Tengdar greinar

Kynning

Ætti ekki að vera feimnismál að fá gervitennur

Brosið er eitt verðmætasta samskiptatæki mannsins. Það lætur vita að við erum vinaleg, ánægð og hamingjusöm. Þess vegna er mjög mikilvægt að varðveita fallegt bros alla ævi og Tinna Ásdís Jónasdóttir klínískur tannsmiður gerir öllum sem til hennar leita það mögulegt. En fleira kemur til. Góð tannheilsa er einnig ein af undirstöðum góðrar almennrar heilsu.

Tinna rekur stofu að Laugavegi 126, 2. hæð og er auk þess tvo daga í viku á Krýnu tannlæknastofu.  Undanfarin ár hafa orðið stórstígar framfarir í tannviðgerðum og aðferðum við að halda tönnunum heilum. Fólk fær þess vegna að halda sínum tönnum mun lengur en kynslóðin á undan. Hvernig kemur tannsmiðurinn inn í þá þróun?

„Sem klínískur tannsmiður sé ég til þess að fólk sem hefur misst sínar eigin tennur fái gervitennur í staðinn. Þrátt fyrir að tannheilsa hafi batnað mikið og margir halda tönnunum sínum lengur en áður tíðkaðist þá er og verður alltaf stór hópur fólks sem þarf á gervitönnum að halda, af ýmsum ástæðum og hópur eldri borgara er alltaf að stækka.

Nú eru auðvitað komin implönt eða implanta-heilgómar sem er tiltölulega nýtt,“ segir Tinna. „Nú er að aukast mikið að fólk fái sér smellur í gómana, þá eru sett implönt í kjálkabeinið og smellur í heilgóminn og þá er hægt að smella honum af og á.“

Beinin rýrna með tímanum

Er þetta ekki betra fyrir fólk hvað varðar almennt heilsufar því gómarnir rýrnuðu og það gat skapað vandamál?

„Jú, implöntin halda við beininu. Kjálkabeinin rýrna með tímanum og implöntin  hægja á þeirri  þróun. Svo skiptir það líka máli upp á stöðugleikann að gera að gómarnir sitji vel og það er algengara, sérstaklega með neðri gómana, að þeir séu svolítið á hreyfingu og því geta implönt haft mikið að segja til að auka lífsgæðin.

Það hefur orðið mikil framför í framleiðslu á gervitönnum en í dag er hægt að fá hágæða tennur úr plasti sem eru byggðar upp í nokkrum lögum og ekki er hægt að sjá muninn á þeim og líkamstönnum. Það hefur orðið mikil aukning á því að fólk fái sér implönt, annaðhvort til að setja smellur í lausu gervitennurnar en þá sitja þær stöðugri í munninum en samt hægt að losa þær af til að hreinsa. Það er líka hægt að fá fastar gervitennur sem ekki er hægt að losa sjálfur úr munni, þær eru fyrirferðaminni en það er vandasamara að hreinsa þær því það þarf að þrífa undir brúnni og á milli tannplantanna.

Þegar beinið rýrnar myndast líka holrúm milli gervitannanna og gómsins og það er gróðrarstía fyrir bakteríur. Það geta einnig komið upp sveppasýkingar og ýmislegt annað. Það er svo mikilvægt þess vegna að fóðra tennurnar reglulega og setja nýtt undirlag, helst áður en þær fara að verða of lausar. Við metum það þegar fólk kemur í eftirlit og ég mæli alltaf með því að fólk fari reglulega í eftirlit til að fyrirbyggja vandamálin.

Ég legg líka mikla áherslu á að gæðin séu góð og útlitið náttúrulegt. Ég vinn líka mikið í samvinnu við viðskiptavininn. Það er mjög mikilvægt. Hann hefur allt um útlit tannanna að segja. Stundum kemur fólk með mynd af sér þegar það var með eigin tennur og þá fer ég eftir þeim eða ef það vill breyta einhverju þá geri ég það. Ef viðkomandi hefur til dæmis verið með skakkar tennur og vil fá beinni eða halda skekkjunni þá fer ég eftir því. Það er ýmislegt sem getur komið til.“

Tannlækningar í fjölskyldunni

En hvernig stóð á því að þú fékkst áhuga á þessu starfi?

„Föðurafi minn, Birgir Jóhannsson, var tannlæknir og stofnaði stofuna á Laugavegi 126 árið 1957. Pabbi minn, Jónas, er líka tannlæknir og hann tók við árið 1981. Hann er hér enn og við störfum hér saman. Svo er einn annar tannsmiður, almennur tannsmiður sem starfar hér og ég fylgdist með þeim vinna og velti lengi fyrir mér hvort ég ætti að læra tannlækningar eða fara í tannsmíði. Mér fannst hins vegar handverkið svo áhugavert. Þetta er list og verið er að búa til eitthvað. Ég hef alltaf haft áhuga á því að skapa og gert töluvert að því. Ég fór þess vegna í tannsmíði hér heima og útskrifaðist 2015. Ég vann sem tannsmiður í nokkur ár og þá var ég bara að vinna á verkstæði og hitti ekki fólkið sem ég var að vinna fyrir. Ég kom til tannlæknisins sótti mátið og smíðaði eftir því en hann sá um allan þann hluta sem sneri að sjúklingnum og ég hitti persónuna kannski aldrei.

