Tengdar greinar

Axlarsítt hár vinsælt núna

„Hárið er oft upplitað og þurrt eftir sumarið“, segir Lilja Sveinbjörnsdóttir hárgreiðslumeistari, þegar hún er spurð hvernig best sé að haga umhirðu hársins á haustin. „Það er algert MÖST að byrja að taka hárvítamín á haustin. Það er hægt að kaupa hárvítamínkúr sem fæst í Krónunni og öllum helstu matvörubúðum. Það er þetta með gula miðanum.  Hárvítamín er einnig selt á hárgreiðslustofum“. Lilja segir að margir fái hárlos á haustin og þá sé gott að taka einn kúr. Hún kann ekki skýringuna á hárlosi á þessum árstíma, þar sem flestir séu einmitt í góðu formi eftir sumarið. „Það er líka gott að taka þaratöflur með hárkúrnum, það gerir galdur“, segir Sonja Líf Svavarsdóttir hárgreiðslukona í Hárgalleríi, sem sem fylgist með samtalinu.

Kleópötru klipping

Lilja segir líka gott að setja djúpnæringu í hárið á haustin eða hárolíu. Hún segir að það sé orðið vinsælla að fá sér olíu í hárið en næringu. Hárolían fáist á hárgreiðslustofum og hún sé búin að vera í notkun í nokkur ár.  Sjálf hefur hún prófað að setja olífuolíu í hárið ef það er mjög þurrt og segir gott að setja hana í um helgi, og hafa hana í hárinu í nokkrar klukkustundir.  „Fólk vill líka gjarnan dekkja hárið á veturna“, segir Lilja. „Það vill líka oft breyta til á haustin og annað hvort fá sér nýjan lit eða fara í klippingu“. Þær eru sammála um það Lilja og Sonja að axlarsítt hár sé vinsælt núna.  Annað hvort eigi það að vera náttúrulegt og svolítið villt, eða alveg slétt og kantað, nokkurs konar Kleópötru klipping.

Franska aðferðin gefur hárinu náttúrulegan blæ

Aðferðin sem stjörnunar nota til að lýsa hárið

Hjá Hárgalleríi, hafa hárgreiðslukonurnar verið að prófa sig áfram með nýja aðferð við að lýsa hár. Þetta er þó ekki splunkuný aðferð í sögu hárgreiðslunnar, því hún á rætur að rekja til Frakklands og kallast Balayage. Hún gengur út á að að túpera strípur í hárið. Hárið er lýst til hálfs, en þá kemur engin rót. „Þú sérð þetta á erlendum stjörnum, hárið er ljósara í endana en rótin dekkri. Þetta kemur mjög náttúrulega út“, segja þær stöllur og bæta við að það sé erfitt að gera þetta, það taki tíma, en komi mjög vel  út.

Ritstjórn október 19, 2017 11:46