Gáttatif þarf að meðhöndla

Gáttatif er algengasta tegund hjartsláttartruflana og það getur verið hættulegt ef það er ekki meðhöndlað. Það lýsir sér í óreglulegum og oft á tíðum hröðum hjartslætti. Einkennum er stundum lýst þannig að hjartað hafi fengið röng skilaboð um að líkaminn sé á harðaspretti þó að hann sé grafkyrr. Sjúkdómurinn eykur hættu á hjartaáfalli, heilablóðfalli og getur verið lífshættulegur.

Yfir 6.000 Íslendingar hafa greinst með gáttatif. Áætlað er að 17 milljónir manna í Evrópu þjáist af gáttatifi og 10 milljónir í Bandaríkjunum. Flestir sem fá gáttatif eru komnir yfir miðjan aldur en þó er vel þekkt að yngra fólk fái það. Yngra fólk fær oft meiri einkenni og er sjúkdómurinn erfðari viðureignar hjá þeim. Um 4% einstaklinga yfir sextugu hafa sjúkdóminn og 10% fólks yfir áttræðu. Búist er við mikilli fjölgun tilfella á næstu áratugum í tengslum við hækkandi aldur.

Brennsluaðgerð hentar oftast best við gáttatifi og er það talið besta úrræðið. Læknar mæla gegn því að biðtími eftir brennsluaðgerð sé lengri en 3–6 mánuðir. Unnið hefur verið að því að fjölga brennsluaðgerðum hér á landi síðustu ár og eru nú gerðar allt að 200 aðgerðir á ári. Forgangsraðað er á biðlistum eftir alvarleika vandamálsins hjá sjúklingum.

Kulnun og örmögnun áhættuþættir

Á fagmáli er gáttatif rafleiðnitruflun í leiðslukerfi hjartans. Þó að vísindamenn viti ekki fyrir víst hvað valdi trufluninni er ljóst að helstu áhættuþættir eru sjúkdómar á borð við háþrýsting, hjartabilun, sykursýki, offitu og kæfisvefn. Neysla örvandi efna eins og koffíns og áfengis er einnig áhættuþáttur.

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem unnin var við læknadeild Háskóla Íslands sýna að mengun frá umferð getur haft áhrif á gáttatif og aðrar hjartsláttartruflanir. Var þetta fyrsta rannsóknin á Íslandi þar sem samband fannst milli loftmengunar og hjartsláttartruflana. Rannsóknina vann Sólveig Halldórsdóttir, hjúkrunarfræðingur og umhverfis- og auðlindafræðingur.

Nýlegar rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að sálræn vanlíðan getur verið áhættuþáttur gáttatifs. Nú er talið víst að sérstakt samband sé á milli kulnunar og gáttatifs. Kulnun er afleiðing langvinnrar streitu og tengist ekki aðeins álagi í starfi, heldur einnig einkalífi. Áður var vitað að örmögnun eða kulnun jók hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum, en nýlegar rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að kulnun getur aukið hættu á að þróa með sér gáttatif.

Íslensk erfðagreining vinnur að rannsóknum á gáttatifi í samstarfi við Landspítala. Árið 2006 birtu vísindamenn niðurstöður rannsókna á erfðum gáttatifs á Íslandi þar sem meðal annars kom fram að ef einstaklingur greindist með gáttatif fyrir sextugt voru líkur ættingja í fyrsta lið (foreldra, systkina og barna) á því að fá gáttatif fimmfaldar miðað við aðra. Með rannsóknum ÍE á erfðum gáttatifs er leitað leiða til að bæta greiningu sjúkdómsins og finna ný lyf.

Ritstjórn maí 18, 2021 08:30