Tengdar greinar

„Biden of gamall til að bjóða sig fram aftur“

Joe Biden er 79 ára gamall og elsti sitjandi forseti í sögu Bandaríkjanna. Áhyggjur vegna þess hversu gamall hann er orðinn, eru helsta ástæða þess að kjósendur Demokrataflokksins vilja að flokkurinn finni nýjan forsetaframbjóðana fyrir kosningarnar 2024, segir stjórnmálafræðiprófessorinn og rithöfundurinn Robert Reich sem er sjálfur 76 ára, í grein á bresku fréttavefsíðunni The Guardian. Reich gegndi stöðu atvinnumálaráðherra á tímum  Clintons.

Reich  segir að Biden sé orðinn of gamall til þess að bjóða sig fram til endurkjörs.  Þessa skoðun sína segir hann ekki byggða á aldursfordómum, heldur þekkingu á því að fólk á áttræðis- og níræðisaldri sé farið að hrörna og tapa færni.  Hann sé nokkrum árum yngri en forsetinn og segist tala af reynslu. Hann geti tjúttað og dansað og tekið 20 armbeygjur í einni lotu, en verði samt að viðurkenna að hann finni fyrir því að orkan sé ekki sú sama og áður.

Hann segist ekki hafa áhyggjur af því að Biden geti látist í embætti á síðara kjörtímabili sínu, heldur færniskerðingunni sem fylgi aldrinum.

Þegar ég hitti gamla vini, er það fysta sem er rætt, hvernig menn hafi það. Hvernig er bakið? Hjartað, mjöðmin, sjónin, heyrnin, blöðruhálskirtillinn eða gyllinæðin? Þessi yfirferð getur staðið allan hádegisverðinn og jafnvel eyðilagt stemminguna algerlega.

skrifar Reich sem kemur víða við í greininni þegar hann lýsir áhrifum aldurs á líkama og sál og segir meðal annars.

Mér gengur hræðilega að muna nöfn. Ég spurði Ted Kennedy eitt sinn að því hvernig hann færi að því að muna nöfn og hann svaraði að ef maður hitti einhvern sem væri kominn yfir fimmtugt, væri nóg að spyrja hann hvernig hann væri í bakinu og þá héldi hann umsvifalaust að maður þekkti  hann.

Ég gleymi oft hvar ég setti veskið og lyklana. Ákveðin nafnorð hafa horfið úr höfðinu á mér. Jafnvel þó mér takist að grafa þau uppúr minninu hafa þau tilhneigingu til að falla strax aftur í gleymskunnar dá.

Aðstoðarmenn Biden´s geta haldið reiðu á hvar veskið hans er niðurkomið og hann hefur textavél til að hjálpa sér að muna nafnorðin sem eru farin að hegða sér undarlega, en ég er viss um að hann upplifir að hann sé farinn að gleyma ýmsu.

Ég er ekki lengur æstur í að ferðast og eins og Philip Larkin, myndi ég vilja heimsækja Kína ef ég væri viss um að komast aftur heim í háttinn um kvöldið.  Forsetaflugvélin Air Force One, gerir dagsferðir forsetans mögulegar. Í vélinni eru svo fyrsta flokks svefnherbergi og baðherbergi, þannig að ég efa að ferðalög hans séu mjög íþyngjandi.

Mér er sagt að eftir sextugt lækki fólk um ca. 2 sentimetra á hverju fimm ára tímabili. Það virðist ekki vera sérstakt vandamál fyrir Biden, en það væri það fyrir mig. Ég náði varla fimm fetum (152,5 cm.) þegar ég var uppá mitt besta. Ef ég lifi jafn lengi og faðir minn gerði, er hætta á að ég hverfi alveg.

Hér hefur einungis verið stiklað á stóru í greininni sem er hér þýdd og endursögð. Smelltu hér til að sjá alla greinina. Að vísu hafa lesendur ekki óheftan aðgang að greininni, því miður. En það er hægt að gerast áskrifandi að fréttavefsíðu The Guardian og sjá hana þannig.

Ritstjórn ágúst 9, 2022 07:00