Ástin í öllum sínum margbreytilegu myndum er vinsælt umfjöllunarefni rithöfunda. Stundum verður farsæll endir og parið sameinast í enda sögunnar en þess á milli skilja ill örlög elskendurna. Sorgin nístir lesandann þegar svo þannig fer og hann reynir að skálda í eyðurnar nýja atburðarás, framhald þar sem þetta ástfangna fólk nær að leysa málin. Rifjum upp nokkur slík pör og svo skemmtilega vill til að þau eru einnig vinsælt viðfangsefni kvikmyndagerðarmanna.

Clark Gable og Vivian Leigh í hlutverkum sínum í Gone With the Wind.
Scarlett og Rhett úr Á hverfanda hveli
Hvers vegna bók Margret Mitchell, Gone With the Wind, fékk titilinn Á hverfanda hveli á íslensku er erfitt að skilja. Orðtakið þýðir óstöðugur eða breytilegur. Vissulega var heimur Scarlett O’Hara umsnúinn og hættulegur því borgarastyrjöld geisaði og Suðurríkin fóru halloka. Allt sem hin dekraða og fagra dóttir plantekrueigandans á Tara hafði vanist var á undanhaldi en sjálf reyndist hún merkilega stöðug í ást sinni á Ashley, allt þar til hún loks áttaði sig á því um seinan, að Rhett var maðurinn fyrir hana.
Rhett var sömuleiðis henni trúr og tilbúinn að leggja ýmislegt í sölurnar fyrir ástina. Þau giftast, hún til að tryggja að æskuheimili hennar risi úr rústum stríðsins en hann af heitri og einlægri ást. Þau eignast dóttur, missa hana og loks gefst Rhett upp á að elta konu sem horfir með eftirsjá og þrá til manns sem aldrei hafði raunverulegan áhuga á henni. Hann gengur út eftir að hún lítur á hann með tárin í augunum og segir: „Hvað á ég að gera? Hvert á ég að fara?“ Hann svarar: „Frankly my dear I don’t give a damn“ (Í hreinskilni vinan. Mér er skítsama). Í bókinni er línan aðeins öðruvísi eða, „My dear, I don’t give a damn.“ Þetta er ábyggilega ein frægasta lína kvikmyndasögunnar og Clark Gable kemur henni óaðfinnanlega til skila.
Á þessu augnabliki gerir Scarlett sér loks fullkomlega ljóst að hún vill ekki missa hann en það er of seint. Hún gefst þó ekki upp heldur segir við sjálfa sig: „Ég fer heim og hugsa upp einhverja leið til að ná honum til baka. Þegar allt kemur til alls byrjar nýr dagur á morgun.“ Í þessari setningu hverfist í raun lífsviðhorf Scarlett. Hún er hvatvís, hugsar lítt til framtíðar og hefur afskaplega takmarkaða sjálfsþekkingu. Hún hafði frá barnæsku fengið allt upp í hendurnar en reynist furðu þrautseig og praktísk þegar á reyndi. Rhett á hinn bóginn er einfarinn sterki. Maður sem lifir á ystu mörkum samfélagsins, hefur í krafti auðs síns keypt sig inn en nýtur aldrei fullrar viðurkenningar eða virðingar. Það veldur honum litlum áhyggjum, enda veit hann vel hvað hann vill og hvernig best er að nálgast það. Þessi dásamlega saga er margslungin, bæði hvað varðar persónusköpun en einnig eru lýsingar á ástandinu í Georgíufylki meðan á þrælastríðinu stóð og eftir að því lauk raunsannar. Þar er sömuleiðis skautað listilega yfir ofbeldi þrælahaldsins og þeldökkum lýst sem trúum þjónum sem fylgdu húsbændum sínum af trúfestu þótt þeir hefðu öðlast frelsi.

