Bestu ár ævinnar

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

Stundum heldur fólk að allt skemmtilegt sé búið þegar sjötugsafmælið er um garð gengið. En svo er ekki – og stundum síður en svo. Eina sögu kann ég sem staðfestir þetta. Kona sem ég einu sinni þekkti, og setti stundum í permanet, varð sjötug. Hún hafði verið þreytt og lasin, með stoðkerfisvandamál einsog það heitir, og fannst nú að fátt ætti hún í vændum af spennandi viðburðum. Ekki bætti úr skák að rétt fyrir stórafmælið fékk hún reikning frá húsfélaginu, þar sagði að hún ætti að borga ákveðna upphæð þar sem ákveðið hefði verið á húsfundi að láta endurnýja alla glugga í blokkinni. Hún leit inn hjá mér í kaffisopa og það var þungt í henni.

„Ég vildi helst að ég kæmist sem fyrst undir græna torfu. Ég er orðin leið á að vera lasin, blönk, ein og einmana,“ sagði þessi ágæta kona, sem var búin að vera ekkja í nokkuð mörg ár.

„Blessuð góða, þú veist ekki nema þú eigir bestu ár ævinnar eftir,“ sagði ég og gaf henni meira í bollann. Hún horfði á mig eins og ég væri geimvera og fussaði svo.

„Það er ágætt að vera bjartsýn en fyrr má nú vera, – kanntu ekki annan,“ sagði hún hálfmóðguð og sýndi á sér fararsnið.

En það var eins og ég hefði hitt á óskastundu. Konunni barst í fyrsta lagi tilboð í íbúð sína og í framhaldi af því leiguíbúð á góðum stað, sem hún mátti leigja eins lengi og hún óskaði. Þar næst hringdi læknir hennar í hana og kvaðst vera búinn að sækja um fyrir hana á Náttúrlækningastofnuninni í Hveragerði. Þangað fór hún eftir að hafa flutt í nýju íbúðina.

Í Hveragerði lagaðist hún til muna til heilsunnar. Hún fékk líka skemmtilegan selskap, fór að spila bridds við þrjár konur. Þegar leið að lokum dvalar hennar á hælinu og hún var orðin létt í spori og leit vel út kom frændi einnar konunnar í heimsókn. Hann leitaði frænku sína uppi, þar sem hún sat við spilaborðið. Varla hafði hann augum litið söguhetju okkar, ekkjuna góðu, þegar hann gleymdi frænku sinni, og bauð ekkjunni út að keyra og í framhaldi af því út að borða. Hún var þá á leið í bæinn eftir heilsuhælisdvölina og hringdi í mig og bað mig að setja nú fyrir guðsskuld í sig permanet og klippa sig.

Kom hún svo og settist í eldhúsið hjá mér og ég hóf háraðgerðirnar. Ég vissi ekkert um alvöru málsins og var eitthvað utan við mig að auki. Þurfti að skila stórri blaðagrein um kvöldið. Ég var því heldur handfljót við klippinguna. Konan varð því óvenjulega stutthærð eftir meðferðin hjá mér – og tók því vægast sagt illa.

„Þú hefur eyðilagt líf mitt,“ sagði hún sár og leið.

„Hvaða, hvaða, hárið vex aftur – og mig minnir að líf þitt hafi þegar verið eyðilagt,“ sagði ég og reyndi að slá á létta strengi. Það mistókst. Hún fór og þakkaði varla fyrir klippinguna. Kláraði heldur ekki úr kaffibollanum.

Skemmst er frá að segja að maðurinn sem bauð henni út lét ekki stutta hárið skemma neitt fyrir þeim. Áður en við var litið var hann fluttur inn til hennar í nýju íbúðina og með þeim tókst eitt hið ástríkasta samband sem ég hef þekkt. Oft eru nú unglingarnir ástfangnir – en sú sjötuga og ástmaðurinn, sem var á svipuðum aldri, slógu allt út. Þau sáust ekki nema að leiðast hönd í hönd og oft gleymdu þau sér í samræðum við aðra, svo upptekin voru þau af því að horfa hvort á annað.

Konan er nú látin en „spásögn“ mín rættist heldur betur. Hún átti tíu æðisleg ár með manninum sem hún hitti í Hveragerði. Hann tregaði hana sáran þegar hún lést um áttrætt. Ég er ekki frá því að þessi áratugur sem hún átti með honum hafi verið einn sá besti í hennar lífi, sem var þó víst oft skemmtilegt. Maður veit aldrei hvenær bestu ár ævinnar renna upp.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir september 22, 2014 11:37