Spennandi ferðir í innan við klukkutíma fjarlægð frá Reykjavík

Sumarið er ákjósanlegur tími til að prófa ýmsar ferðir og ævintýri sem bjóðast í nágrenni Reykjavíkur og erlendir ferðamenn hafa verið duglegir að nýta sér. Nú er röðin komin að heimamönnum. Því styttra sem þarf að fara frá höfuðborgarsvæðinu, þeim mun þægilegra fyrir höfuðborgarbúa og gesti utan af landi. Lifðu núna hefur tekið saman stuttan lista yfir ferðir sem hægt er að fara eftir um klukkutíma akstur frá Reykjavík.

Hellaferð

Fjölmargir hellar eru á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni og hægt að heimsækja marga þeirra. Raufarhólshellir í Þrengslunum er frábært dæmi um helli í innan við klukkustundar akstur frá Reykjavík. Hellirinn er eingöngu opinn fyrir hópa með leiðsögn enda þarf bæði hjálm og ljós til að gera heimsóknina örugga og ánægjulega. Um hellinn hafa verið byggðar viðartröppur og útsýnispallar og svo eru ljós sem lýsa upp það sem annars er í niðamyrkri. Leiðsögumaður útskýrir hvernig fyrirbærin hafa myndast, að sjálfsögðu á íslensku.

Síðustu hellisbúarnir

Laugarvatnshellar eru mörgum kunnir enda Íslendingar oft komið þar við á ferðum sínum um Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Boðið er upp á stuttar ferðir um hellana þar sem leiðsögumaðurinn segir frá lífi og starfi fjölskyldunnar sem bjó þar fyrir nærri 100 árum. Þá má sjá við hvaða aðstæður fjölskyldan bjó í hellunum. Hugsanlega má einnig fá sér kaffi og með því ef heilbrigðiseftirlitið verður búið að afgreiða veitingaleyfi til núverandi “hellisbúa”. Hellarnir eru aðeins opnir um helgar fram í miðjan júní, eftir það eru þeir opnir daglega.

Fjórhjólaferð

Í Grindavík er boðið upp á fjórhjólaferðir hjá fyrirtækinu ATV Adventure. Boðið er upp á mismunandi leiðir í nágrenni Grindavíkur, til dæmis er ekið í gegnum hraun og yfir svartan sand upp á fjall með útsýni út á haf og jafnvel til Eldeyjar ef veður er gott. Fyrir ferðina er farið yfir öryggisatriði og þátttakendur klæða sig í búnað, til dæmis hjálma, samfestinga og hanska. Eftir fjórhjólaferðina er upplagt að keyra inn í Grindavík og setjast niður á kaffihús. Með því að fara til Grindavíkur í fjórhjólaferð er hægt að fara í Bláa lónið á eftir og því getur verið gott að taka sundfötin með.

Mörg fyrirtæki bjóða upp á fjórhjólaferðir í nágrenni Reykjavíkur. Athugið að það getur verið svolítið átak að keyra fjórhjól en ferðirnar eru samt skipulagðar fyrir alla aldurshópa. Bílpróf er nauðsynlegt.

Bað í Kraumu

Í Borgarfirði leynist skemmtilegt bað hjá stærsta hver Evrópu, Deildartunguhver. Aksturinn þangað tekur um klukkutíma og er vel þess virði til að fara í þetta nýlega bað. Í baðhúsinu er veitingastaður þannig að hægt er að gera úr þessu dagsferð og fá sér hádegis- eða kvöldverð eða jafnvel kaffi. Í nágrenninu er svo Reykholt með Snorrastofu Sturlusonar og náttúruvættin Hraunfossar og Barnafoss.

Kajakferð

Í fenjunum á Suðurlandi er hægt að komast í eins til þriggja tíma kajakferðir af mismunandi tagi, með eða án leiðsagnar. Kajakarnir eru gerðir út frá Stokkseyri og er til dæmis hægt að sigla milli Eyrarbakka og Stokkseyrar. Skemmtilegur möguleiki fyrir þá sem hefur alltaf dreymt um að prufa kajak en aldrei látið verða af því. Innifalið er kajak, þurrgalli, björgunarvesti, ár og sund.

Hestaferð

Hestaferðir eru sígildar fyrir þá sem ekki halda eigin hesta og langar kannski að kynna barnabörnin fyrir þessum fallegu dýrum. Margar hestaleigur eru í nágrenni Reykjavíkur og rétt utan við Reykjavík. Hestaleigurnar hafa hesta sem eru vanir að umgangast börn. Ferðirnar eru margs konar, allt frá því að klappa og kynnast hestunum fyrir þau yngstu í að ríða í allt að klukkutíma eða lengur. Hestaleigurnar bjóða upp á hjálma og annan nauðsynlegan búnað.

Þríhnúkagígur

Ein ævintýralegasta ferðin sem hægt er að fara í í nágrenni Reykjavíkur er ferð í Þríhnúkagíg. Í ferðinni er gengið með leiðsögumanni frá bílastæðinu í Bláfjöllum í um 45 mínútur yfir hraun og óslétt svæði að gígnum. Þar fá þátttakendur hjálma og annan búnað og síga svo í litlum hópum með leiðsögumanni í opinni lyftu inn í gíginn. Inni í gígnum er búið að koma fyrir ljósum svo að litadýrðin blasir við meðan leiðsögumaðurinn segir frá myndun gígsins. Staður sem vel er þess virði að sjá.

Friðheimar, matur og hestasýning

Í Friðheimum eru ræktaðir tómatar allan ársins hring í raflýstum gróðurhúsum, þrátt fyrir langan og dimman vetur. Fjölskyldan tekur líka á móti gestum, sýnir þeim hvernig tómataræktunin gengur fyrir sig og gefur  að smakka á afurðunum. Nú geta gestirnir líka tekið með sér heim matarminjagripi úr tómötum og gúrkum. Í Friðheimum er einnig stunduð hrossarækt og ferðamönnum boðið upp á hestasýningu.

Athugið að hér er aðeins um hugmyndir að ræða. Listinn er ekki tæmandi.

 

Ritstjórn júní 9, 2020 07:19