Áræðni og berskjöldun þarf til að rjúfa einmanakennd

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir hjúkrunarfræðingur er ein þeirra sem hefur brennandi áhuga á að skilja áhrif áfalla á sálarlíf fólks. Hún sendi frá sér bókina Samskiptaboðorðin árið 2016 en þar leitaðist hún við að sýna lesendum fram á mikilvægi góðra samskipta. Nú hefur hún sent frá sér bók um einamanaleika og þar eins og í þeirri fyrri er skrifað af mikilli næmni, mannskilningi og kærleika.

Þú hefur rannsakað einmanaleika, hvað felst í þeirri tilfinningu og orsakir hans. Í bók þinni Einmana tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar, ferð þú ofan í saumana þeirri vitneskju sem þú hefur aflað þér og dregur eigin ályktanir auk þess að segja sögur fólks sem hefur glímt við einmanakennd. Hvers vegna vakti það áhuga þinn að skoða einsemdina?

„Ástríða okkar í lífinu beinist oft að því sem við þekkjum til sjálf, höfum reynslu af eða sem hefur markað spor á líf okkar með einum eða öðrum hætti,“ segir hún. „Ég hef áður skrifað um áhrif samskipta og tengsla á líf okkar, en áhugi minn á því hvað veldur því að fólk nær árangri og upplifir vellíðan í lífinu þrátt fyrir að hafa mætt mótlæti og sársaukafullri reynslu nær langt aftur. Líklega alveg frá því að ég var sjálf lítið barn og varð fyrir einelti allt fram á unglingsár. Það sem kom mér, barninu og unglingnum, í gegnum þá reynslu var sú innri sannfæring að það væri eitthvað annað og betra sem biði mín. Ég yrði aðeins að hafa trú á því sjálf. Viðbragð mitt við einmanakennd strax þá, var það sama og í dag; að tengjast sjálfri mér og að vera í einrúmi.

Eftir að hafa aflað mér fræðilegrar þekkingar og samþætt hana eigin reynslu og annarra þá skilgreini ég einmanaleikann sem tilfinningu um djúpstæðan skort á nánd og innihaldsríkum tengslum við sjálfan sig og/eða aðra og að aðrir hvorki hlusti á mann né skilji. Þetta er upplifun sem getur sprottið úr alls konar mannlegri reynslu; oft reynslu sem markar óafmáanleg spor á líf okkar. Sárasta einmanakenndin sem ég hef fundið til fólst annars vegar í því að upplifa höfnun – vegna eineltis og þegar manneskja ákvað að lifa lífi sínu áfram án mín, og hins vegar í ástvinamissi. Höfnunin risti dýpra vegna þess að mér fannst ég ekki eiga rétt á því að vera einmana; það var eitthvað að mér sem orsakaði eineltið og leiddi til þess að manneskjan fór. Við ástvinamissi jók stuðningur annarra, nærvera og orðlaus umhyggja tilfinninguna fyrir því að vera ekki ein með þessa reynslu. Þannig að áhugi minn á því að skoða einsemdina jókst bara eftir því sem ég aflaði mér meiri þekkingar á efninu og tengdi við enn fleiri hliðar mannlegrar reynslu.“

Leiðarvísir að góðum samskiptum

Óhjákvæmilega er komið inn á tengsl og tengslarof í bókinni en þau fyrirbæri eru einnig viðfangsefni þín í fyrri bók þinni Samskiptaboðorðin. Er tilfellið að við kunnum ekki nógu vel að eiga í samskiptum hvert við annað eða vöndum við okkur ekki nægilega í umgengni hvert við annað?

