Jóladagur helgast af hefðum frá ömmu og afa

Helgi Björnsson má segja að sé sjálfur hefð en sumum finnst jólin varla byrja fyrr en þeir eru búnir að fara á tónleika með Helga Björns.

Helgi er frá Ísafirði og segir að í hans fjölskyldu séu ríkar hefðir eins og hjá svo mörgum. ,,Við Vilborg bjuggum til okkar hefðir og þegar við höfum ætlað að breyta til hafa börnin okkar sagt ,,stopp nú” og viljað halda Í okkar hefðir eins og þær hafa alltaf verið,” segir Helgi og hlær. ,,Það er einhvern veginn þannig að á jólunum erum við flest föst í hefðum og þykir það gott. Með þessum hefðum koma nefnilega góðar minningar og tilfinningar. Hangikjötið var alltaf á jóladag heima hjá mér þegar ég var barn, Það er mjög rík hefð sem við höldum enn. Við höfum boðið systkinum og vinum og síðan spilum við fimbulfamb og þá taka allir þátt og eldri sem yngri eru saman í liði.”

Hveitikökurnar hennar ömmu

Amma Helga bakaði alltaf sérstakar hveitikökur sem eru gerðar eftir kúnstarinnar reglum og Helga datt í hug að taka þann sið upp fyrir nokkru. ,,Amma bakaði þessar kökur alltaf á hitaplötunni eldavélinni og síðan á pönnukökupönnu,” segir hann. ,,Þessar kökur líkjast í raun mest mexíkóskum tortilla kökum. Í þær fara bara hveiti og vatn, salt og sykur, sódi og lyftiduft. Þær eru síðan  brenndar á pönnunni og svo eru þær bleyttar svolítið og lagðar hver ofan á aðra. Þar bakast þær áfram með því að liggja þétt saman eftir að hafa verið brenndar á pönnunni. Það er orðin hefð hjá mér að baka þessar hveitikökur samdægurs, alltaf á jóladag, rétt áður en gestirnir koma og þá eru þær alveg ferskar. Svo höfum við klassískt uppstúf, grænar baunir og rauðkál fyrir þá sem vilja.”

Hægeldað hangilæri borið fram heitt

,,Ég hef verið að gera ýmsar tilraunir með hangikjötið og er núna búinn að finna aðferð við að elda þennan þjóðlega rétt sem við erum mjög hrifin af. Ég kynntist þessari aðferð þegar við Vilborg komum eitt sinn við á Bjarnarstöðum í Þistilfirði. Þar var okkur boðið upp á þessa óviðjafnanlega góðu hangikjötsmáltíð sem samanstóð af langelduðu hangilæri á beini, uppstúf og grænum baunum,” segir Helgi. ,,Við fengum auðvitað uppskriftina og höfum notað hana síðan. Þá er lærið sett í ofnskúffu með vatni í á 80°C í minnst 8 klukkustundir og borið fram heitt. Á þennan hátt verður hangikjötið alveg ofboðslega gott. Ég hafði verið að skemmta okkur með að elda mismunandi hangirúllur og gert samanburð um hvaða rúlla okkur fyndist best. Svo rifjaðist upp fyrir mér að afi hafði alltaf eldað hangikjötið á þennan hátt. Svo það má því segja að jóladagur helgast af hefðum frá afa og ömmu.”

Börnin oftast með

Helgi og Vilborg eiga þrjú börn og fjögur barnabörn og Helgi segir að mikið fjör sé þegar allir komi saman. ,,Við erum svo heppin að börnin eru oftast með okkur um jólin. Þegar við Vilborg bjuggum til okkar jólahefðir þótti okkur tilvalið að hafa kalkún á aðfangadag. Svo kom sá tími að okkur langaði að breyta til en þá ráku börnin upp ramakvein. Svo við erum alltaf með kalkún á aðfangadag og höfum komið okkar skemmtilegu hefð upp á jóladag. Síðan fengum við hefð í arf frá foreldrum Vilborgar á gamlárskvöld þegar við tókum við húsi þeirra. Við héldum alltaf mikið partí með þeim á gamlárskvöld og höfum haldið í þá hefð. Þá mætir stórfjölskyldan og þá er mikið gaman.”

Helgi og Vilborg hafa haldið í þá hefð að fara í messu á aðfangadag, þ.e. á meðan kalkúnninn klárast í ofninum og það segir Helgi að sé nokkurs konar núvitundarstund rétt áður en hátíðin hefst.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

 

 

 

Ritstjórn desember 25, 2021 12:18