„Ætli ég verði ekki að fram að áttræðu“

Björg Árnadóttir hefur mundað stílvopnið frá því hún fyrst lærði að skrifa. Hún er af rithöfundaættum og þótt hún hafi upphaflega lært myndlist varð ritlistin aðal starfsvettvangur hennar. Nýlega hélt hún upp á tíu ára afmæli fyrirtækis síns, Stílvopnsins, og þrjátíu og fimm ára afmæli sjálfrar sín sem ritlistarkennara. Og nú er hún auk þess farin að skipuleggja ævintýrar ritlistarferðir um framandi lönd.

Síðastliðið sumar fór Björg á Interrail-flakk um Evrópu ein síns liðs. Slíkar ferðir voru algengar meðal ungmenna á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og Björg fór fyrst á Interrail sautján ára gömul. En tilgangur ferðar hennar í fyrra var ekki eingöngu að upplifa ævintýr heldur einnig að heimsækja vini, einkum í austurhluta álfunnar.

„Ég hef unnið með skapandi Austur-Evrópubúum í einum tuttugu samstarfsverkefnum á sviði samfélagslista. Það flækti reyndar ferðaplön mín að þræða vinina þar sem þau búa ekki öll í alfaraleið og svo vildi ég líka reyna að hitta á þau þegar eitthvað var um að vera hjá þeim. Ég var meðal annars viðstödd sýningu í Þjóðleikhúsinu í Prag sem ég sjálf hafði átt örlítinn þátt í að skapa en í Novi Sad í Serbíu fékk hins vegar að fylgjast með stórum mótmælum frá sjónarhóli skipuleggjenda.”

Sofnaði í rangri borg

„Interrail hentaði ekki alltaf áfangastöðum mínum og ég þurfti til dæmis að dvelja nokkra auka daga í Timisoara í Rúmeníu til að finna út hvernig ég kæmist 200 kílómetra yfir til systurborgarinnar Novi Sad í Serbíu. Það endaði með að ég tók deilileigubíl.”

Björg skrifaði bráðskemmtileg blogg um ferðina sem lesa má á vefsíðu  hennar stilvopnid.is. Við komuna til Rúmeníu endaði hún til dæmis í rangri borg og og þurfti að bjarga sér um gistingu um miðja nótt. Sá viðkomustaður reyndist svo bæði eiga sér merka sögu og skarta mikilli fegurð. En eru einhver vandamál því fylgjandi að ferðast um lönd Austur-Evrópu, til að mynda tungumálaörðugleikar?

„Nei, ekki sem heitið getið, það tala nær allir einhverja ensku núorðið. En þegar ég ferðaðist þarna um með manni og börnum í lok níunda áratugarins urðum við frekar að bjarga okkur á þýsku en ensku og rússnesku hefðum við kunnað hana.“

Indland og Tansanía næstu áfangastaðir

Líkt og margir Íslendingar hefur Björg sótt Seyðfirðinginn Þóru Guðmundsdóttur heim á Secret Garden-hótel hennar í Kochiborg í Keralahéraði Indlands.

„Ég tók ástfóstri við Indland þegar ég dvaldi vorið 2017 í listamannsíbúð sem Þóra starfrækir í tengslum við hótelið. Um sumarið kenndi ég svo hópi Íslendinga á vegum ferðaskrifstofunnar Mundo á Spáni. Sá skemmtilegi hópurinn hélt áfram að hittast þegar heim var komið og ákvað loks að skella sér saman í ritlistarferð til Kochi. Af kóvíd-ástæðum tókst þó ekki að komast til Indlands fyrr en í fjórðu atrennu! Því var það dásamlegra en ella að dvelja í hálfan mánuð með sautján, íslenskum konum á aldrinum frá þrítugu til áttræðs í Leynilundinum hennar Þóru og skrifa þar með öllum skilningarvitum. Þvílíkt ævintýri!

Ein úr hópnum, Anna Elísabet Ólafsdóttir lýðheilsufræðingur, stakk upp á fara næst til Norður-Tansaníu þar sem hún átti eitt sinn jörð og starfaði við að valdefla innfæddar konur. Það varð úr og Tansaníuferðina, sem farin verður næsta nóvember og er nú frágengin, fylltum við á tveimur dögum.