„Í bókinni Samskiptaboðorðin lagði ég meðal annars fram leiðarvísi um góð samskipti sem felst í því að horfa í augu fólks, heilsa fólki sem við mætum, hlusta til að skilja, hljóma og gæta að raddblæ og hvernig við segjum hlutina, hrósa og hvetja aðra og hjálpa hvert öðru til að njóta sem bestu lífsgæða. Mörg okkar eru verulega góð í samskiptum en ég tel að við getum alltaf bætt samskiptafærni okkar og vandað okkur meira. En meginástæðan fyrir því að það reynist okkur bæði flókið og erfitt er að við byrjum ekki á því sem er mikilvægast, sem er að horfast í augu við okkur sjálf. Hlúa að tengslum við okkur sjálf. Líkt og þú bendir á þá fjalla ég nokkuð ítarlega um tengsl og tengslarof í bókinni Einmana, sem mörg okkar eiga reynslu af úr uppvexti.

Tengslamynstur sem við ólumst upp við endurspegla og hafa áhrif á færni okkar til tengslamyndunar á fullorðinsaldri. Við getum ekki breytt fortíðinni, en við getum staldrað við í núinu, beint sjónum inn á við og skynjað áhrifin sem fortíðin hefur á líf okkar, samskiptafærni og tengsl í dag. Það getur leitt til þess að við getum snúið neikvæðri og niðurbrjótandi reynslu af tengslum í jákvæða og uppbyggilega. En það gerist ekki nema við fellum allar þær grímur sem lífsreynslan hefur komið okkur upp, verðum heiðarleg við okkur sjálf, elskum okkur eins og við erum. Þá getum við í kjölfarið átt í samskiptum og myndað tengsl við aðra sem einkennast af nærgætni, skilningi og góðmennsku í stað vanvirðingar, skeytingarleysis og tillitsleysis. Sært fólk særir fólk, en elskað fólk elskar fólk. Tímanum sem við verjum í að heila okkar eigin sár er vel varið, vegna þess að hann leiðir til þess að við elskum okkur eins og við erum – líka sárin okkar – og í kjölfarið elskum við og eigum í nærandi tengslum og samskiptum við aðra.“

Aðalbjörg og hundurinn Díana sem hefur gefið eigendum sínum ótrúlega mikið.

Margar ólíkar aðstæður leiða til einmanaleika

Kom þér eitthvað á óvart þegar þú hófst vinnslu þessarar bókar?

„Það sem kom mér einna helst á óvart við vinnslu bókarinnar var hve margar og ólíkar aðstæður og lífsreynslur leiða til einmanaleika,“ segir Aðalbjörg. „Sorg, missir, höfnun, áföll, tengsl og aðstæður í barnæsku, breytingar á lífshlutverki, til dæmis að hætta á vinnumarkaði, og ótal margt annað. Jafnframt kom mér á óvart að ein algengasta ástæða langvinns einmanaleika er skortur á kærleika uppvexti, sem birtist í því að þörfum okkar fyrir skilyrðislausa ást, tengsl og nánd er ekki mætt af fullorðna fólkinu sem ber ábyrgð á uppeldi okkar.

Algengi einmanaleika kom mér líka á óvart. Hér á landi eru til að mynda að jafnaði 36% alls fólks stundum, oft eða alltaf einmana samanborið við heimsmeðaltalið sem er 33%. Unga fólkið okkar á aldrinum 18 til 30 ára eru þau sem bera uppi hið aukna algengi, á meðan algengið hefur jú aukist hjá öllum aldurshópum en þó ekki nándar nærri eins mikið. Áhrif einsemdar á streitukerfin okkar kom mér líka á óvart, þá aðallega hve tengslin á milli langvinns einmanaleika og streitu eru sterk. Þess vegna hefur einmitt einmanaleiki svona neikvæð áhrif á heilsu okkar; það krefst gríðarlegrar orku og slítur okkur ótímabært út að vera manneskja sem er stöðugt í berjast, flýja, frjósa eða geðjast viðbragði. Reyndar aukast líkurnar á að deyja ótímabært um 45% ef við erum einmana. Ég get ekki látið hjá líða að nefna að vinnsla bókarinnar krafði mig um að horfast í augu við mína eigin einsemd, sem var oft á tíðum ærið verkefni. Það kom mér í opna skjöldu að átta mig á því að ég hef fundið til einmanaleika við allskonar aðstæður og hve djúpstæð og langvinn þessi upplifun um að tilheyra ekki getur verið.“

Að mæta sjálfum sér með góðvild

Nú er vitað að einsemd getur haft margvíslegar heilsufarslegar afleiðingar. Hvernig getur fólk rofið einangrun sína?

