Amma, ertu að baka?  

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég hef þjáðst af jólakvíða og skammdegisþunglyndi á fullorðinsárum. Ég hef látið jólamasið og lætin fara í taugarnar á mér og beðið eftir því að allt þetta vesen væri að baki. Ég hef verið spurð hvort þetta tengist slæmum minningum úr bernsku. En það er alls ekki svo. Jólin heima hjá foreldrum mínum voru einföld en yndisleg. Ég á dýrmætar minningar um jólatré úr kreppappír, skreytt á dúkklæddum eldhúskolli, um mjúka jólapakka með heimasaumuðum náttfötum og pakka með krosssaumsmunstri og garni. Við fengum rjúpur á aðfangadagskvöld og heimagerðan núggaís. Allt var eins og það best gat orðið.

En hvar er jólakvíðinn og þunglyndið fyrir þessi jól? Þessir kvillar hafa ekki bankað upp á að þessu sinni. Kannski hafa þeir smitast af covid og liggja einhvers staðar í gjörgæslu. Nei, það er reyndar ekki skýringin, heldur sú staðreynd að við höfum verið svo lánsöm að eyða undanförnum mánuðum með börn á heimilinu. Strákarnir okkar sem við höfum að láni um tíma, 7 og 11 ára, hafa fyllt líf okkar af tilgangi, verkefnum og óvæntum uppákomum. Þeir trúa reyndar hvorki á guð, jólasveina né Grýlu og Leppalúða en samt. Þeir telja dagana til jóla. Hvað er aðventa og hvað fáum við í skóinn?

Allt í einu hefur það tilgang að safna könglum, draga fram jólaskraut í nóvember og leyfa jólatónlistinni að hljóma miklu fyrr en venjulega. Amaryllis-plantan er mæld daglega með tommustokk. Leggurinn er nú 60 sentimetrar og blómin að opnast. Það eru ævintýri í hverju horni. Á skórinn að fara í gluggann þann 1. des eða 13 dögum fyrir jól. Heitt umræðuefni við kvöldverðarborðið. Hvað heita jólasveinarnir á mjólkurfernunum? Sá eldri er búinn að sauma allar jólagjafirnar með gömlu Singer-saumavélinni, sem ég eignaðist fyrir 50 árum. Pakkarnir hans er tilbúnir. Sá yngri er að perla jólagjafir og á enn svolítið í land.

Það er sagt að jólin séu hátíð barnanna, en það gildir ekki síður um sjálfan undirbúninginn. Hann er líka barnanna. Ég er búin að baka smákökur í tvígang, sem er athöfn sem ekki hefur átt sér stað á mínu heimili síðan börnin mín voru lítil. Amma, þú segist aldrei baka. Jú, nú baka ég. Og kökurnar hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ég fer líka út í  gönguferðir í fljúgandi hálku til þess að leyfa strákunum að njóta jólaskreytinganna að kvöldlagi. Við fáum okkur Brynjuís í leiðinni. Við erum komin með jólatré sem liggur fyrir sunnan húsið og býður þess að komst í hús og verða skreytt. Við brjótum allar reglur og gleymum öllum jólafordómunum sem hafa fengið að blómstra á heimilinu árum saman.

Það er þvílík gæfa að fá að njóta samvista við börn á þessum dimma árstíma og fá  innsýn í þeirra hugmyndir um jól og jólaundirbúning. Með þeim höfum við þegar fengið dýrmætustu jólagjafirnar sem við höfum eignast í áratugi.

 

Sigrún Stefánsdóttir desember 7, 2020 07:50