Matthildur Björnsdóttir skrifar frá Ástralíu
Ég ólst upp við að rödd væri bara um hvernig aðrir upplifðu að tónninn í manni væri þegar maður opnaði munninn til að tala eða syngja. Svo eftir að koma hingað til Ástralíu lærði ég að það er bara smá sneið af því að hafa rödd „have a voice“ sem er um leyfi okkar til að tjá það sem er hið innra með okkur.
Tara Moss rithöfundur, fyrrum módel og núna fulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum hefur skrifað bók um þetta með að hafa rödd, „Speaking up“ er nafnið á bókinni og þar kemur fram hversu langan tíma það er að taka fyrir konur að hafa sömu tjáningarmöguleika í heiminum og karlar. Það er athyglisvert og sorglegt að stór hluti af því vandamáli er vegna óþols í körlum varðandi það að hlusta á hljóð kvenradda. Það er eins og það sé djúpsett í mannkynið að einungis karlraddir geti virkað og hljómað ánægjulega fyrir áheyrandann sem er auðvitað ekki rétt. Þeir sem hugsa þannig eru í raun hræddir við að missa upplifun sína af yfirburðum gagnvart konum.
Það eru mikil vonbrigði að svo sé eftir meira en hundrað ára jafnréttisbaráttu í heiminum, alla vega í hinum vestræna heimi að það heyrist ekki í konum í samræmi við hvert hlutfall þeirra af mannkyninu er. Það er haft eftir karlmanni í bók hennar að honum finnist nóg að hafa konuna nöldrandi í sér heima hjá sér, svo að hann vilji ekki líka heyra kvenmannsraddir í fjölmiðlum. Það segir allt um hann en ekkert um kvenraddirnar.
Við þau eldri vitum, að um aldir máttu konur ekki tala nema inni á heimilum og lengi var álitið að þær hefðu ekkert gagnlegt að segja heiminum. Auðvitað voru þessar skoðanir settar fram vegna valdagræðgi og þörf fyrir að drottna yfir konunum.
Sem betur fer hefur það lagast og þeir komast ekki upp með það í sama mæli á okkar tímum. Samt er langt í land með að algert jafnrétti sé fengið eins og Tara lýsir í bók sinni um að öðlast rödd. Konur skipa sjaldan meira en einn fjórða af hærri stöðum í kerfinu, en hafa öðlast sterkari rödd á netinu í gegn um hina mismunandi tengla þar. Samt heyrum við mikið af kvenröddum í fjölmiðlum hér í Ástralíu, svo að ég verð ekki persónulega mikið vör við þennan mismun, þó hann sé virkilega fyrir hendi.
Tara segir að það megi enn heyra í fjölmiðlum óþol í karlmönnum sem hafa völd í varðandi það að gefa kvenröddum jafnrétti. Hugsanlega sé það sálfræðilega athyglisvert fyrirbæri sem liggi djúpt í þeim. Spurningin er hvort það eigi rætur að rekja til þess að konur ólu þá upp að mestu og að það sé ástæðan fyrir því að kvenraddir minni þá á hvað var rangt í hegðun þeirra sem börn og unglingar? Þess vegna veki hljóðið í kvenröddum ekki gleði í hugum þeirra og hjörtum. Ef svo er, er það sorglegt. Hvar myndi mannkynið vera ef karlar hefðu verið einir um að sjá um uppeldi barna?. Myndi fólk þá upplifa kvenraddir á ánægjulegri hátt?
Karlmenn komust þá, og komast enn, upp með að hverfa úr lífi barna sinna og það oft áður en þau komu í heiminn og voru enn í móðurlífi. Faðir fyrrum eiginmanns míns var einn af þeim.
Það að hafa ekki „rödd“ er veruleiki á ótal sviðum og bylgjulengdum og er efni í ótal bækur. Frá því að sagt sé að við höfum ómögulega söngrödd, og ættum ekki einu sinni að reyna að syngja, til þess að vera stöðvuð eða stöðvaðar í að tjá visku okkar sem hefur unnist með lífi og reynslu ótal ára, en hefur ekkert endilega neitt með söngrödd að gera. Tara fer í smáatriðum yfir það hvernig eigi að byggja sig upp til að tala opinberlega um það sem mönnum liggi á hjarta.
Hér í Ástralíu eru nokkrir karlar vel við aldur í íhaldsliði stjórnmála sem vilja að bann við dónaskap í orðum verði afnumið svo að þeir þurfi ekki að vanda orð sín. Kona sem er formaður eins minnihluta flokks hér, hefur mjög hráan tjáningarmáta og ekki nógu þroskaðar leiðir til að koma hugsun sinni nægilega vel á framfæri. Hún hefur rödd, en er ekki vel virt af meirihlutanum. Hún talar fyrir minnihlutahóp og hefur auðvitað rétt á sínum stíl, því að þeir sem styðja hana skilja hana og eru ánægðir með hana. Maður eins og Donald Trump hefur komist upp með ótrúlegan ruddaskap og fengið aðdáun fólks sem tengir við stíl hans. Það er ekki líklegt að nein kona hefði komist upp með þennan sama stíl eða framkomu.
Það er í raun með ólíkindum að FBI skuli ekki hafa handtekið hann fyrir að ógna friði og öryggi þjóðarinnar og heimsins. Fólk með annan húðarlit sem myndi segja það sem hann segir eða eitthvað svipað myndi trúlega vera handtekið eða stöðvað, og jafnvel skotið á staðnum.
Og það sama gæti gerst ef það væri kona.
Grein sem ég las á á sínum tíma á netinu í„The Guardian“ vakti athygli mína á því að ástæðurnar fyrir að ýmsum Bandaríkjamönnum líkaði ekki við Hillary Clinton virðast vera þær að þeim konum og körlum sem mislíkar við hana þola ekki að hún sé sterk og sjálfstæð kona með sína eigin „rödd“ og hefur afrekað mörgu fyrir þjóðina í starfi sínum í stjórnmálum. Árangri sem af einhverjum ástæðum er ekki flaggað nærri nóg eins og myndi vera gert ef um karlmann væri að ræða. Þeir fá oft meira hrós fyrir loftkastala og slæm vinnubrögð, en konur fyrir raunverulegan árangur.
Íslendingar nutu þess að leyfa að konur yrðu prestar árið 1974, svo og að kjósa konu sem forseta árið 1980 sem var í embætti í sextán ár, og eins og allir Íslendingar vita að er mjög elskuð og virt.
Hvað er að í Bandaríska samfélagi og annarrsstaðar í heiminum, þar sem sumir karlar vilja enn ráða yfir líkömum kvenna og banna getnaðarvarnir og fósturfjarlægjun getnaða sem hafa ekki orðið til frá vali. Það er ein af leiðum til að þagga niður í konum og neita þeim um eigin rödd og val um líf sitt.
Til að breyta þessu þarf hver kona að gefa sjálfri sér leyfi til að hafa rödd, til að hafa tjáningarfrelsi úti í heiminum. Og auðvitað er æskilegast að það sé þá til þess að bæta heiminn, örva nýja hugsun, og gera líf mannkyns betra. Og það er líka mikilvægt að taka gagnrýni á rödd sína ekki persónulega og meta hvenær gagnrýni er gagnleg, hvenær hún er pirringur eða bara hrein og bein árás. Vitandi um þetta djúpa óþol sem við þurfum að breyta og ætti að gerast með tíð og tíma.