Þráinn Þorvaldsson skrifar.
„Ég var að koma úr skoðun hjá Hjartavernd,“ sagði kunningi minn sem ég hitti fyrir mörgum árum á gangi í Lágmúlanum líklega árið 1978. Hjartavernd var þá með aðsetur í Lágmúla. „Ertu hjartveikur?“ spurði ég í fáfræði minni. „Nei,“ sagði maðurinn. „Þú átt bíl og ferð með hann reglulega í skoðun á bílaverkstæði án þess að nokkuð sé að honum?“ Ég játti því. „Hefur þú sjálfur farið í skoðun?“ spurði kunningi minn. „Aldrei!“ svaraði ég. „Það ættir þú að gera!“ sagði kunninginn. Ég hafði aldrei sett skoðun á sjálfum mér í slíkt samhengi og ákvað að fara í skoðun. Heimilislæknir minn vildi að ég færi í skoðun hjá hjartalækni og kom mér til hjartalæknis sem eftir þrekpróf og mælingar sagði mig í nokkuð góðu líkamlegu ástandi en þrekið væri í lágmarki. Hann hvatti til meiri hreyfingar. Ég ákvað þá að taka upp skokk. Hlaup voru ekki algeng í þá daga og mér fannst ég hlyti að líta hjákátlega út, rétt að ná því að skokka milli ljósastaura eins og ég gerði í upphafi. En þrekið óx og léttur hlaupaferil minn spannaði 38 ár þar til ég hætti að hlaupa árið 2016. Ég hljóp nokkrum sinnum hálf maraþon, fyrst í Reykjavíkurmaraþoni árið 1991 oftar 10 km í ýmsum hlaupum. Oft var erfitt að gera upp á milli útilega sem við hjónin stundum og Reykjavíkurmaraþons.
Á meðan hlaup fer fram er gott að hafa eitthvað umhugsunarefni til þess að beina huganum að. Ég hef tekið þátt og leitt nokkur frumkvöðlaverkefni sem reyna mikið á úthald ekki síður en hlaup. Síðasta frumkvöðlaverkefnið mitt ásamt fleirum var stofnun SagaMedica, nú SagaNatura. Í einu hlaupinu velti ég fyrir mér samanburði á frumkvöðlastarfi og langhlaupi. Í tilefni frestunar Reykjavíkurmaraþons 2020 fer þessi samanburður hér á eftir í styttri útgáfu.
Undirbúningur
Langhlaup: Enginn á að fara í langhlaup án undirbúnings. Undirbúningur langhlaups krefst þjálfunar, reynslu og fræðslu m.a. um mataræði.
Frumkvöðlastarf: Sama á við um frumkvöðlastarf. Starfið krefst reynslu og þekkingar sem frumkvöðullinn þarf að afla sér áður en hann hefur frumkvöðlastarfið til þess að auka möguleikann á árangri.
Tímaáætlanir
Langhlaup: Þegar lagt er af stað í hlaup er tímamarkmið sett sem miðast við reynslu hlauparans. Markmiðið er yfirleitt að viðkomandi hlaup verði besti árangur hlauparans til þessa. Markmiðin nást ekki alltaf.
Frumkvöðlastarf: Frumkvöðullinn gerir áætlun um framkvæmd verkefnisins og þar á meðal hvenær verkefnið mun skila árangri. Þær tímaáætlanir standast oftast ekki.
Orkustöðvar
Langhlaup: Í langhlaupum eru orkustöðvar með ákveðnu millibili þar sem boðið er upp á orkudrykki. Nokkrum mínútum eftir að hafa drukkið glas af orkudrykk á hlaupum finnur hlauparinn aukin kraft til þess að halda hlaupinu áfram. Við hverja orkustöð fæst endurnýjaður kraftur.
Frumkvöðlastarf: Þegar frumkvöðullinn fær fyrsta styrkinn t.d. frá Rannís eða fyrsti fjárfestirinn ákveður að leggja fé á fyrirtækið virkar það örvandi eins orkudrykkur til þess að halda áfram. Sama gerist í hvert skipti sem frumkvöðullinn fær fjárhagslegan stuðning.
Hvatning
Langhlaup: Með hlaupabrautinni stendur fólk og hvetur hlauparana áfram með klappi og hrópum. Slíkt er örvandi fyrir hlauparann en þeir sem hvetja eru ekki hlauparar og vita fæstir hvað þarf til þess að geta tekið þátt í langhlaupi.
