Tengdar greinar

Fólk á Austurlandi fær betri aðgang að þjónustu sérfræðilækna

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að tryggja Heilbrigðisstofnun Austurlands varanlegt aukið fjármagn til að tryggja áframhaldandi þjónustu sérgreinalækna við íbúa eystra með samningum við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítala.Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins og þar segir eftirfarandi:

Verkefnið hófst sem tilraunaverkefni í fyrra með samningum um þjónustu bæklunarlækna og þvagfæraskurðlækna. Á 12 mánaða tímabili sinntu læknarnir um 850 komum hjá einstaklingum sem annars hefðu þurft að sækja þjónustuna til Akureyrar eða Reykjavíkur.

Í samningi um þjónustu bæklunarlækna var gert ráð fyrir mánaðarlegum heimsóknum læknis til Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Heimsóknirnar urðu þó færri, einkum vegna COVID-19 faraldursins, eða átta á 12 mánaða tímabili. Í hverri heimsókn hitti bæklunarlæknir 30 – 40 sjúklinga og sinnti alls rúmlega 270 komum á tímabilinu. Algengustu erindin hafa tengst mati og meðferð sem tengist liðum, meðal annars vegna slitgigtar.

Þvagfæraskurðlæknar heimsóttu Heilbrigðisstofnun Austurlands 13 sinnum á 18 mánaða samningstímabili. Komur sjúklinga voru um 570 og aðgerðir tæplega 50 á tímabilinu. Þjónustan náði til einstaklinga á öllum aldri og fólks hvaðanæva af Austurlandi.

Mikill ávinningur og fyrirkomulagið fest í sessi

Samkvæmt greinargerð Heilbrigðisstofnunar Austurlands um árangur verkefnisins er áætlað að ferðakostnaðargreiðslur Sjúkratrygginga Íslands hefðu numið rúmum 25 milljónum króna ef hlutaðeigandi sjúklingar hefðu þurft að sækja þjónustuna til Reykjavíkur eða Akureyrar. Bent er á að ávinningurinn sé mun meiri ef horft er til þess vinnutaps sem sjúklingarnir hefðu ella orðið fyrir vegna læknisheimsókna í annan landshluta. Þá sé einnig ávinningur fólginn í því að samningarnir feli í sér beina tengingu við sérgreinasjúkrahús ef þess er þörf.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að tryggja Heilbrigðisstofnun Austurlands 15 milljónir króna í varanlegt aukið fjármagn til samninga við sérgreinalækna og er stofnuninni ætlað að leggja fram áætlun um hvernig þörfum íbúa verði mætt varðandi tegundir sérgreina og magn þjónustu. Jafnframt er miðað við að hluti þjónustunnar verði veittur með fjarheilbrigðistækni.

 

Ritstjórn nóvember 4, 2020 15:04