Paul Jóhannsson er fæddur 1929 og er því 91 árs. Hann spilar enn badminton við sér mun yngra fólk og hefur oft betur. Við birtum viðtalið í fyrra en Paul mætir enn í badminton tvisvar í viku og hefur oft betur. Nafn hans er borið fram eins og það er skrifað, með íslenskum framburði, en Paul er fæddur í Noregi þar sem foreldrar hans hittust. Faðir hans var íslenskur og var sjómaður í Norðursjónum þegar hann hitti móður Pauls í einni landlegunni í Noregi. ,,Mamma og pabbi bjuggu til fjögur börn í Noregi og fjögur á Íslandi,” segir Paul og brosir. ,,Þau fluttu heim til Íslands 1934 og var fagnað hressilega þegar þau sigldu inn Eyjafjörðinn einmitt þegar stóri jarðskjálftinn reið yfir Dalvík. Skipið varð að hægja á sér af því öldurnar urðu svo miklar af jarðskjálftanum. Pabbi var vélstjóri um borð og við vorum öll með honum, börnin fjögur og mamma.”
Pabbi smíðaði skauta fyrir okkur
Þegar stríðið var komið í gang vildi faðir Pauls ekki búa í þéttbýlinu á Akureyri og vildi að þau flyttu á Svalbarðseyri. ,,Við gerðum það því honum þótti við öruggari þar. Þar er lítil tjörn niðri í flæðarmálinu sem fraus á veturna. Pabbi bjó til skauta handa okkur öllum systkinunum og við vorum einu börnin sem gátum verið á skautum,” segir Paul og í rödd hans má merkja stolt.
Fór til Svíþjóðar í nám
Paul er verk- og tæknifræðingur og starfaði lengst af hjá vélsmiðjunni Héðni. Hann kynntist vélstjóra á skipi sem kom við á Íslandi. Sá sagði honum að það væri ótækt að festast á Íslandi. Paul skyldi frekar koma með skipinu til Noregs. ,,Ég lét slag standa og fór með þeim til Noregs og þaðan til Svíþjóðar en hafði kynnst fólki á Akureyri frá fyrirtækinu Stal í Svíþjóð sem framleiddi túrbínur fyrir Íslendinga. Ég fór svo að vinna hjá þessu fyrirtæki í nokkur ár.” Eftir það fór Paul til Eskilstuna og hitti þar tilvonandi eiginkonu sína Elínu Ellertsdóttur. ,,Kona vinar míns sagði mér frá því að íslensk stúlka væri að koma að vinna á sjúkrahúsinu þar í bæ. Hún stakk upp á að ég hitti hana og ég sagði si svona ,,jú, jú, það væri bara sniðugt.” Og úr því varð hjónaband,” segir Paul og hlær. Hann segir að því miður hafi Elín verið greind með Alzheimer sjúkdóminn fyrir 10 árum og búi núna á Skógarbæ. Paul heimsækir konu sína á hverjum degi og er hjá henni í klukkutíma í senn. Þau eignuðust þrjár dætur sem allar eru fæddar í Svíþjóð.
Skráir niður brandara barnanna
Þegar yngsti afastrákurinn var þriggja ára byrjaði Paul að skrifa niður brandarana sem hrutu af vörum barnanna. ,,Fyrsti brandari þess yngsta var svona: Mamma mín elskar mig, pabbi minn elskar mig, bræður mínir elska mig ekki,” segir Paul og segir hlæjandi að aldursmunur bræðranna hafi valdið ýmsum árekstrum en þeir eldri eru 6 og 7 1/2 ári eldri en sá yngsti.
Fékk lömunarveiki sem barn
Þegar Paul var fjögurra ára fékk hann lömunarveiki í annan fótinn. ,,Ég náði mér af því og fann ekki fyrir verkjum lengi vel en nú er ég farinn að finna vel fyrir fætinum, hann heldur stundum fyrir mér vöku,” segir Paul. Hann segist vera kristinn maður og fullyrðir að trúin hafi hjálpað sér alla ævi. Paul hefur stundað íþróttir og hugsað vel um heilsuna alla tíð. Fyrir utan badminton hefur hann stundað skíði, bandí og íshokkí. Af þessum íþróttum er badmintonið eina íþróttin sem er eftir fyrir utan æfingar sem hann gerir þrisvar í viku í Sporthúsinu. Covid hefur haft áhrif á allt íþróttalíf og Paul hefur saknað íþróttanna mikið þennan tíma sem lokanir hafa varað.
Mikið atriði að halda líkamanum í góðu formi
,,Án líkama í góðu standi væri þetta nú ekkert skemmtilegt líf,” segir Paul. ,,Að fá að vera með yngra fólki í badminton er ómetanlegt fyrir mig,” segir hann. Í hópnum
sem hann spilar með tvisvar í viku er fólk á aldrinum 30 ára upp í hann sem er 91 og allt þar á milli. Næstur honum í aldri er 84 ára gamall maður og þeir tveir eru gott lið. Paul byrjaði að spila badminton 1974 þegar TBR höllin við Gnoðarvog reis. Hann fékk félaga sína, verk- og tæknifræðingana, með sér en þeir helltust úr lestinn hver af öðrum þangað til Paul var orðinn einn eftir. ,,Það geta ekki allir spilað badminton níræðir,” segir hann og brosir en bætir við að badmintonið sé þannig íþrótt að maður geti stundað hana lengi fram eftir aldri. Hún viðhaldi snerpu, jafnvægi og liðleika og hann ætli að halda áfram eins lengi og einhver nenni að spila við hann. Ef maður læri tæknina einu sinni búi hún með manni. ,,Bara það að upplifa keppnisandann hefur svo gríðarlega mikið að segja fyrir mig.”
Fyrir utan að hugsa vel um líkama sinn ræður Paul alltaf Sudoku þrautir á hverjum degi. ,,Ég tek Sudoku alltaf með mér upp í rúm á kvöldin og trúi því að þær þrautir þjálfi hausinn á mér,” segir Paul léttur og lætur aldurinn ekki stoppa sig í að lifa lífinu lifandi. Eitt af því sem hann hefur tileinkað sér er tölvufærni en hann var orðinn rúmlega miðaldra þegar tölvur komu til sögunnar.
(Viðtalið við Paul er af vef Lifðu núna en það var tekið í fyrra.)
Sólveig Baldursdóttr, blaðamaður Lifðu núna skrifar.