„Einmanaleiki, sér í lagi langvinnur, getur búið til vítahring sem sannfærir okkur um að það sé eitthvað að okkur og að þess vegna erum við einmana. En sannleikurinn er sá að það kom eitthvað fyrir okkur og þess vegna erum við einmana. Það krefst því áræðni, berskjöldunar og heiðarleika að rjúfa einangrun sína og einmanakennd. Til að styðja fólk við að takast á við eigin aðstæður og einsemd býð ég lesendum (og öllum öðrum auðvitað) að grípa til aðgerða og hlúa að eigin einvægi. Einvægi er nýyrði sem ég bjó til og er samsett af annars vegar orðinu einmana og hins vegar orðinu samvægi sem vísar til jafnvægis líkamans. Einvægi merkir að líða vel og hafa tilgang í lífinu þrátt fyrir einmanaleika og byggir í fyrsta lagi á viðurkenningu: að mæta einmanakenndinni, tjá hana, þekkja og skilja hvað orsakaði hana.

Í öðru lagi þá iðkum við samkennd í eigin garð sem felur í sér þrjá meginþætti: að mæta okkur sjálfum með góðvild í stað þess að dæma okkur á neikvæðan hátt; að átta okkur á að allar manneskjur mæta erfiðleikum – þjáning, áföll, missir og höfnun er sammannleg reynsla – við erum ekki eina manneskjan sem er einmana; að beina athyglinni að því sem er einmitt núna og iðka núvitund með ásetningi að þessu augnabliki eins og það er án þess að dæma eða taka afstöðu. í þriðja og síðasta lagi þá gætum við að því að hvílast, næra okkur vel, hreyfa okkur reglulega og iðkum tengsl. Það getur verið áskorun að hlúa að tengslum þegar við erum einmana, því einmitt skortur á tengslum hefur oft leitt af sér einmanakennd okkar. En þá getum við hlúð að tengslum við okkur sjálf, sem er sérstaklega mikilvægt þegar við erum einmana. Við getum líka hlúð að tengslum við gæludýr, við listir, sköpun og náttúruna og einnig æðri mátt, eins og hvert og eitt okkar skilgreinir hann fyrir sig. Við getum nefnilega nýtt reynslu okkar af einmanaleika til að finna lífi okkar dýpri merkingu og þannig borið sársaukafullri reynslu fagurt vitni.“

Formgerð samfélagsins þarf að breytast

Er eitthvað í samfélagsgerð okkar sem ýtir undir einsemd og einangrun fólks og ef svo er getum við eitthvað gert til að bæta okkur?

„Íslenskt samfélag hefur tekið stórstígum framförum á ótrúlega stuttum tíma. Það er ekki svo ýkja langt síðan við bjuggum meira og minna í dreifbýli en frá öndverðri 20. öld hefur samfélagið okkar þróast hratt í átt að því borgarsamfélagi sem við þekkjum í dag. Við búum þéttar, en á sama tíma æ færri í fleiri fermetrum. Það er auðveldara að verða ósýnileg í þéttbýli en í dreifbýli og mörg okkar eru einmana þrátt fyrir að búa aðeins einni útihurð frá nágrönnum sínum í stóru fjölbýlishúsi. Þrátt fyrir stöðuga fjölgun leiða til að eiga í samskiptum, til dæmis í gegnum samfélagsmiðla og fjölbreyttar rafrænar samskiptaleiðir, þá dregur ekki úr einsemd. Eiginlega þvert á móti. Enda koma rafræn samskipti ekki í stað nándar, faðmlaga og hlýrrar nærveru manneskju sem er annt um okkur og hlustar með hjartanu.

