Tengdar greinar

Aðventan á tímum covid

Margréti Rósu Einarsdóttur muna margir eftir úr Iðnó þar sem hún var staðarhaldari í 17 ár. Nú er hún hótelstjóri á hótel Glym í Hvalfirði og kann því vel. Margrét rekur líka Englendingavík í Borgarnesi en sá staður hefur verið lokaður frá því í september sökum ástandsins en hún hlakkar til að opna aftur fyrir sjávarréttahlaðborðin sem gengu mjög vel.

Margrét segir að nú sé munurinn sá að þegar hún rak Iðnó hafi reksturinn verið erfiður, eins og öll menningarstartengd starfsemi sé, en nú gangi öllum illa, ekki bara henni. “Nú eru aðstæður bara þannig að við getum engan veginn náð inn fyrir kostnaði með þær skorður sem okkur eru settar vegna samkomubannsins.,” segir Margrét. “Við getum samt ekki fundið sökudólginn til að refsa svo við verðum bara að þrauka.” Hún segir að fyrir nsi mikið verið bókað í desember á Glym og uppbókað um áramótin en smám saman hafi allar bókanir verið afturkallaðar.

Margrét segist sakna listamannanna sem hún umgekkst mikið í Iðnó því þar var menningarstarfið öflugt. Þeir, sem þekkja Margréti, segja að þar sem hún fari sé alltaf mikið að gera og mjög gaman. Hún hefur mjög lengi verið í starfi þar sem aðdragandi jólanna hefur verið mikill annatími. “Ég hef yfirleitt pakkað jólagjöfunum inn á Þorláksmessukvöldi eða –nótt en nú hef ég nægan tíma,” segir hún og nýtur þess að “dúlla við undirbúning jólanna” eins og hún segir hlæjandi. Og af því ekkert er að gera á Hótel Glym um jól og áramót ætlar hún að láta draum eiginmannsins rætast og fara til útlanda yfir hátíðirnar. “Við ætlum að notfæra okkur þessa pásu sem við erum neydd til að vera í með hótelið og líka það að við fjölskyldan getum ekkert hist, og ætlum við að fara til útlanda yfir hátíðirnar. Ég hef haft fyrir sið að bjóða fólkinu mínu til mín á jóladag og það eru um 30 manns. Það er engin ástæða til þess að leggjast í volæði yfir því heldur ætla ég að undirbúa veisluna þannig að þau fá öll heimsent hangikjöt sem strákurinn minn ætlar að sjá um að ferja til fjölskyldumeðlimanna. Allir verða heima hjá sér nema við hjónin sem verðum á Tenerife. Við ætlum öll að borða saman og tala saman alveg eins og við værum hjá mér en nú nýtum við tölvutæknina,” segir Margrét. Hún segist sannarlega finna fyrir bjartsýni hjá ferðalöngum því á Glym sé mjög vel bókað frá mars og alveg út sumarið. “Íslendingar hafa komið í hópum á vorin en það eru til dæmis gönguhópar, vinnuferðir og kórar sem koma gjarnan í æfingaferðir á Glym og svo er töluvert af útlendingum. Við krossum fingur og treystum því að í vor verði ástandið í heiminum orðið þannig að ferðalög verði farin af stað aftur og þá er allt í lagi,” segir Margrét bjartsýn.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

 

 

Ritstjórn desember 8, 2020 08:07