Tengdar greinar

Finna gömlu ástina á Facebook

Flestir eiga ugglaust minningar um strákinn eða stelpuna sem þeir voru skotnir í þegar þeir voru í skóla, grunnskóla, framhaldsskóla eða háskóla. Þá voru þeir ungir, stundum feimnir og létu nægja að þjást í leyni. En minningin um fyrstu ástina getur verið sterk. Stundum er fjallað um það í tímaritum eða bókum, þegar fólk sem eitt sinn var hrifið af hvort öðru, nær saman eftir langa ævi og tekur upp þráðinn aftur.  Hér áður fyrr gat verið heilmikið mál að hafa aftur uppá gömlum kærustum, en eftir að Facebook kom til skjalanna er nánast ekkert mál að hafa uppá fyrrum bekkjarfélögum, vinum eða kærustum. Það er bara að setjast við tölvuna – og smella.

Fylgjast með fyrrverandi maka

Nancy Kalish er prófessor í sálfræði við Háskólann í Kaliforníu. Hún hefur rannsakað pör sem hafa náð aftur saman eftir áratugi og er sérfræðingur í ást sem lifnar að nýju og horfnum ástum. Það er ekki til nein tölfræði um hversu margir reyna að leita uppi gömlu ástina sína, en vísbendingar eru um að það séu um það bil 25% fólks.  57% Bandaríkjamanna sögðust í könnun skoða síðu fyrrverandi maka síns reglulega. Það átti frekar við um þá sem voru giftir aftur eða í sambandi. Þetta kemur fram á vefsíðunni Grandparents.com  Grípum niður í greinina, sem er hér  fyrir neðan í lauslegri þýðingu.

Hafði ekki séns í hana

Fyrir marga snýst málið alls ekki um að reyna að ná sambandi við fyrrverandi maka, heldur þann sem þeir voru að sverma fyrir  í 9.bekk. Þannig var það með Rick sem er núna á sextugsaldri. Hann fann ástina aftur í gamalli bekkjarsystur úr framhaldsskóla. Þau tóku upp samband á vefnum, þegar þau voru á fimmtugsaldri og tóku saman í framhaldi af því. „Ég vissi hver Deb var í framhaldsskóla, en hún vissi ekki einu sinni að ég væri til“, segir hann. „Hún var aðalskvísan í skólanum og þannig að mér datt ekki í hug að ég ætti neinn séns í hana“, rifjar hann upp. „Það var frábært að kynnast henni eins og hún er í dag, en ég væri óheiðarlegur ef ég  viðurkenndi ekki að stundum brosi ég með sjálfum mér og hugsa; „Ég er með Deb, sætustu stelpunni í skólanum!!“.

Slitnaði uppúr af ýmsum ástæðu

Þó þau hafi aldrei verið par í framhaldsskóla, eru Rick og Deb gott dæmi um fólk sem var saman í skóla, hittist á ný síðar á lífsleiðinni og ástin kviknar. Nancy Kalish rannsakaði 4000  pör og fann ákveðna eiginleika hjá því fólki sem hafði samband við gömlu ástina aftur og hefur verið með henni síðan. Margir í hópnum höfðu verið í sambandi við viðkomndi einstakling lengur en í ár, þegar þeir voru 22ja ára eða yngri og þeir höfðu líka alist upp í sama bæ. Slitnað hafði uppúr sambandinu af ýmsum ástæðum, svo sem vegna andstöðu foreldra eða fólk flutti hreinlega burtu og fór í háskóla í sitt hvoru ríkinu.

Var mun erfiðara að finna gamla „flamma“

Nancy Kalish segir að fólkið sem nær saman og ólst upp í sama bæ, hafi líklega hlotið svipað uppeldi. „Þetta snýst um sameiginlegar rætur og reynslu. Það getur verið þægilegt að hafa þekkt einhvern frá því hann var barn og þekkja foreldra hans og systkini“, segir hún. Nancy hefur skoðað þetta efni síðan 1990. Eftir 2006 varð hún vör við að það færðist í vöxt að gift fólk væri að hafa samband við fyrrum „flamma“. Hún segir að það sé vegna þess fyrir tíma samfélagsmiðlanna hafi verið mun erfiðara að finna gamla kærasta, það hafi kostað fyrirhöfn að hafa samband við gamla vini og jafnvel ættingja kærastans til að spyrjast fyrir. Þessu sé öfugt farið í dag og mjög auðvelt að leita uppi fólk á samfélagsmiðlunum, án þess að nokkur viti af því.

Betra að hugsa sig um tvisvar

Fólk sem er í alvarlegum samböndum getur verið að leika sér að eldi, þegar það hefur samband við fyrrum kærasta eða kærustur, segir Nancy. Þeim finnst það ekkert mál og láta jafnvel makann sinn vita af því. En aðdráttarafl fyrrum kærsta getur verið gríðarlegt. „Það er eins og að lenda í tímavél, vera með annan fótinn í fortíðinni og hinn í nútíðinni og getur haft mikla  erfiðleika í för með sér. En ef fólk er einhleypt og forvitið að vita meira um einhvern frá því í gamla daga, á það að skella sér í tölvuna og segja hæ.  En ef þú, eða sá sem þú vilt leita uppi, eruð í sambandi, hugsaðu þig þá vel um, það gæti verið skynsamlegra að skella sér í skemmtilegan tölvuleik í staðinn og þjálfa heilann.

Grein úr safni Lifðu núna

Ritstjórn maí 31, 2023 06:45