Jeremy Irvine og Holliday Grainger í hlutverkum Pip og Estellu.
Estella and Pip – Glæstar vonir
Great Expcetations eða Glæstar vonir eftir Charles Dickens er ein af áhugaverðustu sögum þessa magnaða höfundar. Ungfrú Havisham situr ein og bitur yfir rotnandi leifum eigin brúðkaupsveislu. Brúðguminn sveik hana og nú elur hún upp undurfagra stúlku, Estellu, til að hefna sín á karlkyninu. Pip er fátækur drengur úr nágrenninu sem ungfrúin lætur kalla til í þeim tilgangi að sjá með eigin augum hvort áætlun hennar sé líkleg til að takast. Pip er svolítið einfaldur en þegar hann fær tækifæri til að menntast blindast hann um tíma og gleymir uppruna sína. Þegar velgjörðamaður hans gefur sig fram áttar hann sig og horfir upp frá því fyrst og fremst á hjartalag manna en ekki auð þeirra eða veraldlegar umbúðir.
Estella er einn best mótaði og sterkasti kvenkarakter Dickens. Flestar aðrar konur hans eru annað hvort illþýði eða englar en Estella er flókin. Hún reynir að vara Pip við þegar þau eru börn og segir honum að halda sig fjarri sem bendir til að innst inni kæri hún sig ekki um að leika þann leik sem fóstra hennar hyggst þjálfa hana til. Varnaðarorð hennar falla þó fyrir daufum eyrum því Pip nýtur þess að eltast við hana og býr til í huganum ímynd af henni sem á ekkert skylt við raunveruleikann. Þannig er rómantíkin.
Hún giftist algjörum skíthæl til að komast yfir peningana hans en í lok sögunnar er sterklega gefið í skyn að þau tvö muni ná saman. Sagt er að sá endir hafi verið algjörlega í andstöðu við Dickens en hann hafði skrifað sögulok þar sem þau skilja með afgerandi hætti og Pip gerir sér ljóst að Estellu verður ekki bjargað, að hún er ekki góð undir niðri eins og hann hafði talið sér trú um. Útgefandinn var hins vegar viss um að svo harðúðugur endir myndi ekki falla lesendum í geð svo hann neyddi Dickens til að skrifa nýjan. En hvort sem þau skilja eða ná saman er þetta par einstaklega eftirminnilegt fyrir margra hluta sakir, ekki síst vegna þess að þau eru bæði af lágstétt en fá tækifæri til að klifra um þjóðfélagsstigann og kaupa það dýru verði. Ein fallegasta línan í bókinni hljóðar svo: „Hinn fortakslausi sannleikur er að ég þegar ég elskaði Estellu eins karlmaður elskar, elskaði ég hana einfaldlega vegna þess að mér fannst hún ómótstæðileg.“

Emma Watson og Rupert Grint léku þau Ron og Hermione í kvikmyndunum vinsælu eftir bókunum.
Ron og Hermione – Harry Potter
Allt frá þvi Ron Hermione hittast fyrst er togstreita á milli þeirra. Hún reynir að bæta hann, leiðbeina honum og viðleitni hennar fer í taugarnar á honum. Þessi týpíska togstreita milli tveggja einstaklinga sem dragast hvor að öðrum en vita ekki alveg hvernig þeir eiga að bregðast við tilfinningum sínum. Þau eru gerólík en er ekki sagt að andstæður laðist hver að annarri. Ron dáist að þrautseigju Hermione og gáfum. Hún á hinn bóginn er heilluð af ástríðu hans og hvatvísi. Að auki eru þau svo unglingar í síðustu bókunum og þá er ekki von á góðu. Óöryggi, tilfinningasveiflur, ótti við höfnun og lítil þekking á eigin tilfinningalífi bætist ofan á allt annað og lengi vel eru lesendur sannfærðir um að þau muni aldrei ná saman. En sameiginlegur óvinur er oft besta sameiningarverkfæri sem hugsast getur og þegar kemur að því að sigra hinn illa Voldemort standa þau saman eins og einn maður og smella saman í ofanálag.

Aidan Turner og Juliette Binoche eru meðal fjölmargra leikara sem túlkað hafa ástríðu þeirra Heathcliffs og Cathyjar.
Cathy og Heathcliff – Fýkur yfir hæðir
Í raun er erfitt að vera viss um hvort þau Cathy og Heathcliff séu dæmi um rómantíska ást sem nær út fyrir gröf og dauða eða einfaldlega frábær lýsing á ástríðum sem verða að þráhyggju og geðveiki. Kannski sitt lítið af hvoru tveggja. Þetta er dökk saga full af einmanaleika, afbrýði og illsku. Á afskekktum sveitabæ upp á heiðum Yorkshire kemur herra Earnshaw heim úr kaupstaðarferð með óvæntan farangur, lítinn munaðarlausan dreng. Heathcliff elst upp með systkinunum Cathy og Hindley en sá síðarnefndi hatar hann. Cathy á hinn bóginn dregst að honum frá fyrstu stundu og hann að henni. Eftir að herra Earnshaw deyr fer Heathcliff burtu en kemur til baka með fullar hendur fjár og kaupir bæinn.
Cathy er gift öðrum manni en ástir þeirra reynast öllu yfirsterkari. Að lokum deyr hún en virðist ekki fá frið í gröf sinni að minnsta kosti dregur hún elskhuga sinn til sín á stormasömum nóttum og virðist kalla nafn hans af heiðinni. Þetta er margslungin saga með yfirnáttúrulegu ívafi en einnig er ótalmörgum spurningum ósvarað. Hvaðan kom Heathcliff? Hvers vegna kom herra Earnshaw með hann heim og ættleiddi hann? Hvert fór hann þegar hann hvarf og hvernig tókst honum að verða ríkur? Lesendur verða víst að halda áfram að geta í eyðurnar, enda Emily Brontë löngu látin. Í bókinni segir Cathy við Nelly Dean vinkonu sína: „Nelly ég er Heathcliff. Hann er meira ég sjálf en ég er. Úr hverju sem sálir okkar eru gerðar þá eru hans og mín eins.“ Nú og svo gleymir enginn sem heyrir lagi Kate Bush, Wuthering Heights.

