Tengdar greinar

Bakan í klúbbinn

Nú er klúbbatíminn hafinn og við megum koma saman eftir leiðindatímabil með samkomutakmörkunum. Við höfum öll hlakkað til þessa tíma og haustið getur hafist með hefðbundu klúbbahaldi. Hér er baka sem slær í gegn í bóka-, sauma- eða gönguklúbbnum. Gjörið svo vel!

400 – 500 g sveppir, gjarnan kastaníusveppir

3 hvítlauksrif

2 msk. smjör

ferskt tímían, nokkrar greinar eða 1 tsk. þurrkað

nýmalaður pipar

salt

steinselja, hnefafylli

1 egg

2 eggjarauður

dl matreiðslurjómi

Hitið ofinn í 200°C. Fletjið deigið úr og leggið í meðalstórt bökuform, þrýstið því niður og snyrtið barmana. Pikkið með gaffli í botn bökunnar og bakið í 5 mín. áður en fyllingin er sett í hann. Skerið sveppina í sneiðar og saxið hvítlaukinn smátt. Bræðið smjörið og látið sveppi, hvítlauk og tímían krauma við meðalhita þar til sveppirnir eru orðnir dökkir og svolítið samanskroppnir. Þá eru þeir orðnir bragðmiklir. Kryddið með pipar og salti, Takið af hitanum og stráið hnefafylli af steinselju yfir. Þeytið saman egg, eggjarauður og rjóma og hellið yfir sveppina í bökunni og bakið í u.þ.b. 20 mín. eða þar til fyllingin hefur stífnað og er orðin gullinbrún. Berið bökuna helst fram heita eða volga en hún er líka góð köld. Mög gott er að bera fram sósu sem útbúin er úr einni dollu af sýrðum rjóma, 1 tsk. hnetusmjör, 1 msk. sojasósa og 1 marið hvítlauksrif.

Bökudeig:

250 g hveiti

75 g smjör, kalt

1 egg

svolítið salt

kalt vatn eftir þörfum

Hveiti og smjör sett í matvinnsluvél sem er látin ganga þar til deigið er eins og fíngerð mylsna. Þá er eggið sett út í og köldu vatni smátt og smátt, einni og einni matskeið í einu þangað til hægt er að hnoða deigið með höndunum en hnoðið sem minnst. Látið deigkúluna í ísskáp í 30 mín. áður en deigið er flatt út.

Ritstjórn október 1, 2021 12:45