Ég ákvað þess vegna að fara í klínískar tannsmíðar. Það er kennt í Árósum í Danmörku. Þaðan útskrifaðist ég 2021 og var þá komin með réttindi til að búa til lausar gervitennur alveg frá upphafi til enda. Ég tek mát, máta tennurnar og aðlaga og smíða þar til ég skila þeim tilbúnum. Það er mikill kostur þegar ég sit á verkstæðinu og smíða að vita fyrir hvern þetta er og ég hef tilfinningu fyrir verkinu. Veit hvað manneskjan vill og það er miklu betra. Ég get sagt það því ég hef prófað hvoru tveggja.“

Hlustar á óskir og væntingar viðskiptavinarins

Starf klínísks tannsmiðs  er þá að sumu leyti ekki ósvipað og lýtalæknis. Þeir þurfa líka að hafa tilfinningu fyrir hvað sjúklingurinn vill og hverjar væntingar hans eru fyrir útkomunni.

„Já, það má segja það,“ segir Tinna. „Maður hlustar á óskir og væntingar viðskiptavinarins. Hversu hvítar tennur hann vill fá og annað. Þá er unnið eftir því.“

Starfið hlýtur að vera fjölbreytt. Tennur eru svo margvíslegar og misjafnar og til þín kemur fólk á öllum aldri.

„Fáir vita hversu algengt það er að vera með gervitennur eða tannparta,“ segir Tinna. „Margir hafa enn eitthvað af sínum tönnum eftir og smella á tannpörtum þar sem vantar. Fólk almennt gerir sér alls ekki grein fyrir því hversu margir þetta eru og þeir eru á öllum aldri. Sumir skammast sín fyrir að vera með gervitennur en átta sig ekki á því að þeir eru ekki einir. Næsta manneskja við hlið þeirra getur verið með gervitennur en það sést ekki.

Það er algengt að fólk mætir ekki til mín fyrr en gervitennurnar eru orðnar mjög slitnar og  farnar að sitja illa og valda særindum. Það sem gerist er að munnurinn verður samfallinn og munnvikin síga ásamt því að kjálkaliðirnir og tyggingarvöðvarnir starfa ekki í réttri stöðu og það getur valdið höfuðverkjum og öðrum vandamálum. Tanngervið fer að verða laust vegna þess að beinið rýrnar með tímanum og þá myndast holrúm á milli sem er gróðrastía fyrir bakteríur og sveppi, auk þess sem það ýtir undir beinrýrnun ef tennurnar sitja illa. Það er betra að fyrirbyggja þessi vandamál, þess vegna mæli ég alltaf með að mæta reglulega í eftirlit til að fylgjast með.

Það að nota gervitennur ætti ekki að vera feimnismál því ástæður þess að fólk missir tennurnar sínar og þarf á gervitönnum að halda eru mjög mismunandi og aldurinn er breiður. Þó að flestir séu komnir yfir miðjan aldur þá er fólk á öllum aldri sem er með heilgóma eða parta, það er lausar gervitennur.

Það að hafa möguleikann á því að fá tennur í stað tapaðra líkamstanna hefur ótrúlega mikið að segja fyrir andlega og líkamlega heilsu því þú getur endurheimt útlitið, tyggingu og eðlilegan framburð í tali. Margir mikla það fyrir sér að koma en fyrsta skrefið er að mæta. Þá tekur bara við stutt spjall og það kostar ekkert að koma og engin skuldbinding í því. Það eru ekki allir sem vita að eldri borgarar og öryrkjar eiga núna rétt á 75 % niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands, en prósentuhlutinn hækkaði síðastliðin áramót.“

Það eru ekki allir tannlæknar sérhæfðir í lausum tanngervum

Það er sem sagt nóg að gera hjá þér?

Það er sko nóg að gera,“ segir hún brosandi og með áherslu. „Ég er eini starfandi klíníski tannsmiðurinn á landinu núna ,svo ég viti, en það eru mjög margir í Danmörku. Nokkrar aðrar konur eru með þetta starfsheiti hér á landi en þær eru hættar störfum. Starfsheitið er nýlegt hér þrátt fyrir að í Danmörku hafa klínískir tannsmiðir verið starfandi í yfir hundrað ár og algengast er að fólk með gervitennur þar fari til klínísks tannsmiðs en ekki til tannlæknis. Samvinnan milli tannlækna og klínískra tannsmiða í Danmörku er mjög góð og það virðist vera að breytast hér á landi, enda hef ég bara haft jákvæða reynslu af samskiptum við tannlækna. En þegar fyrstu klínísku tannsmiðirnir voru að byrja hér þá voru þeir ekki sérlega vinsælir meðal tannlækna en það þekktist ekki þá að tannsmiðir ynnu þann hluta sem tannlæknar vinna líka við.

Sem klínískur tannsmiður ertu búin að mennta þig og sérhæfa í þessu fagi en þetta er alls fimm ára nám og þar af eru tvö sérhæfing í lausum tanngervum. Tannlæknar eru ekki allir sérhæfðir í því sem ég er að gera enda er vinna við gervitennur bara lítill hluti af starfi þeirra á meðan ég vinn eingöngu við þetta. Nú er viðhorfið, sem betur fer, breytt. “

Á verkstæði tannsmiðsins gefur að líta ótal smágerð og hugvitsamleg verkfæri og perluhvítar tennur sem bíða nýrra eigenda. Það er mjög áhugavert að kynnast þessu starfi og minnast þess sem Einar Benediktsson orti eða; „Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt“. Það eru orð að sönnu og gott til þess að vita að hægt er að halda brosinu geislandi og fjörlegu alla ævi.

Frekari upplýsingar um starf Tinnu má finna á vefsíðunni: www.tannsmidur.is.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 25, 2024 07:00