Af lágum launum á lítil eftirlaun

Sigríður J. Guðmundsdóttir

 

Sigríður J Guðmundsdóttir formaður Félags eldri borgara á Selfossi flutti erindi  á sameiginlegum fundi Landsbankans og Landssambands eldri borgara í gær, en fundurinn var haldinn í Reykjavík í húsnæði Félags eldri borgara þar.  Hún rifjaði upp sögu lífeyrissjóðanna og hvernig það var sett í lög árið 1969 að allir skyldu greiða í lífeyrissjóð.  Sigríður sem var útivinnandi greiddi samanlagt í þrjá lífeyrissjóði  uppfrá því, að undanteknu tímabili þegar hún bjó erlendis í þrjú ár.  En gefum henni orðið:

 

 

 

Mér reiknast til að ég hafi borgað í þessa þrjá lífeyrissjóði í 41 ár reyndar voru þar af 5 ár sem ég var í 1/2 vinnu.  Öll þessi ár sem ég var útivinnandi var ég á betri launum en margir aðrir, sem sagt, ég þótti vera á ágætis launum sem kona – já takið eftir sem kona, við konur höfum aldrei verið hátt skrifaðar á launamarkaðnum. Á mínu vinnusvæði var og er ennþá  yfirleitt  borgað eftir taxta þó ASÍ vildi ekki viðurkenna það þegar ég eitt sinn benti þeim á það, þeir töldu að taxtinn væri bara viðmið sem enginn færi eftir, en það má lengi slá ryki í augu almúgans.  Svæðið sem ég bý á er láglaunasvæði og lífeyrir okkar er reiknaður út frá þeim launum sem við fáum og borgum prósentu af.

Í dag sem eftirlaunaþegi fæ ég útborgað frá þessum þremur lífeyrissjóðum samanlagt 83.327 krónur að auki fæ ég úr Almannatryggingasjóðnum 175.727,-, samanlagt fæ ég 259.054 krónur fyrir skatt. Þetta eru allt nýjar tölur eftir síðustu hækkanir, en hugsið ykkur fyrir skatt, við erum látin borga skatt af þessari hungurlús. Það sem mér finnst óréttlátt er að eftir 41 árs greiðslur í lífeyrissjóði hafði ég þegar ég hætti að vinna 10 þúsund krónum meira en móðir mín sem hafði aldrei unnið úti.  Við sem erum með þessar tekjur mánaðarlega erum á sama róli og þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð.

Ég ásamt fleirum héldum hér áður fyrr að flott trygging fyrir framfærslu efri áranna væri komin til að vera, en í dag trúi ég ekki lengur á þetta ágæti.  Góð vinkona mín missti maka sinn fyrir nokkrum árum og þá komumst við að því að stundum erum við hjón og stundum ekki, það fer eftir því hvað hentar hverju sinni.  Hún fékk 50% af lífeyrir maka síns í þrjú ár og helminginn af þeirri upphæð næstu tvö ár þar á eftir  og síðan ekki meir.  Þetta var lífeyrir sem hann var búin að ávinna sér árin sem þau voru hjón, en hún fékk aðeins að njóta hluta af honum í fimm ár eftir andlátið.  Spurning mín er, hvað varð af peningnum hans?

Launþegar eru fastir í gildru þar sem þeim ber skylda til að vera með og greiða í atvinnutengda lífeyrissjóði. Sömu aðilum er síðan gert að hætta opinberu starfi sjötugir, þrátt fyrir að vera við hestaheilsu og atvinnugetan fullnægjandi, en þá hefst martröð hjá mörgum.  Lífeyrissjóðirnir eru  allir reknir með óheyrilegum kostnaði sem er örugglega einn af nokkrum þáttum þess að greiðslur til eldri borgara rýrna og málið er líka kanski það, að hinir raunverulegu eigendur sjóðanna, fólkið í landinu, eru ekki með í rekstrinum til að halda hlutunum í skefjun og til að sporna við allt of háum launagreiðslum og allskonar fríðindum sem starfsfólk lífeyrissjóðanna hefur. Hverjir eru það t.d. sem ákveða þeirra laun og sposlur?  Það er fjöldinn allur sem er á sama róli og ég gagnvart sínum eftirlaunum og sumir eru verr staddir.

Í Almannatryggingasjóð greiðum við öll frá unga aldri og gott og vel með það, en það á ekki að tekjutengja lífeyri. Við eigum að fá frá lífeyrissjóðunum okkar og Almannatryggingum það sem okkur ber án tengingar við annað. Hvernig í ósköpunum stendur á því að yfirvöld geta tekið lífeyrissparnað okkar eignarnámi og gert við hann sem þeim sýnist? í 69 gr. Almannatryggingalaga  stendur   „Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63 gr. og fjárhæðir skv. 22 gr. skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinniÁkvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.  (Tilvitnun í 63 gr. er vegna barnafólks.)  Fólk á að fá að vinna eins lengi  og það getur heilsunnar vegna og skattleggja á tekjurnar á eðlilegum nótum og  henda út þessu frítekjumarki nema þá kanski hjá öryrkjum sem geta því miður ekki allir stundað atvinnu. En gerum okkur líka grein fyrir því að þó að ellilífeyrir sé greiddur frá TR þá erum við eldri borgarar ekki þiggjendur, þetta eru peningar sem við höfum unnið okkur inn og eigum.  Frítekjumarkið er til skammar fyrir forráðamenn þessarar þjóðar, þegar frítekjumarkið var 109 þúsund var launavísitalan 355,7.  Síðast þegar ég vissi hafði hún hækkað um 75% þannig að við ættum að hafa 191.187 kr. á mánuði í frítekjur. Við vitum að því verður aldrei framfylgt,  svo burtu með frítekjumark og allar tengingar við laun og launatengd gjöld.

Það er ekki góður vitnisburður fyrir ríkisstjórn okkar ef það spyrðist út, að ef  ellilífeyrisþegar eiga ekki maka og  eigin híbýli skuldlaus,  þá værum við eldri borgarar þessa lands á vonarvöl í einu af ríkustu löndum heims.

 

Ritstjórn febrúar 13, 2018 15:53