Flestir ferðamennirnir sem hafa farið með Örnólfi Árnasyni fararstjóra hjá Farvel til Balí eru á aldrinum milli fimmtugs og sjötugs, en evrópskum ferðamönnum sem komnir eru yfir sextugt fjölgar stöðugt. Ferðir til Balí eru vinsælar. Tæplega 200 manns hafa farið með Örnólfi þangað síðustu 18 mánuði. Hann segir að meðalaldurinn í sínum hópum hafi verið tiltölulega hár, flestir líklega á milli fimmtugs og sjötugs, fátt um börn og unglinga, en þó nokkuð margir hafi verið komnir yfir sjötugt og nokkrir vel yfir áttrætt. „Ég fullyrði samt að engum hefur þótt Balíferðin nein ofraun“, segir Örnólfur.
Samgöngubylting nútímans
„Balí er einn eftirsóttasti áfangastaður ferðamanna í heiminum í dag“, segir Örnólfur. „Fiskisagan um fegurð náttúrunnar og mannlífsins á paradísareynni Balí flaug reyndar um Vesturálfu endur fyrir löngu. En þá var það ekki á færi annara en þeirra sem höfðu ómældan tíma og fjárráð að ferðast svona langt. En með samgöngubyltingu nútímans láta fleiri og fleiri þann draum rætast“.
Veturinn ákjósanlegur tími
Örnólfur segir langmesta ásókn ferðamanna til Balí yfir hásumarið, vegna þess að þá eigi flestir sitt árlega frí, en veturinn sé ekki síður ákjósanlegur tími fyrir þá sem eigi heimangengt og vilji njóta veðurblíðu í yndisfögru umhverfi. „Eyjan er búin nánast öllum þeim kostum sem við Vesturlandabúar sækjumst eftir. Fólkinu á Balí, þessum glaðværu og gestrisnu fagurkerum sem byggja eyjuna, hefur einhvern veginn tekist að koma til móts við kröfur okkar útlendinganna, til dæmis um vandað húsnæði, lystugan mat og nútímatækni, án þess að skemma þau hefðbundnu sérkenni hindúamenningar sinnar sem heilla hvern einasta mann“ Og Örnólfur heldur áfram. „Margir sem heimsækja þessa eyju segja líka: „Ó, hér vildi ég eiga heima.“ Sumir láta það eftir sér, þar á meðal nokkrir heimsfrægir listamenn. Til dæmis býr Paulo Coelho höfundur „Alkemistans“ í Úbúd og skrifar reglulega pistla í Bali Times.
Ekki bara til að fara í sólbað
Örnólfur segir fólkið sem fer með honum til Balí sé ekki bara að sækjast eftir sólböðum. Það vilji jafnframt bæta í reynslusarp sinn, skoða sig um og sé opið fyrir öllu sem fyrir augu og eyru ber. „Ég hef reyndar tekið eftir að flest fólkið sem hefur farið með mér til Balí er ríkt af ferðareynslu fyrir. Sumir höfðu meira að segja komið til Balí áður“. Örnólfur segir að það sé auðvitað dýrara að fljúga til Asíu en Kanaríeyja eða Flórida og meðal annars þess vegna sé freistandi að hafa dvölina heldur lengri en styttri. Fólki fái hins vegar mjög mikið fyrir peningana sína á Balí. Gististaðirnir séu vandaðir og góð máltíð kosti yfirleitt ekki nema 500-1000 krónur. Mikið sé um nuddstofur og þar sé til dæmis hægt að fá klukkutíma heilnudd fyrir þúsund krónur. „Sumir notfæra sér það daglega“, segir hann.