10 ferðaráð áður en lagt er í sumarfríið

Ferðasumarið er hafið og ótrúlega margir leggja leið sína til útlanda eftir ferðastopp vegna Covid síðustu tvö árin. Við rákumst á þessi ferðaráð fyrir eldra fólk, á netinu og snerum þeim uppá íslenskra aðstæður.

  1. Merkið töskurnar. Pakkið létt og merkið ferðatöskurnar vel. Það er alltaf vesen að standa í því að merkja þær í röðinni þegar tékkað er inn. Það getur komið sér vel að taka mynd af ferðatöskunum áður en lagt er í hann, því það kemur fyrir að töskurnar týnast í fluginu. Ef þið ferðist með tösku í algengum lit, til dæmis svarta, er þægilegt að binda skærlitann borða um handfangið, til að hún skeri sig strax úr á farangursfæribandinu þegar komið er á áfangastað.
  2. Allir pappírar á sama stað.Það færist í vöxt að fólk sé með farseðla og annað sem þeim tilheyrir í símanum. Mörgum af eldri kynslóðinni finnst hins vegar enn þægilegt að prenta pappírana út og setja í möppu eða umslag. Það er best að geyma alla ferðapappírana á einum stað, ásamt bólusetningarvottorði ef þörf er á því og vegabréfinu.
  1. Skiljið eftir ferðaáætlun. Ekki skella þér í ferðalag án þess að láta nánustu fjölskyldu eða vini vita. Skildu eftir afrit af ferðatryggingunni, vegabréfinu, ferðaáætluninni og hótelbókunum. Flestir hafa áhyggjur af að vita af sínum nánustu einum á ferð, jafnvel þó þeir vilji ekki viðurkenna það.
  2. Er ferðatryggingin í lagi? Athugaðu hvernig ferðatryggingar þú ert með. Stundum er fólk tryggt í gegnum kortafyrirtækin sín, en sumir kaupa sérstakar tryggingar ætli þeir í ferðalag.  Tryggingarnar geta verið flóknar og það er ástæða til að skoða mjög vel, hvað felst í þeim. Fyrir Íslendinga er viturlegt að hafa einnig með sér Evrópst sjúkratryggingakort, til að hafa við hendina ef veikindi koma upp á ferðalaginu. Hægt er að nálgast það á réttindagáttinni á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands.
  3. Hafið lyfin í handfarangrinum. Fáðu lista hjá lækninum eða apótekinu yfir öll lyf sem þú færð gegn lyfseðli og einnig þau sem þú kaupir í apótekinu án lyfseðils. Það getur komið sér vel að hafa slíkar upplýsingar við hendina ef eitthvað kemur uppá.   Settu öll lyfin í handfarangurinn. Ef farangurinn þinn lendir í Tyrklandi fyrir mistök, fer blóðþrýstingurinn ekki uppúr öllu valdi, eins og myndi gerast ef þú þyrftir að bíða lengi eftir lyfjunum.  Ef þið notið heyrnartæki setjið einnig rafhlöður fyrir þau í handfarangurinn.
  4. Blautþurrkur í flugvélinni. Hver heldur þú að sé óhreinasti staðurinn í flugvél?. Klósettið, sætið eða sætisarmarnir? Nei, það er felliborðið fyrir framan sætið sem safnar mestum óhreinindum. Þeir sem þrífa flugvélarnar á flugvöllunum eru að flýta sér og hafa ef til vill ekki tíma til að fara nákvæmlega í öll smáatriðin. Það er því gott að hafa blautþurrku með sér í flugið og geta hreinsað borðið.
  5. Skiljið dýra skartgripi eftir heima. Það er ekki ráðlegt að ferðast með rándýra hluti með sér í fluginu. Þjófar sitja stundum um eldri ferðamenn og það er óskemmtileg reynsla að lenda í því að láta stela af sér verðmætum og hreint ekki víst að slíkt yrði bætt í ferðatryggingunni. Það er ágætt að ferðast með ódýrt glingur sem hefur ekki mikið tilfinningalegt eða fjárhagslegt gildi.
  6. Aðstoð á flugvelli. Eldra fólki er víða boðið uppá persónulega aðstoð á flugvöllum enda kannast margir við það hversu erfitt það getur verið að bíða í endalausum biðröðum á vellinum, finna rétta hliðið og passa uppá tímann. Langar biðraðir og tafir geta verið algengar á flugvöllum. Það er ástæða til að athuga hvort eldra fólk getur fengið aðstoð á flugvöllunum sem farið er um. Ef hún stendur til boða, er fólk yfirleitt sótt þar sem það tékkar sig inn og ekið , stundum á golfbílum, að brottfararhliðinu.
  7. Afsláttur fyrir eldri borgara. Eldri borgara afsláttur er gefinn víða um lönd, í söfnum, verslunum og einnig í almenningssamgöngum. Ef menn vilja spara litlar upphæðir hér og þar, er hægt að kynna sér málið. Ýmsir veita ferðamönnum afslátt, þó þeir séu ekki búsettir í landinu.
  8. Að fara í hópferð eða ferðast á eigin vegum? Þeir sem eru einhleypir eða ferðast einir, velta stundum fyrir sér hvort þeir eigi að fara í hópferð eða í leiðangra á eigin vegum. Það er ekki víst að það henti eldri borgurum að hafa ferðalagið laust í reipunum, þó það geti passað ungu fólki vel að láta ráðast hvað gerist á ferðalaginu. Eldra fólk er vanara því að njóta öryggis þegar það ferðast og aðbúnaðar við hæfi.  Þeir sem eru einir á ferð, geta líka notið félagsskapar í hópnum kjósi þeir að fara í skipulagða hópferð, en dregið sig í hlé ef þeir vilja hvíla sig í ró og næði.
Ritstjórn júní 21, 2022 07:00