi í sama viðtali dóm sem fallið hafði í Noregi í máli konu í baráttu við barnaverndaryfirvöld. Konan hafði birt alls konar upplýsingar um barnið og aðstæður þess og líðan á Facebook. Hún var dæmd fyrir að hafa brotið gegn friðhelgi barnsins. Þetta er athyglisverður dómur í ljósi þess að fólk hér á landi hefur ekki hikað við að fara í fjölmiðla og ræða um greiningar sem börn hafa fengið, sjúkdóma þeirra, einelti sem þau verða fyrir og margvíslegar aðrar aðstæður og vanda sem þau glíma við. Um þetta er einnig talað á samfélagsmiðlum og jafnvel leitað ráða hjá hundruðum vina og fylgjenda sem margir hverjir þekkja barnið ekki neitt.

Telur sig öruggt í lokuðum hópum

Mjög margir og mismunandi hópar hafa verið myndaðir á Facebook. Sumir tengjast áhugamálum eða þekkingarleit fólks en einnig er til í dæminu að þar kjósi meðlimir að deila erfiðri reynslu og upplifunum. Í foreldrahópum miðla menn ráðum sína á milli og gildir það jafnt um hegðunarvanda sem heilskvilla barna. Sumir hópanna eru opnir aðrir lokaðir en þótt þeir séu lokaðir geta þeir orðið mjög stórir. Dæmi eru um lokaða hópa sem eru með meira en tuttugu þúsund meðlimi. Einn slíkur er Mæðra tips! Þar geta konur rætt um upplifanir sínar af meðgöngu, fæðingu og uppeldi, leitað ráða og gefið þau. Þar má sömuleiðis senda inn nafnlausa fyrirspurn en þá sjá eingöngu stjórnendur hópsins og Facebook-umsjónarfólk úti í heimi hver stendur að baki.

Þrátt fyrir að reynt sé með þessum hætti að leyna hver stendur að baki er engu að síður varasamt að tala um barn sitt í svo stórum hópi. Hvað þá að gera það undir nafni og deila myndum af útbrotum, meiðslum eða öðru. Að tala um hegðunarvanda, félagslegar áskoranir, heilsufar eða greiningar barna á slíkum vettvangi er sömuleiðis bara galið. Við skulum ekki gleyma að þetta eru um það bil 6% íslensku þjóðarinnar og engin leið að vita hvort upplýsingarnar fara á flakk og þá hvar þær enda. Mun skynsamlegra er að leita til fagfólks eftir ráðum og þótt foreldrar stjórni því hvort, hvernig, hvar og hvaða upplýsingum um börnin þeirra er dreift má aldrei gleyma að margt getur komið niður á börnunum síðar. Það á að leyfa þeim að vera með í ráðum áður en farið er að tala um þau eða birta af þeim myndir, enda á barn skýlausan rétt til að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum er það varða. Annað sem vert er að hafa í huga þegar verið er að deila upplýsingum á netinu er að það gleymir engu. Um leið og viðkomandi hefur ýtt á birta takkann verður þetta ekki aftur tekið. 

Fjölmiðlar ekki saklausir

Hér á landi hafa fjölmiðlar birt viðtöl við foreldra í deilum við barnaverndaryfirvöld eða í forsjárdeilum. Þar koma iðulega fram margvíslegar upplýsingar um bæði börnin og fyrrverandi maka sem óvíst er að eigi erindi til almennings. Ömmur og afar hafa stigið fram og tjáð sig um málefni barnabarna sinna til að koma með innlegg í forsjárdeilur eða skýra út ástæður erfiðra atvika tengdum barninu. Auk þess eru hugsanlega birtar myndir af börnunum í óþökk þeirra. Aðstandandi segir auk þess frá líðan barnsins, ótta þess við foreldri sitt eða barnaverndarnefnd, reiði þess eða fullyrðir eitthvað um hvar það vilji vera og hvað gera. Þetta getur komið sér mjög illa fyrir barnið og valdið miklum sárindum í fjölskyldum.

Þess eru dæmi að fyrstu myndir af barni birtist á netinu meðan það er enn í móðukviði og þúsundir mynda af því sé að finna við alls konar athafnir á samfélagsmiðlum áður en þau hafa náð skólaaldri. Þar er hægt að nálgast þessar myndir og nota á ýmsa vegu. Úti í heimi hefur komið fyrir að fólk finni myndir af börnum sínum á Facebook-síðum ókunnugra. Þar er um að ræða falska prófíla eða fólk sem af einhverjum ástæðum lýgur til um að það eigi börn. Barnaníðingar eru einnig duglegir við að safna og deila myndum af börnum og þær þurfa ekki að sýna neina nekt til að það gerist.

Veruleiki Internetsins er að sumu leyti mjög nýr fyrir okkur. Þótt flestir séu farnir að gera sér grein fyrir af hve miklum ógnarhraða efni getur ferðast um netið gleyma margir að samfélagsmiðlarnir eru einn stærsti vettvangur deilinga upplýsinga sem um getur. Það sem okkur þykir saklaust í dag getur orðið tilefni stríðni, eineltis eða útskúfunar fyrir börnin okkar á morgun. Fyrir svo utan að litla krúttlega barnið á teppinu sínu á gólfinu getur hugsanlega vaxið upp og orðið mjög hlédrægur og feiminn einstaklingur sem síst af öllu kærir sig um að deilt sé alls konar efni atvikum úr lífi hans. Netið er enn nokkuð nýtt í hugum okkar og þótt virkir í athugasemdum og fleiri hafi sýnt okkur fram á að þar fer alls ekki fram saklaus umræða og venjuleg skoðanaskipti erum við enn að venjast því að geta opinberar einkalíf okkar eins mikið eða lítið og við viljum. Hér giildir sennilega að hafa aðgát í nærveru sálar og hugsa sig ævinlega tvisvar um.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 25, 2025 07:00