Á hinu andlega Indlandi leitaði hugurinn eðlilega svolítið inn á við í skrifunum en Afríkuferðin verður öðruvísi. Þar hyggst ég leggja áherslu á skrif um náttúru, dýralíf, samfélag og stöðu kvenna með aðferðum blaðamennskunnar. Ferðina köllum við Kona hittir konu og vonandi hafa konur af báðum þjóðernum gagn og gaman af.

Og nú er ég byrjuð að undirbúa nýja Indlandsferð í apríl að ári. Í hana er karlmenn líka byrjaðir að skrá sig!“

Björg í Ungverjalandi.

Skrifandi fjölskylda

„Ég ólst upp við að það væri eðlilegt að vera sískrifandi sem var gott þótt vera kunni að rithöfundarnir í fjölskyldunni hafi líka að einhverju leyti dregið úr mér kjarkinn. Mín kynslóð ólst náttúrulega upp við að finnast stórveldið Halldór Laxness stöðugt lesa yfir öxlina á okkur öllum og í mínu tilviki gerðu afi, pabbi og föðurbróður minn það líka auk Gunnars Gunnarssonar, frænda afa míns og vinar.

Afi hélt Benedikt Gíslason og var alltaf kenndur við Hofteig á Jökuldal. Föðurbróðir minn, Bjarni, virtur höfundur og gagnrýnandi, kenndi sig líka við Hofteig og faðir minn gerði það framan af. Pabbi, Árni Benediktsson, var ákaflega góður penni þótt hann ynni alla tíð við sjávarútveg. Hann hélt til dæmis merka dagbók síðustu mánuði lífsins, þá kominn á Grund, þar sem hann fléttaði eigin lífi inn í næma greiningu á heimsmálunum.”

Ritlist víða óþekkt námsgrein

„Hefði ég vitað þegar ég setti upp hvíta kollinn vorið 1977 að byrjað væri að kenna ritlist í Bandaríkjunum hefði ég flogið beint þangað,“ sagði Björg sem á þeim tíma hafði aldrei heyrt minnst á þessu tiltölulega nýju námgrein. Ólíkt öðrum listgreinum hófst kennsla í ritlist ekki fyrr en um miðja síðustu öld og enn er ritlistarkennsla víðast hvar allt að því óþekkt utan enskumælandi landa og Vestur-Evrópu.

„Ég hef fengið hingað hópa kennara frá Austur-Evrópu til að kynna sér þetta fyrirbæri. Og Íslendingar vita ekkert endilega hvað ritlistarnámskeið er, mörg mislesa orðið sem „ristilnámskeið“ eða telja að skapandi skrif og skrautskrift séu samheiti.“

En þar sem ritlistarnám stóð ekki til boða eftir stúdentspróf valdi Björg að fara í Myndlista- og handíðaskólann.

„Mér hefur alltaf þótt kennararaprófið úr MHÍ afar góður grunnur fyrir ritlistarkennslu, einkum það að hafa lært að horfa og taka eftir sem er höfundum er ekki síður mikilvægt að tileinka sér en myndlistarmönnum. Kennslufræði myndlistar hefur líka nýst mér vel í ritlistarkennslunni. Ég held að minn helsti kostur sé sá hvað ég er fljót að koma nemendum yfir óttann við auða blaðið.“

„Grafðu þar sem þú stendur“ 

Ritlistarkennslu kynntist Björg fyrst norður í Lapplandshéraði Svíþjóðar veturinn 1985 þegar hún starfaði sem „kultur-pedagog“ hjá Norrbottens Bildningsförbund.

„Lénið Norrbotten er jafnstórt Íslandi en talsvert norðlægara og ég fékk að ferðast mikið um þetta ískalda, áhugaverða landsvæði. Fólksflótti var stórt vandamál og Norrbottens Bildningsförbund hafði það meginhlutverk að afstýra því að allir færu suður, meðal annars með því að beita aðferðum listanna. Sem nýútskrifaður myndlistarkennari fékk ég þarna mína fyrstu alvöru atvinnulífsreynslu í stórum hópi listamanna úr öllum greinum.

