Tengdar greinar

Elsa Haraldsdóttir hárgreiðslumeistari

Elsa Haraldsdóttir segist hafa hætt mörgum sinnum að klippa því hún sé búin að vera svo lengi í faginu. Hún stofnaði hárgreiðslustofu sína Salon Veh í júní 1971 og hefur rekið hana óslitið síðan. „Það er nú þannig þegar maður er í fyrirtækjarekstri að þá er maður bundinn af því að geta gengið í öll störf,” segir Elsa. „Það er alveg sama hvort það er bókhald, þrif, útkeyrsla eða að klippa. Ég hef aldrei hikað við að taka að mér öll þessi störf en það er líka það sem er svo skemmtilegt við að reka fyrirtæki. Hárgreiðslan sjálf er yndislegt starf og verulega gefandi. Það er svo gaman að geta breytt viðskiptavinum þannig að það sé í raun ný manneskja sem stendur upp úr stólnum hjá manni,” segir  hún og brosir.

Elsa var að koma frá Vínarborg þar sem hún hafði verið í tvö ár að vinna þegar hún ákvað að stofna Salon Veh. Hún hafði ætlað sér að fara til Parísar 1968 í þeim erindagjörðum en þá voru svo miklar óeirðir þar að fjölskylda hennar tók ekki í mál að hún færi þangað. „Þá ákvað ég að fara til Vínarborgar í staðinn og hef aldeilis ekki séð eftir því,” segir Elsa. „Það var alveg einstakur og skemmtilegur tími og ég kynntist þar ótrúlega mörgu yndislegu fólki. Þar voru margir Íslendingar við tónlistarnám sem enn eru góðir vinir mínir og svo kynntist ég fólki alls staðar að úr heiminum og það varð grunnurinn að alþjóðlegum áhuga mínum í faginu.”

Elsa rekur nú tvö fyrirtæki, annars vegar hárgreiðslustofuna og svo heildsölu sem hún stofnaði 1978-79. Vörurnar sem hún flytur inn, aðallega frá Bandaríkjunum eru Redken og Colour Wow en bæði merkin eru mjög vinsæl á Íslandi. Hún flytur inn hárvörur og ýmislegt annað sem tengist hári eins og kennsluefni frá Pivot Point fyrir hárskólana, hárkollur og –toppa. „Stofnendur fyrirtækjanna  sem ég flyt vörurnar inn frá eru mikið hugsjónafólk sem hefur haft að leiðarljósi að nota engin aukaefni eða bannvörur í framleiðsluna og bera umhverfið fyrir brjósti.”

Elsa er búin að reka þessi tvö fyrirtæki í rúm 40 ár og hefur ekki dregið mikið af sér. Hún segir að hún njóti sannarlega hvers dags en geri auðvitað ekki plön fram í tímann eins og hún gerði þegar hún var að byrja. „Ég klippi enn einstaka kúnna og hef geysilega gaman af að vera á stofunni þar sem ég hitti marga. Ég nýt þess sannarlega enn að vinna en eðlilega hef ég minnkað við mig á sumum sviðum.“ Þegar Elsa er spurð hvort hún hafi menntað sig eitthvað í fyrirtækjarekstri segir hún: „Nei, ég ætla einmitt að fara í það þegar ég er hætt að vinna. Þá mun ég hafa svo góðan tíma og get fundið út hvaða mistök ég gerði,” segir Elsa og hlær. Þar fyrir utan ætlar hún auðvitað að verja meiri tíma með fjölskyldunni.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

 

Ritstjórn mars 10, 2021 08:10