Kyrrðin utan alfaraleiða

Utan helstu ferðamannastaða má enn finna staði þar sem ríkir kyrrð og fegurð og íslensk gestrisni lifir ómenguð. Þótt menn ættu alls ekki að missa af náttúruundrum landsins bara vegna þess að ferðamönnum hefur fjölgað er líka gott til þess að vita að rétt utan þjóðvegar eitt er að finna, fyrsta flokks veitingahús, yndislega skógarkyrrð, tignarleg fjöll og magnaða fossa og hvarvetna er yndislegt fólk.

Í ár byrjaði sumarfríið á Dalvík. Þar hefur verið byggð upp ferðaþjónusta eins og víðast hvar annars staðar á landinu og nú er hægt að borða góðan mat á Gregors á Dalvík og fá fyrsta flokks kaffi hjá þeim Bakkabræðrum Gísla, Eiríki og Helga. Þeim var ekki margt gefið blessuðum á sinni tíð en þeir sem reka kaffihúsið kunna að bera sólskinið í bæinn og bregðast við kalli gestir á kútinn. Sami aðili rekur gistiheimilið Vegamót og þar er hægt að sofa í notalegu smáhýsi eða í ríflega aldargömlu húsi þar sem andinn er engu líkur.

Það er þess virði að koma við á Akureyri til þess eins að borað á RUB23. Þar er boðið upp á sérlega gómsæta og góða fiskrétti og sushi sem er hreint sælgæti. Matreiðslan er frumleg og skemmtilega úthugsuð, enda var Einar Geirsson matreiðslumaður og eigandi staðarins lengi í kokkalandsliðinu. Hann býr til sínar eigin kryddblöndur og á matseðli eru sjaldséð hráefni á borð við linskelskrabba, íslenskan snjókrabba og laxahrogn. Undirrituð er þess fullviss að laxinn sem borinn var fyrir hana í aðalrétt er á matseðlinum í himnaríki.

Þessi á hafði komið sér fyrir við áningarstaðinn á Möðrudalsöræfum og stillti sér upp fyrir ferðamenn gegn því að þeir færðu henni eitthvað gott að borða.

Ljósmyndafyrirsæta með tvö lömb

Frá Akureyri var haldið austur á land. Við áðum inni heiði á bílastæði við gatnamótin niður á Vopnafjörð og þar var tvílembd á sem greinilega var komin í ferðamannabransann. Hún stillti sér upp fyrir myndatökur gegn því að ferðamenn gæfu henni brauðbita, harðfiskflís, smjörklípu eða annað ljúfmeti. Hún var eins og þaulvön fyrirsæta og mun gæfari en íslenskar rollur almennt. Það eru greinilega uppgrip hjá fleirum en mannfólkinu þegar ferðamenn taka að streyma til landsins á sumrin.

Egilsstaðir er vinsæll ferðamannastaður en við kusum að gista á Fljótsdalsgrund við félagsheimilið Végarð. Staðurinn er rétt innan við Skriðuklaustur og á leið þangað blasir toppur Snæfells við. Þetta tignarlega fjall er fallegt jafnt tilsýndar sem í návígi og margir hafa reynt sig við að ganga þar upp. Við lögðum ekki á hlíðarnar í þetta sinn og létum okkur nægja að dást að því.

Fljótsdalurinn er gríðarlega fallegur og sérstakur bónus og njóta þess á hverjum degi að horfa á fegurðina þegar komið var úr dagsferðum. Herbergin eru rúmgóð og þægileg en mest er um vert hversu sjálfsagt er að koma til móts við óskir gesta og hjónin, Sólrún Júlía Hjartardóttir og Kjartan Benediktsson, sem reka staðinn einstaklega þægileg í framkomu. Grunnurinn að húsinu eru vinnubúðir sem notaðar voru við Kárahnjúka og gott til þess að vita menn hafi endurnýtt það sem féll til eftir að byggingu virkjunarinnar lauk. Kjartan er lærður bakari og brauðin sem borin voru fram með matnum hreint út sagt dásamleg. Morgunmatarhlaðborðið var líka mjög fjölbreytt og fallega framreitt.

Hin óviðjafnanlega Jökulsá á Dal

Stuðlagil er einstakur staður og eiginlega ekki hægt að sleppa því að ganga þangað þótt umferðin um göngustíginn frá Klausturseli hafi verið á pari við meðaldag á Laugaveginum. Gil Jökulsár á Dal er óskaplega fallegt og áhugaverðar klettamyndanir víðar en á þeim kafla þar sem stuðlarnir raða sér upp. Engu að síður er stuðlagil dásamlegt náttúruundur. Neðar í ánni má sjá ofan á stuðla og þar er að sjá eins og menn horfi ofan á fallega lagt flísagólf. Neðan við bæinn Hauksstaði eru grónir hólmar sem setja svip á ána en einstakur djúpgrænn litur hennar er heillandi. Hún liðast áfram kyrr og mildileg gersamlega gerólík því mórauða, illúðlega vatnsfalli er þarna rann áður en Kárahnjúkavirkjun kom til. Það er því þess virði að fá annan til að keyra Jökuldalinn og einbeita sér að því að horfa á gilið hvenær sem í það sést og eins upp á við á hina gríðarlega fallegu fossa sem skreyta hlíðarnar í dalnum.