Þarna voru meðal annars rithöfundar sem voru að gera tilraunir með að virkja fólk til virkni með skrifum. Ég fékk að fylgjast með hugmyndafræði í þróun sem kallaðist „Gräv där du står.“ Nú er Dig where you stand-hreyfingin orðin nokkuð þekkt víða um lönd en hugmyndin er sú að valdefla fólk til að leita rótanna með aðferðum listanna.

Í þessari vinnu umbreyttist ég úr myndlistar- í ritlistarkennara og orðin ,,grafðu þar sem þú stendur“ greyptust þá þegar í kennsluheimspeki mína. Seinna lauk ég námi í blaðamennsku við Kalix folkhögskola og meistaranámi í menntunarfræðum frá HÍ með áherslu á skapandi nám fullorðinna. En hugmyndina að stofnun Stílvopnsins fékk ég árið 2014 þegar þrjátíu ár voru liðin frá því að ég fékk fyrst að kynnast kennslu í ritlist í námubæjum nyrst í Svíþjóð.

Pétur Gunnarsson rithöfundur í 10 ára afmæli Stílvopnsins.

Aðgangur að íslensku atvinnulífi

Upphaf eigin, sjálfstæðrar ritlistarkennslu miðar Björg við sumarið 1989. Þá flutti hún heim frá Svíþjóð og var fengin til að vera íslenski kennarinn á Nordspråk, árlegu sumarnámskeiði norrænna móðurmálskennara.

,,Við áttum dásamlega viku á Visingsö sem segja má að hafi opnað íslenskan vinnumarkað fyrir mér. Heimkomin hélt ég svo ásamt Pétri Gunnarssyni, rithöfundi, og Baldri Sigurðssyni, frumkvöðli í ritlistarkennslu við Kennaraháskólann nokkur ritlistarnámskeið fyrir íslenskukennara hér og hvar um landið. Námskeiðin eru einstaklega minnisstæð vegna frumkvöðulsandans sem ríkti þegar íslenskukennarar tileinkuðu sér nýjungar í kennslufræði ritlistar. Á Visingsö kynntist ég líka Sölva Sveinssyni, hinum mikla skólamanni, sem oft hefur opnað mér ýmsar dyr.

Fyrsta veturinn á Íslandi tók ég að mér fimm störf; þáttagerð við Ríkisútvarpið, ritstjórn Veru, tímarits um konur og kvenfrelsi og kennslu í fjórum greinum á þremur skólastigum: Ég kenndi börnum myndlist við MHÍ, ungmennum blaðamennsku og munnlega tjáningu í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og fullorðnum skapandi skrif við Tómstundaskólann.

Um árþúsundamótin fékk ég svo taka þátt í því mikla ævintýri sem uppbygging framhaldsfræðlustigsins var. Ég hafði tekið þátt í stofnun nokkurra félagslegra menntunarrúrræða þegar ég varð fyrsti framkvæmdastjóri Símenntunar á Vesturlandi og síðar Framvegis-miðstöðvar um símenntun. Einnig var ég um hríð í forsvari fyrir framhaldsfræðslu hjá Reykjavíkurborg sem forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur. Það var ótrúlega áhugavert að fá að fylgjast með nýju skólastigi verða til en lög um framhaldsfræðslu voru sett árið 2010.”

Ótal tækifæri í Svíþjóð

En gerðir þú einhvern tíma tilraun til að leggja myndlistina fyrir þig og hafa af henni lifibrauð?

„Mér finnst ég hafa fengið öll stærstu tækifæri lífs míns á þrítugsaldri, árin mín sex í Svíþjóð. Glænýútskrifaður myndlistarkennarinn fékk til dæmis að halda einkasýningu á Norrbottens Museum. Sýninguna kallaði ég Skissu að skáldsögu sem sýnir náttúrlega hvert ég var á leiðinni. Þetta voru ljóð unnin í margvísleg efni, einskonar skissa að skáldsögunni sem ég hef nú loks lokið við að skrifa og gef mér kannski einhvern tíma frið til að umskrifa og endurbæta. Á þessum árum varð ég líka þess heiðurs aðnjótandi að fá styrk sem einn fjögurra borgarlistamanna heimabæjar míns, Luleå.

