Þorkell Sigurlaugsson hættur við formannsframboð hjá FEB

Þorkell Sigurlaugsson er hættur við að bjóða sig fram til formennsku í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Sitjandi formaður Ingibjörg H. Sverrisdóttir sem hefur óskað eftir endurkjöri verður því ein í kjöri á aðalfundi félagsins sem verður haldinn á morgun í Gullhömrum í Grafarholti klukkan 13:30. Framboð Þorkels vakti mikla athygli, ekki síst vegna þess að hann er jafnframt í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar og sækist þar eftir einu af efstu sætunum. Þrír menn sem ekki er vitað til að hafi starfað í félginu buðu sig jafnframt fram í stjórn FEB sem einnig verður kjörin á morgun.  Þau boð voru látin út ganga frá stuðningsmönnum Þorkels að kjósa ætti hann, ásamt þessum þremur nýju mönnum í stjórnina. Finnur Birgisson fráfarandi stjórnarmaður í FEB skrifaði svo grein undir fyrirsögninni Fjandsamleg yfirtaka í félagi eldri borgara? sem vakti töluverða athygli og umræðu.

Þorkell hefur nú dregið framboð sitt tilbaka og á vef Félags eldri borgara í Reykjavík er svohljóðandi tilkynning sem hann gaf út í dag:

Í samtali mínu við formann félagsins sem við áttum fyrr í dag kom fram að ég Þorkell Sigurlaugsson hef ákveðið að draga framboð mitt til formanns FEB til baka.

Á þessum fundi ræddum við jafnframt að vinna saman að hagsmunamálum félagsins, m.a. ræddum við hugmyndir mínar varðandi framtíðarsýn félagsins og vorum að flestu leyti sammála þeirri sýn. Ákveðið var að við myndum eftir atvikum vinna saman að þessum málum og horfa fram á veginn og þau átakamál sem hugsanlega hafa komið upp síðustu daga eru hvað okkur varðar, að baki.

Virðingarfyllst,

Þorkell Sigurlaugsson

 

Ritstjórn mars 7, 2022 23:50