Ef við yrðum 300 ára – hvað þá?

Steingerður Steinarsdóttir

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Þegar ég var unglingur las ég bókina The Trouble with Lichen eftir John Wyndham. Sagan segir frá ungum vísindamönnum sem uppgötva að ákveðið efni í sumum skófum hægir mjög á öldrunarferlinu, svo mjög reyndar að þeir sem taka það inn geta orðið allt að þrjú hundruð ára gamlir. En vegna þess hve torfengið efnið er og í hve litlu magni er hægt að vinna það úr skófunum þarf að velja vel hverjir fá að njóta og hverjir ekki.

Frank, annar vísindamannanna, velur að gefa það nánustu fjölskyldu sinni og lætur þau ekki vita að þau séu að taka inn slíkt efni. Díana, hinn vísindamaðurinn, stofnsetur snyrtistofu og velur þar vandlega ákveðnar áhrifakonur sem hún gefur efnið. Frank telur að hún sé eingöngu að hugsa um gróða en áætlanir Díönu eru mun flóknari. Nú og svo eins og vænta mátti verða ýmsar flækjur og efnið verður hvorki Díönu né Frank til mikillar hamingju.

Þessi saga hefur hins vegar setið í mér og oft orðið tilefni til vangaveltna í gegnum tíðina. Hvað ef lífslíkur okkar allra jykust í þrjúhundruð ár? Myndum við lifa lífinu öðruvísi, taka betur ígrundaðri ákvarðanir til dæmis? Myndum við ganga betur um náttúruna og arfleifð barnanna okkar hvað hana varðar? Í hvert sinn sem hefjast umræður um virkjanaframkvæmdir, uppbyggingu á grænum reitum í miðju borgar eða áform um stóriðju og sjókvíaeldi í fögrum fjörðum flýgur mér í hug, hvað ef við yrðum þrjúhundruð ára, væri þetta þá jafngóð hugmynd og hún virðist akkúrat núna? Skammtímagróði virðist nefnilega vera okkur mun skiljanlegri en langtímavarðveisla og uppbygging á fegurð.

Sigríður í Brattholti barðist fyrir fossinum sem hún elskaði og lifir þess vegna í hugum okkar sem hetja. Skyldu þeir sem berjast fyrir Hvammsvirkjun verða settir á sama stall í hugum barnabarnabarna okkar sem nú eru á dögum? Ætli þau börn verði okkur þakklát fyrir laxeldi í sjó hringinn í kringum landið án tillits til mengunar og áhættu fyrir vistkerfið? Ætli þau börn þrái fyrst og fremst nýtt stóriðjuver eða munu þau horfa með söknuði aftur til okkar tíma og þyrsta í þá ósnortnu náttúru sem þá var til?

Hér í Kópavogi, þar sem ég bý, stendur til dæmis til að byggja upp nýjan miðbæ. Það á að brjóta niður hluta af gömlu Hamraborginni, sem er vel því hún er versta slys íslenskrar byggingarsögu, en í stað þess að byggja mannvænan miðbæ með lágreistum húsum og fögrum torgum á að hrúga upp skógi nýrra háhýsa. Þetta telja menn góða hugmynd þrátt fyrir að nýr miðbær Selfossbæjar njóti aðdáunar og velþóknunar allra er þangað koma og hafi vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Það er engin hætta á að nýr miðbær Kópavogs muni njóta viðlíkrar athygli.

Reykjavík bernsku minnar er líka horfin. Miðbærinn óáhugavert samansafn ljótra nýbygginga innan um gömul fögur hús og hvar sem skein í auðan blett spretta upp ljótar blokkir, alveg ofan í umferðargötum og svo þétt saman að engin hætta á að ljóstýra nái nokkru sinni að skína inn um glugga neðstu hæðanna. Okkur er sagt að það sé reglulega gott að byggja svo nálægt götunni því bílaumferð um borgina muni minnka stórlega á næstu árum en engin merki þess sjást og almenningssamgöngur versna fremur en batna. Nú stendur líka til að eyðileggja síðasta ósnerta hluta strandlengjunnar í borginni og búa til landfyllingu á Laugarnestanga. Þar á svo að byggja háhýsi sem skyggja munu á útsýni til Viðeyjar og út á Sundin og ekkert tillit verður tekið til fornra minja í Laugarnesi. Þær munu hverfa og með þeim minningar og saga, menningarverðmæti sem eru hluti af arfleifð barna okkar.

Já, hvað ef við yrðum almennt þrjúhundruð ára? Ég hef ekki svör við þeim spurningum sem ég varpa hér fram frekar en aðrir en finn að ég vil frekar stíga varlega til jarðar og flýta mér hægt heldur en hitt.