Frumkvöðlastarf: Frumkvöðlastarf er mikilvægt fyrir uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífinu. Mikil hvatning er til frumkvöðlastarfs og aldrei meiri þörf en í núverandi Covid19 ástandi. En það eru fleiri sem hvetja til frumkvöðlastarfs og nýsköpunar heldur en að taka þátt í slíku starfi.
Andlegt úthald
Langhlaup: Þegar líður á hlaupið fer þreyta að gera vart við sig. Hlauparinn fer jafnvel að hugsa um af hverju hann sé að standa í þessu erfiði. Enginn bað hann um það. Hann gæti verið heima, kneifað bjór og horft á knattspyrnuleik í sjónvarpinu. Mun þægilegra væri líka að standa á hliðarlínunni og hvetja aðra til dáða.
Frumkvöðlastarf: Frumkvöðullinn veltir því stundum fyrir sér af hverju hann væri að leggja þetta erfiði á sig. Hann getur aðeins ásakað sjálfan sig fyrir að leggja út á þessa erfiðu braut. Frumkvöðullinn gæti verið í föstu starfi hjá öðrum þar sem hann fær launin greidd í lok mánaðar áhyggjulaust og þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvort hann eigi fyrir vinnulaunum sínum eða annarra starfsmanna í lok mánaðar.
Brottfall
Langhlaup: Hlauparinn tekur eftir því að nokkuð er um að hlauparar heltast úr lestinni og sér jafnvel sjúkraliða sinna liggjandi hlaupurum. Ekki eru allir jafnvel undirbúnir fyrir hlaupið, bæði líkamlega og andlega.
Frumkvöðlastarf: Frumkvöðullinn heyrir af tilfellum þar sem aðrir frumkvöðlar hafa hætt störfum og haldið á önnur mið. Hann veit að tölfræðin um árangur er ekki hagstæð en almennt er álitið að 2 af hverjum 10 frumkvöðlaverkefnum nái árangri.
Takmarkið í augsýn
Langhlaup: Svo er komið að endasprettinum þegar sveigt er inn í Lækjargötuna og endamarkið er í augsýn. Þá fyllist hlauparinn miklum krafti og á því augnabliki hugsar hann að ekki myndi muna um að hlaupa annan hring.
Frumkvöðlastarf: Frumkvöðullinn fyllist endurnýjuðum krafti þegar hann sér hilla undir árangur af frumkvöðlastarfinu. Varan og þjónustan er tilbúin til markaðssetningar og brautin til árangurs virðist greið. Þetta var ekki eins erfitt eins og líðanin á leiðinni gaf til kynna.
Sigurgleðin
Langhlaup: Þegar komið er inn fyrir lokamarkið ríkir mikil gleði. Þegar ég hef sagt frá þessari samlíkingu frumkvölastarfs og langhlaups hef ég hvatt hlustendur til þess að fara í Lækjargötuna þegar Reykjavíkurmaraþon stendur yfir og horfa yfir hópinn sem kominn er í mark. Allir hafa fengið medalíu um hálsinn. Mikil sigurgleði ríkir og bros er á hverju andliti. Allir eru glaðir vegna þess að þeir hafa sett sér markmið og náð því. Markmiðin geta hafa verið 10 km, hálft maraþon (21km) eða heilt maraþon (42km). Hlaupatíminn var ólíkur en hlauparinn hefur náð því markmiði sem hann stefni að. Margir fara strax að leiða hugann að næsta hlaupi.
Frumkvöðlastarf: Sigurgleðin er mikil hjá frumkvöðlinum þegar fyrsta varan kemur á markað eða ný þjónusta er kynnt á markaði. Haldið er upp á árangurinn og þeir sem hafa komið að verkefninu gleðjast. Frumkvöðullinn og aðstandendur verkefnisins hafa náð því markmiði sem þeir settu sér í upphafi. Strax er farið að huga að næstu skrefum í frumkvöðlastarfinu.
Ég hugsa oft með þakklæti til kunningja míns sem nú er látinn og mælti orðin sem ég gat um í upphafi. Án þeirra er óvíst hvort ég hefði lagt á hlaupabrautina. Ég hef stundum rætt um að með hreyfingu og hollum lifnaðarháttum hafi ég verið að leggja inn á heilsubankann. Ég tel mig á efri árum hafa þurft að taka út úr þessum heilsubanka í baráttu við sjúkdóm sem ég hef fengist við og komist yfir. Ég tel mig hafa verið betur í stakk búinn líkamlega og jafnvel andlega að takast á við erfiðleikana. Ég er einnig sannfærður um að hlaupareynslan gerði mig hæfari og úthaldsbetri til þess að takast á við frumkvöðlabaráttuna.