En við orðið lifibrauð verð ég að setja bæði spurningarmerki og gæsalappir. Þótt Stílvopnið njóti bæði velvildar og velgengni segir vinkona mín að þetta kallist nú varla rekstur heldur sé meira eins og tómstundabúskapur. Það má því eiginlega segja að ég hokri eingöngu vegna starfsánægjunnar!”

Blaðamaðurinn Björg

Síðasta árið í Svíþjóð lærði Björg blaðamennsku og þar buðust flottari gigg en hún hefur nokkru sinni fengið síðar.

„Ég fór tvisvar til Íslands á vegum Sveriges Television, annars vegar til að gera þátt um íslenska tungu og hins vegar um Kvennalistann. Í dag hefði ég verið send ein með upptökutæki en á níunda áratugnum fór ég ásamt öðrum þáttagerðarmanni, tökumanni, hljóðmanni og ljósamanni og öll hersing gisti á Hótel Holti í viku í hvort sinn.

Á þessum árum hlotnaðist mér líka sá heiður að fá að gera útvarpsþáttinn „Sommar“, sem þá var tveggja tíma þáttur í beinni útsendingu þar sem útvaldir fengu að messa yfir sænsku þjóðinni liggjandi í hengirúmum sínum yfir hásumarið. Ég hef alltaf beðið eftir að fá aftur sömu tækifæri og ég fékk á árunum þegar ég hafði ekkert til að bera nema hugrekkið“

Að komast á eftirlaunaaldur

Nú stendur Björg á tímamótum nýfarin að taka út eftirlaunin. Hún hefur skapað námskrá, námsefni og nemendahóp sem fylgir henni hvert á land sem er og er nýkomin með frábæra aðstöðu í húsi Íslenska sjávarklasans á Granda. En þá þyrmir yfir hana. Eða birtir til. Hún kann ekki alveg að flokka þær tilfinningar sem fylla hana.

„Ég hafði alltaf séð fyrir mér að ég myndi kenna námskeiðin mín fram að áttræðu en allt í einu er mér farið að finnast þetta erfitt. Með vaxandi tölvutækni finnst mér utanumhaldið verða sífellt flóknara. Það þarf ekki bara að læra á nýtt app fyrir hvert handtak heldur líka að leiða notendur í gegnum þau.

Og auglýsingamálin eru að fara með mig. Ég stofnaði Stílvopnið meðal annars af því að með tilkomu samfélagsmiðlanna varð skyndilega bæði auðvelt og ódýrt að auglýsa. Nú finnast mér samfélagsmiðlar hins vegar gera mér erfitt fyrir. Til að ná þeim fjölbreytta hópi sem ég er vön að fá verð ég að auglýsa alls staðar með ærnum tilkostnaði. Það skýtur skökku við að í samfélagi sem sækist eftir inngildingu allra samfélagshópa hafa algóryþmar samfélagsmiðlanna fengið völd til að búa til bergmálshella, ekki bara fyrir umræðuna heldur auglýsingarnar líka,” segir Björg sem finnst auk þess blóðugt að þurfa að moka auglýsingafé í erlenda miðla.

Loksins barst besta atvinnutilboðið!

Andartak bregður fyrir uppgjöf í svip hennar þá man hún eftir einu.

„Þegar mér nýútskrifaðri var boðin vinnan hjá Norrbottens Bildningsförbund spurði ég hvað ég ætti að gera. Svarið var: ,,Gerðu það sem þú vilt, bara ekki of mikið því að þú þarft líka að hafa tíma til að hugsa.” Ég hef alla tíð beðið eftir viðlíka atvinnutilboði aftur. Um daginn laukst upp fyrir mér að ég nú er ég að fá það. Eftirlaunin eru auðvitað til þess að ég geti unnið við það sem ég vil en líka haft tíma til að hugsa!”

Og þrátt fyrir allt verður að segjast að Björgu hefur tekist merkilega að fylla sín námskeið og án efa hjálpar að hún brennur fyrir því að vekja áhuga og ástríðu og fær því afar góð meðmæli frá nemendum sínum. Hugurinn ber fólk jafnan hálfa leið en góður kennari verður alltaf sá innblástur sem orðið getur að hressandi stormi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 15, 2024 07:00