Frá Fljótsdalshéraði er mjög þægilegt að keyra niður á firðina og skoða sig um. Seyðisfjörður er vinalegur og skemmtilegur bær. Það er sérlega gaman að sjá öll gömlu húsin sem hafa verið gerð svo fallega upp og eru ekki bara augnayndi heldur hluti af menningar- og byggingasögu okkar. Þarna ríkir greinilega metnaður og athafnagleði. Seyðfirðingar eru hugmyndaríkir og kunna að byggja á því sem fyrir er til að skapa nýtt og endurnýta gamalt. Menningarstarf í bænum er líka með miklum blóma og þeir sem hafa áhuga á fallegu handverki og list finna næga afþreyingu þar. Veitingastaðir bæjarins eru einnig í heimsklassa. Norð Austur Sushi & Bar á efri hæð Öldunnar er til að mynda svo frægur að auðmenn hafa gert sér ferð á einkaþotum sínum til Egilstaða og keyra þaðan til Seyðisfjarðar í því skyni að smakka  sushi-bita og aðra frumlega matreiðslu úr íslenskum hráefnum. Það er því vel þess virði að dvelja í firðinum fram yfir kvöldverð.

Vopnafjörður á sérstakan stað í hjarta mínu því þar dvaldi ég flest sumur æskunnar í sveit hjá afa og ömmu. Þessi staður er lítið breyttur frá því ég var barn. Mörgum gömlu húsanna hefur verið vel við haldið. Kaupvangur setur sterkan svip á bæinn og þakkarvert að hreppurinn skildi ákveða að gera húsið upp á þennan fallega hátt. Þetta er rólegt þorp sem gaman er að reika um og notalegt og spennandi að setjast inn á fyrsta flokks asískan veitingastað þarna úr alfaraleið. Í firðinum eru svo ótal staðir sem vert er að heimsækja, Fuglabjargarnes, Gljúfursá, Drangsnes, Skjólfjörur og Ljósastapi eru þar á meðal og hver einasti ferðamaður ætti að sæta lagi og koma við í Hjáleigunni við Burstarfell áður en haldið er á brott og gæða sér á glæsilegu kaffihlaðborði. Fröken Hnallþóra úr Kristnihaldi undir Jökli yrði að beygja sig í duftið fyrir húsráðendum þar á bæ því hennar sautján sortir eru smámunir miðað við það sem hér býðst.

Lundarnir í Hafnarhólma eru svo gæfir að það er næstum hægt að snerta þá.

Álfadrottningin og prófastarnir

Leiðin á Borgarfjörð eystri liggur um grösugar sveitir undir stórkostlegum fjöllum. Þegar ekið er ofan í Njarðvík gnæfa Dyrfjöllin yfir, ægifögur og dalurinn fyrir neðan grösugur og grænn. Áður en haldið er í Njarðvíkurskriður er skemmtilegt að ganga inn í Innra Hvannagil. Frá veginum virðist þetta ekki spennandi staður en þegar inn í gilið er komið opnast ævintýraheimur þar sem svartir berggangar skera ríólítið í fjallinu og áin fossar niður og yfir litríka steina í botninum sem gefa vatninu mjólkurlit. Fáir virðast vita af þessum stað og flestir keyra framhjá en þetta er létt ganga og sannarlega þess virði að fara.

Á Borgarfirði eystri er náttúrufegurðin nánast yfirþyrmandi. Um allar fjörur eru heillandi bergmyndanir, fjörðurinn er grösugur og búsældarlegur og hafið sindrar í sólinni djúpblátt og heillandi. Álfaborgin og drottningin sem þar býr vaka yfir byggðinni en engir ferðamenn ættu að sleppa því að fara í Hafnarhólma. Lundarnir eru ótrúlega gæfir og vinalegir og á við besta sjónvarpsefni að fylgjast með þeim við daglega iðju. Sumir snyrta fjaðrirnar, aðrir stinga sér í holuna sína og enn aðrir fljúga út á sjó og koma síðan færandi hendi með síli í goggnum til að færa kofunni eða pysjunni sem bíður sísvöng. Frá Borgarfirði er hægt að leggja upp í göngu á Víknaslóðir og njóta enn frekar fegurðar Austurlands og hvíldar frá ys og þys hversdagsins.

Klifbrekkufossar eru stórkostlegir.

Mjóifjörður liðast inn í landið, langur og mjór en sérstæður og fallegur. Að þarna skuli enn blómstra mannlíf er eiginlega kraftaverk því fjallvegurinn er ófær á veturna. Í þorpinu Brekku búa fjórtán manns allt árið og sækja sér nauðsynjar sjóleiðina yfir veturinn. Þarna er kyrrð og friður og vel hægt gefa sig á vald æskuminningum um ferðalög um landið þegar vegurinn framundan var auður kílómetra eftir kílómetra og fjölskyldan ein í heiminum þegar sest var niður í lyngi vaxna laut að borða nesti. Hinir tignarlegu Klifbrekkufossar blasa svo hvarvetna við, glitrandi perluröð fossa niður snarbratta fjallshlíð. Það felst gríðarleg endurnæring í því að ferðast utan alfaraleiða og til allrar lukku getum við Íslendingar enn fundið stórkostlega og fallega staði þar sem hægt er að ímynda sér að maður sé einn í heiminum og hlusta á náttúruna hjala á sinn kyrrláta hátt.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 15, 2024 07:00