Sívaxandi algengi einmanaleika í samfélaginu okkar bendir til þess að það sé eitthvað að í samfélagsgerð okkar. Ástæður þess eru, líkt og bandaríski félagsfræðingurinn C. Wright Mills hefur bent á, að ef vandi eins og einmanaleiki er útbreiddur og almennur þá liggja orsakirnar í formgerð og menningu samfélagsins, en ef fáir takast á við einsemd þá er skýringuna að finna hjá einstaklingunum sjálfum. Við getum ekki horft framhjá þeirri staðreynd að við búum í vestrænu samfélagi sem leggur æ meiri áherslu á að hámarka auð fárra á kostnað heildarinnar. Öll eiga að leita allra leiða til að verða besta útgáfan af sjálfum sér, hámarka virði sitt og hamingju með öllum tiltækum ráðum. Svokölluð frjálshyggja og seinna nýfrjálshyggja hefur ýtt undir þessa einstaklingshyggju með því að meta virði fólks eftir efnislegum árangri þess í lífinu, auði og völdum, og að ekki megi hindra að öflugir einstaklingar fái óskert tækifæri til að hámarka eigin gróða. Hagkerfi nútímans byggist á því að vekja upp hugmyndir um skort og þörf og í stað þess að athyglinni sé beint að því sem við getum gert, höfum möguleika á og því sem við eigum og erum, þá erum við stöðugt minnt á allt sem við getum ekki, höfum ekki möguleika á, eigum ekki og erum ekki. Í þau fjörutíu ár sem nýfrjálshyggjan hefur verið áberandi í samfélaginu, þá hefur okkur verið innprentað að líta á okkur sem samkeppnisaðila, ekki samborgara, þiggjendur ekki gefendur, varðmenn eiginhagsmuna, ekki heildarhagsmuna. Ein skýr afleiðing þessarar þróunar er að einmanakennd er mun algengari í samfélögum sem aðhyllast einstaklingshyggju – líkt og hér á landi – en þar sem félagshyggja er ríkjandi.

Það sem við sem samfélag getum gert er að beina áherslum okkar í átt að félagshyggju í stað einstaklingshyggju. Við getum einnig hlúð að ástarkraftinum sem doktor Anna Guðrún Jónasdóttir segir vera grundvöll að samfélagi fólks. Ástarkrafturinn lífgar og endurlífgar öryggi, vellíðan og þrótt og raungerist í ástarveitandi stuðningi og umhyggju. Hann hvílir á þeirri hugmynd að við séum fyrst og síðast tengslaverur sem þörfnumst hvert annars ef við eigum að lifa af, njóta farsældar og líða vel. Það þarf sameiginlegt samfélagslegt átak til að stemma stigu við aukinni útbreiðslu einmanaleika, rétt eins og það þarf þorp til að ala upp barn. Við berum öll ábyrgð.

Þó að stjórnvöld þurfi auðvitað að gera gagngerar breytingar sem miða að stóraukinni áherslu á mikilvægi tengsla og umhyggju í samfélaginu, þá getum við öll byrjað á okkur sjálfum og leitast við að vera sá vinur sem við óskum þess að eiga; getum bankað upp á hjá nágrannanum sem við vitum að býr og er alltaf einn og látið okkur hvort annað varða. Við berum öll á ábyrgð á velferð og farsæld hvert annars og búum yfir færni til að sjá til þess með einum eða öðrum hætti að öðrum líði vel og nái árangri. Að leggja gott til annarra og vera öðrum góð hefur sterkustu jákvæðu augnabliksáhrifin á vellíðan okkar sjálfra. Hið sanna auðmagn verður til ef við hlúum öll að elsku til okkar sjálfra og annarra,“ segir Aðalbjörg að lokum en í bók hennar er að finna fjölmargar dæmisögur af fólki sem hefur tekist á við einmanaleika. Sjálf hefur Aðalbjörg að leiðarljósi að nýta áföllin í lífinu til að öðlast reynslu og þekkingu sem hjálpar henni að hjálpa öðrum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 24, 2024 07:00