Hér eru það Colin Firth og Jennifer Ehle sem leika Mr. Darcy og Elizabeth Bennet.
Elizabeth Bennet og Mr Darcy – Hroki og hleypidómar
Þessi dásamlega ástarsaga Jane Austin virðist höfða til allra á öllum tímum. Nýir lesendur uppgötva hana á hverjum degi sennilega vegna þess að hún hefur allt sem við sækjumst eftir, húmor, hlýju, skemmtilegar persónur og góðan endi. Hin sjálfstæða, orðheppna og greinda Elizabeth Benned á bágt með að fyrirgefa hinum hrokafulla Fitzwilliam Darcy gagnrýni hans á fjölskyldu sína. Hún þarf hins vegar áður en yfir lýkur að kyngja eigin fordómum en hann að láta af drambseminni. Þau ná saman eftir ýmsar raunir en bókin hefur eina af frábærustu byrjunarlínum sem skrifaðar hafa verið: „It is a truth universally acknowledged, that a single man in possession of a good fortune, must be in want of a wife“ eða eins og setningin er í snilldarþýðingu Silju Aðalsteinsdóttur; „Það er kunnara en frá þurfi að segja að piparsvein í góðum efnum hlýtur að vanta eiginkonu.“

Toby Stephens og Ruth Wilson í hlutverkum Jane Eyre og Mr. Rochester.
Jane Eyre Mr. Rochester – Jane Eyre
Systir Emily, Charlotte Brontë, skrifaði einnig skáldsögu um elskendur sem gengu í gegnum miklar raunir. Jane Eyre giftist þó Rochester sínum að lokum. Þessi unga sterka kona er alin upp við harðræði og þarf að þola miklar píslir í heimvistarskólanum þar sem hún menntaðist. Hún útskrifast, gerist barnfóstra og verður ástfangin af vinnuveitanda sínum og föður skjólstæðings síns. Hann reynist geyma hræðilegt leyndarmál í turnherbergi í höll sinni, geðsjúka eiginkonu sína. Jane leggur á flótta eftir að allt kemst upp en snýr aftur og finnur ástmög sinn. Hann hefur þá misst allt, þar á meðal eiginkonuna ógæfusömu og sjónina í eldsvoða. Þau ná saman og hann fær aftur sjón á öðru auga. Lokaorð bókarinnar lýsa einstakri hjónabandssælu þeirra og samlyndi.

Svona sá málarinn, Frank Bernard Dicksee elskendurna, Rómeó og Júlíu fyrir sér.
Rómeó og Júlía
Sennilega eru ógæfusömustu elskendur allra tíma einnig þeir þekktustu. Rómeó og Júlía eru svo óheppin að það virðist allt hjálpast að til að eins illa fari fyrir þeim og mögulegt. Þótt feður þeirra falli í faðma yfir líkum barna sinna og ákveði að sættast er það engan veginn nóg til að breiða yfir raunleg örlög unglinganna. Shakespeare vissi að líklega kryddar ekkert unglingaástir jafnvel og forboð foreldranna svo hatrið milli Montague- og Capulet-fjölskyldnanna var einmitt olían sem þurfti til að kynda eld ástar hins fram að því fjöllynda Rómeós. Júlía aftur er ímynd sakleysisins og kannski gat þetta ekki farið öðruvísi því ef þau hefðu nú lifað og náð saman er ekki líklegt að Rómeó hefði þreyst á sakleysi hennar og reynsluleysi og snúið sér aftur að innantómu dufli og djammi. En hin undurfallega lýsing hans á stúlkunni er hins vegar ein sú rómantískasta sem skrifuð hefur verið: „But, soft! what light through yonder window breaks? It is the east, and Juliet is the sun!”

Jennifer Lawrence og Josh Hutcerson léku Katniss og Peeta í kvikmyndum gerðum eftir bókunum um Hungurleikana.
Peeta og Katniss – Hungurleikarnir
Katniss Everdeen stendur frammi fyrir því að þurfa að velja á milli tveggja jafngóðra manna. Hún kýs á endanum Peeta, rólega, trausta manninn sem hefur enga ánægju af bardögum og metorðaklifri. Hann líkt og hún er brenndur af þátttökunni í Hungurleikunum, sýndarveruleika þar sem unglingar úr öllum hverfum Panem eru neydd til að berjast til dauða. Lífsvilji beggja er sterkur en heiðarleiki þeirra og manngæska verður hins vegar hinum illa Snow forseta að falli. Gale Hawthorne er æskuvinur Katniss og veiðifélagi og lengi veit hún ekki hvorn þessara efnispilta hún á að velja. Úrslitin ráðast í ástum hennar um leið og í stríðinu þegar Prim systir hennar deyr og bæði hún og Gale skynja að návist hans mun ávallt vekja slæmar minningar hjá Katniss.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.