Fjórðungur ferðamanna kominn yfir sextugt

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerir ráð fyrir að eldri ferðalöngum, þ.e. 60 ára og eldri fjölgi töluvert á næstu árum. Árið 2015 voru þeir um fjórðungur allra ferðamanna, en búist er við að árið 2030 verði þeir orðnir um þriðjungur þeirra sem leggja í ferðalög. Þetta kemur fram í skýrslu sem framkvæmdastjórnin lét vinna um aukin ferðalög eldra fólks í álfunni, en hún var unnin fyrir tæpum tveimur árum. Þetta er hærra hlutfall en í öðrum heimsálfum, en næst flestir eru feðamenn sextugir og eldri í Bandaríkjunum. Skýrslan.

Ferðast meira og kaupa frekar gistingu

Ferðamönnum í heiminum fækkaði töluvert í kreppunni, eða á árunum 2006-2011, með einni undantekningu – sem voru eldri ferðamenn. Þeim fjölgaði á þessu tímabili. Þessi aldurshópur ferðaðist meira árið 2011 en í upphafi kreppunnar og keypti sér gistingu í meira mæli en áður. Öfugt við yngri ferðamenn. Eldri ferðalangar eyddu líka meiru á ferðalögum sínum en áður.

Ferðast einir eða með stórfjölskyldunni

Ferðaskrifstofur þurfa á næstu árum að taka mið af þessum breytingum, segir í skýrslunni. Evrópubúar lifa almennt lengur en áður – og við betri heilsu. Þeir eru líka í betra formi en áður og hafa að minnsta kosti sumir, betri auraráð en áður.  Kannanir á lífsháttum fólks, sýna ennfremur breytingar á fjölskylduháttum. Skilnuðum fjölgar og þar með ferðalöngum sem eru einir á ferð. Þá er orðið algengara að afar og ömmur ferðist með barnabörnunum sínum, eða jafnvel að stórfjölskyldan taki sig saman og fari í lengri ferðir.

 

Ritstjórn júlí 20, 2016 10:24