Þorkell Sigurlaugsson hefur boðið sig fram til formennsku í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, en formannskjör fer fram á aðalfundi félagsins 8.mars. Fundurinn verður haldinn í Gullhömrum og hefst klukkan 13:30. Sitjandi formaður FEB, Ingibjörg H Sverrisdóttir sækist eftir endurkjöri og því má búast við spennandi kosningu. Lifðu núna grennslaðist fyrir um helstu málin sem frambjóðendurnir leggja áherslu á og hér fyrir neðan eru svör Þorkels.
Hver eru þín markmið varðandi starf Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni?
Ég mun leggja áherslu á að gæta hagsmuna eldri borgara í hvívetna. Fjárhagslegra- félagslegra og heilbrigðistengdra hagsmuna. Einnig í vaxandi mæli styrkja tengsl milli félagsmanna, auka þjónustu á sviði námskeiðahalds, afþreyingar, ferðaþjónustu og tómstundastarfs svo dæmi sé tekið. Hlutverkið er afar víðfeðmt og mikilvægt enda er hópur eldra fólks 60+ sífellt stækkandi og viðfangsefnin talsvert ólík því sem var fyrir nokkrum áratugum
Hver eru mikilvægustu verkefni félagsins að þínu mati?
Það er af mörgu að taka. Fyrst og fremst þarf að koma félagsstarfinu og virkni félagsins aftur vel í gang í kjölfar COVID. Auka sýnileik og ímynd samtakanna sem mikilvægan vettvang eldra fólks, 60+. Færa samtökin meira til nútímalegs horfs og þarfa eldra fólks sem hressari og virkari hóps. Samstarf við landssamband eldri borgara (LEB) er mikilvægt einkum á sviði kjaramála og margvíslegra tengdra mála. Skerpa þarf á verkaskiptingu milli LEB og FEB enda er starfseminni stundum ruglað saman.
Það sem mér finnst virkilega spennandi og er e.t.v. ein aðalástæða þess að ég býð fram er að ég vil koma á auknu samstarf milli FEB og Reykjavíkurborgar þar sem það á við. FEB á að vera lykil samstarfsaðili og stundum útvörður Reykjavíkurborgar í málefnum eldri íbúa. Ég hef áhuga, sem borgarfulltrúi, á að stuðla að þessu aukna samstarfi. „Ekkert um okkur án okkar“, hefur stundun verið sagt og þá í tengslum við hreyfihamlaða og ekki gildir þetta síður um okkur eldri íbúa.
Hvað verður það fyrsta sem þú gerir náir þú kjöri?
Þakka fyrir stuðninginn hjá félagsmönnum, fráfarandi stjórn og formanni. Halda stjórnarfund og hlusta á þeirra vinnu fram til þessa í stjórninni. Kynna mér betur starfsemi félagsins með framkvæmdastjóra og stjórn og ekki síst húsnæðismál, atvinnumál o.fl. Eldra fólk á að geta starfað lengur, þess vegna fram yfir 70 ára aldursmörk og þá án umtalsverðrar skerðingar á launum vegna skatta.
Finnst þér mikilvægt að félagið höfði til „yngri“ eldri borgara og hvernig á að laða yngra fólk að félaginu?
Að sjálfsögðu, allir yfir 60 ára aldurinn ættu að koma í félagið. Þetta þarf að gerast fyrst og fremst í tengslum við kynningarstarf almennt og skapa jákvæðara viðhorf til félagsins. Það hefur of mikla ímynd á sér sem vettvangur of gamalla eldri borgara, þar sem virkni fólks er orðin lítil og lífið farið að snúast um að eiga áhyggjulaust ævikvöld. Það er ekki málið, heldur að stuðla áfram að virkni fólks, félagslífi og áhugamálum í leik og starfi. Nýta Internetið eða samskiptaformið á netinu betur. Við getum virkjað samskipti félagsmanna betur, búið til hvata til að gerast félagsmenn. Vera með samskiptatorg á netinu í tengslum við starfsmiðlun, og ná þannig betur til allra yfir 60+. Margir vilja þar eignast vini, félaga með ákveðin áhugamál, atvinnumiðlun, bæði fyrir þá sem eru að leita að starfi og líka þá sem eru hættir að vinna eða búnir að missa vinnuna en vilja gjarnan taka að sér ýmis verkefni. Leigumiðlun o.fl. Margt af þessu væri hægt að gera í samstarfi við aðila sem eru að bjóða þessa þjónustu og vilja sinna markhópnum 60+ eða hlut af þeim hóp. Búa okkur undir það sem koma skal þegar við eldumst en ekki líta á okkur sem gamalmenni eða óvirka eldri borgara í leik og starfi.
Hver er afstaða þín til málaferla Gráa hersins?
Ég hef ekki sett mig nægilega vel inn í þau málaferli, en finnst dapurt að málið skuli vera komið á áframhaldandi dómstólastig, en vissulega þarf að berjast fyrir okkar réttindum. Ég hef talið að þetta mál þurfi að vinnast sem mest hjá LEB og skilst að svo sé. En ég dáist að þeim áhuga og þeirri vinnu sem formaður FEB hefur lagt af mörkum og vil kynna mér vel áframhald þeirrar vinnu.
Telur þú það samræmast formennsku í félaginu að vera jafnframt borgarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg sem er talið fullt starf?
Já algjörlega. Það er eitt af lykilverkefnum FEB að vinna með sveitarfélögum á okkar svæði og í þá mínu tilfelli með borgarstjórn Reykjavíkur að auknu samstarfi við FEB. Eitt best dæmi um árangur á þessu sviði má nefna Hafnarfjörð sem vinnur mjög náið með sveitarstjórn að fjölmörgum málum. Það er því eðlilegur hlut af starfi borgarfulltrúa að starfa að málefnum elda fólks innan FEB.
Annað sem þú vilt koma á framfæri?
Annars hlakka ég til framtíðarinnar og við vinnum heiðarlega í kosningabaráttu til stjórnar og vinnum svo þétt og vel saman í framhaldinu. Það er af nægu að taka.